Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Vellíðan og virkni nemenda af erlendum uppruna rædd

Najamo, 19 ára nemandi í Fjölbrautaskólanum við Ármúla tók þátt í gerð fræðslumyndbanda SÍF um upplifun nemenda af erlendum uppruna af íslensku skólakerfi.  - myndSÍF
Samband íslenskra framhaldsskólanema hélt opinn fund á dögunum um málefni ungs fólks af erlendum uppruna, innan skólakerfisins og utan. Fundurinn var haldinn í framhaldi af verkefninu Menningarþræðir þar sem nemendur í framhaldsskólum landsins komu saman til þess að læra um og ræða stöðu innflytjenda og flóttamanna í framhaldsskólum og leiðir til þess að bæta stöðu þeirra, vellíðan og þátttöku.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra tók þátt í fundinum og kynnti þær áherslur og verkefni sem ráðuneytið vinnur að á þessum vettvangi: „Staða barna og ungmenna af erlendum uppruna er ein mikilvægasta áskorunin sem við stöndum frammi fyrir í þróun okkar menntakerfis til framtíðar. Niðurstöður rannsókna sýna að nemendur af erlendum uppruna standa verr að vígi en þeir nemendur sem hafa íslensku að móðurmáli og það eru meiri líkur á að þeir hverfi frá námi þegar skólaskyldu lýkur. Það er ekki síst mikilvægt að auka vellíðan þeirra og virkni innan skólasamfélagsins svo draga megi úr þeirri hættu. Á þessu ári forgangsröðuðum við 800 milljóna kr. aukaframlagi til framhaldsskólanna til að mæta nemendum í brotthvarfshættu, sem skólarnir hafa meðal annars nýtt í að efla stoðþjónustu sína við þennan hóp. Ég fagna framtaki Sambands íslenskra framhaldsskólanema; nemendur eru lykilaðilar í því að skapa gott skólasamfélag og meðvitund þeirra, stuðningur og hugmyndir vega þungt á metunum þegar kemur að þessu verkefni.“

Fram kom á fundinum að framhaldsskólanemendur telja að þörf sé á bættu aðgengi að námsefni og upplýsingum um íslenskt skólakerfi, að brúa þurfi betur bilið milli íslenskra og erlendra nemenda og styrkja kennara í því að taka á móti fjölbreyttum nemendahópum.

Samband íslenskra framhaldsskólanema gerði fræðslumyndbönd þar sem rætt er við nemendur af erlendum uppruna um upplifun þeirra af íslenska skólakerfinu. Þau má nálgast á Facebook-síðu SÍF.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum