Hoppa yfir valmynd
1. september 2023 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 1. september 2023

Heil og sæl, 

Liðin vika var heldur betur yndisleg, veðurfarslega séð en nú er fjörið búið. Fyrsta haustlægðin lætur að sér kveða í kvöld, við erum búin að pakka saman trampólíninu og hvetjum ykkur öll til að verja helginni innandyra. Í utanríkisþjónustunni gekk lífið auðvitað sinn vanagang með fjöldamörgum fundum og viðburðum. Við skulum líta yfir það sem stóð upp úr að þessu sinni.

Ársfundur Vestnorræna ráðsins fór fram með pompi og prakt á Alþingi í vikunni. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tók auðvitað þátt í fundinum. Málefni hafsins og fríverslun voru efst á baugi í hennar ávarpi. Hún átti einnig bæði tvíhliða og þríhliða fundi með Vivian Motzfdeldt utanríkisráðherra Grænlands og Høgna Hoydal, utanríkisráðherra Færeyja. Á fundunum ræddu ráðherrarnir þrír sameiginleg tækifæri og áskoranir sem og mikilvægi vestnorrænnar samvinnu, pólitísk mál líðandi stundar og viðskipti. 

Aðalræðismaður Íslands í Færeyjum, Ágústa Gísladóttir, var stödd á landinu af þessu tilefni og deildi fréttum af fundunum á Facebooksíðu aðalræðisskrifstofunnar. 

Yfirmaður flugherstjórnar Atlantshafsbandalagsins, James B. Hecker hershöfðingi, heimsótti ráðherra á Rauðarárstíginn og kynnti sér jafnframt öryggissvæðið í Keflavík og hitti þar liðsmenn bandarísku flugsveitarinnar sem dvelja þar um þessar mundir auk þess sem hann heimsótti ratsjárstöðina á Bolafjalli. Þróun öryggismála og viðbúnaður bandalagsins, sérstaklega hvað varðar loftvarnir og eftirlit, voru til umræðu á fundi ráðherra með hershöfðingjandum en framlag Íslands í formi rekstrar ratstjár- og fjarskiptastöðva skiptir miklu máli fyrir eftirlit með loftrýminu yfir Norður-Atlantshafi.  

Og þá út í heim en eins og alkunna er standa sendiskrifstofur okkar fyrir fjölmörgum viðburðum og sinna hagsmunagæslu fyrir Íslendinga erlendis og heima á sviði viðskipta, menningar og í tengslum við skuldbindingar Íslands í alþjóðasamstarfi. 

Lítum yfir viðburði vikunnar. Byrjum í Bandaríkjunum. 

Sendiráð Íslands í Washington skipulagði ferð til Íslands og Noregs með starfsmönnum Öldungadeildarþingmanna frá Bandaríkjaþingi sem farin var á dögunum. Meginþema ferðarinnar var öryggis- og varnarmál en einnig fengu starfsmennirnir að upplifa íslenska náttúru og menningu. 

Sendiráð Íslands í Washington fékk líka þann heiður að vera gestgjafi á opnunarhátíð DC Jazz Festival sem stendur yfir í borginni frá 30. ágúst til 3. september næstkomandi. Bergdís Ellertsdóttir, sendiherra Íslands í Bandaríkjunum og Sunny Sumter, framkvæmdastjóri DC Jazz Festival opnuðu hátíðina og undirstrikuðu við það tilefni mikilvægi menningarsambands Íslands og Bandaríkjanna og sameiningarmátt tónlistar. Íslenska jazztónlistarkonan Sunna Gunnlaugs og tríóið hennar kom fram við góðar undirtektir. Tríóið skipa auk Sunnu, sem spilar á píanó, þeir Þorgrímur Jónsson á bassa og Scott McLemore á trommur. Á opnunarkvöldinu kom einnig fram bandaríska tríóið the String Queens sem er meðal stærstu nafna á hátíðinni í ár. 

Af sama tilefni hélt sendiráðið móttöku fyrir styrktaraðila og velunnara hátíðarinnar í sendiráðsbústaðnum. Sunna Gunnlaugs og tríó tróðu þar upp einnig.  

Jazz átti sviðið á fleiri stöðum en í Washington. Íslenska Jazzhljómsveitin ADHD lék á hinum víðfræga Jazz klúbbi A-Trane í Berlínarborg fimm kvöld í röð ásamt því að halda vinnustofu á sama stað. Sendiráð Íslands í Berlín studdi og sótti viðburðinn.

Og það er ekki bara jazz sem leikur við hljóðhimnur gesta og gangandi í Berlín. Samnorræna sýningin í Felleshus, húsi norrænu sendiráðanna í Berlín, er í ár tileinkuð þungarokki í öllum sínum birtingarmyndum og hefur hún laðað til sín fjölbreyttan hóp þungarokkara á öllum aldri. Boðið hefur verið upp á margþætta dagskrá, bæði upplýst um þemað í bók Nico Rose „Hard, Heavy and Happy“ sem og tekið á neikvæðu hliðum þungarokks fyrri tíma. Áhorfendatölurnar tala sínu máli, en 16.567 manns hafa heimsótt sýninguna miðað við daginn í dag, þar af hefur mætingin á viðburðina verið hvorki meira né minna en 666(!) manns.

Í næstu viku fer fram fjölskyldudagur þar sem börn fá m.a. tækifæri til að garga með stæl í „Growling-Workshops“ og horfa á fjölskyldumyndina „Heavysaurus“. Við hvetjum öll sem eru stödd í borginni til að skrá sig. 

Í New York keppast fastanefndir hjá Sameinuðu þjóðunum, þeirra á meðal okkar eigin íslenska, við að afgreiða mál á 77. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna áður en það 78. verður sett í næstu viku. 

Sendiherra Íslands í Finnlandi, Harald Aspelund, tók á móti góðum gestum úr dómsmálaráðuneytinu. 

Hann tók einnig þátt í hátíðlegri athöfn á herstöð Atlantshafsbandalagsins, Camp Adazi í Lettlandi þar sem Sveinn Helgason, fulltrúi Íslands var kvaddur eftir tveggja ára störf sem borgaralegur sérfræðingur í upplýsingamiðlun í fjölþjóðaliði Atlantshafsbandalagsins í Lettlandi. Sveinn var sæmdur heiðursorðu fyrir störf sín af tilefninu. Brynja Dögg Friðriksdóttir tekur við af honum og um leið og Sveinn var kvaddur var tekið vel á móti henni. 

Í sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn var opnuð listasýning með verkum eftir Áslaugu Írisi Katrínu Friðjónsdóttur og Ingunni Fjólu Ingþórsdóttur (segið þetta tíu sinnum). Sýningin ber titilinn Samhljómur og stendur til 12. janúar 2024. Árni Þór Sigurðsson, nýr sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn opnaði sýninguna sem unnin er í samvinnu við Listval Gallery. 

Gleðigöngur sumarsins héldu áfram í liðinni viku. Að þessu sinni var gengið í Ottawa. Starfsfólk sendiráðs Íslands á staðnum fylkti liði í göngunni undir merkjum #DiplomatsForEquality ásamt hinum Norðurlöndunum og fleiri ríkjum. 

Efnt er til samkeppni um tillögur að uppsetningu pólskrar þýðingar verksins "Helgi Þór rofnar" eftir Tyrfing Tyrfingsson. Sendiráð Íslands í Póllandi greinir frá og auglýsir á Facebook síðu sinni. 

Gestir á fyrsta Íslandsdeginum sem sendiráð Íslands í Póllandi stóð fyrir um liðna helgi gæddu sér á kjötsúpu og plokkfiski og nutu íslenskrar listar. Dagurinn var haldinn að frumkvæði Piotr Mikołajczak með það að augnamiði að kynna íslenska menningu fyrir Pólverjum. Emiliana Konopka, viðskiptafulltrúi okkar í sendiráðinu átti einnig ríkan þátt í skipulaginu. Viðburðurinn var skipulagður undir hatti vinabæjarsambands Uniejów og Grindavíkur og tóku bæjarstjórar bæjanna, Fannar Jónasson og Józef Kaczmarek til máls ásamt Hannesi Heimissyni, sendiherra Íslands í Póllandi. 

Með haustmyrkrinu koma ráðstefnurnar og við viljum nota tækifærið hér til að benda á tvær góðar, til fróðleiks og hugvekju. Önnur er hin árlega friðarráðstefna Höfða friðarseturs. Þemað í ár er Nordic Solidarity for Peace. Formennska Íslands í Norrænu ráðherranefndinni á hönd í bagga með þeirri veglegu dagskrá sem boðið er upp á að þessu sinni. Skráið ykkur hér.

Hin er ekki síður spennandi og er einnig haldin með stuðningi íslenskra stjórnvalda og Norrænu ráðherranefndarinnar. Á ráðstefnunni er fjallað um plast á norðurslóðum. Hún ber heitið Arctic Plastic og fer fram í nóvemberlok í Reykjavík. Skráning fer fram hér.

Starfsfólk utanríkisþjónustunnar er að sjálfsögðu flest mikið áhugafólk um alþjóðamál og sögu utanríkismála á Íslandi. Þó eru þau ekki mörg sem eru eins ástríðufull í áhuga sínum og Dr. Magnús K. Hannesson, fyrirsvarsmaður Íslands gagnvart Rússlandi, sem hefur um árabil safnað munum sem tengjast hinni íslensku konungsfjölskyldu. Hann sagði skemmtilega frá safninu í viðtali við RÚV síðastliðinn þriðjudag sem við deilum hér svo fleiri geti notið. 

Með kærri kveðju,
upplýsingadeild.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum