Hoppa yfir valmynd
10. nóvember 2014 Matvælaráðuneytið

Alþjóðleg ráðstefna um, byggðamál, svæðisbundna nýsköpun og norræna lífhagkerfið

Nordregio
Nordregio

12. og 13. nóvember verður haldin ráðstefna í Hljómahöllinni í Keflavík þar sem fjallað verður um það hvernig norræna lífhagkerfið getur stutt við nýsköpun í dreifbýli. Ráðstefnan er haldinn samhliða fundi Norrænu ráðherranefndarinnar um atvinnu-, orku- og byggðamál (MR-NER) en þar verða m.a. byggðamálaráðherrar Íslands, Noregs og Svíþjóðar.  

Með „lífhagkerfinu“ er átt við þá nýju nálgun sem er að ryðja sér rúms að í stað þess að líta á nýtingu lífrænna auðlinda sem aðskildar atvinnugreinar, t.d. sjávarútveg, landbúnað og skógrækt, þá sé horft til þess hvernig þessar greinar tengjast innbyrðis og hafa áhrif á hvora aðra. Þannig getur landbúnaður framleitt orku fyrir sjávarútveginn og fóður fyrir fiskeldið; sjávarútvegurinn framleiðir ekki einungis fisk heldur einnig hráefni fyrir lyfja- og snyrtivöruframleiðslu; hægt er að rækta sveppi á viðarkurli sem aftur nýtast til skepnufóðurs og þar fram eftir götum. Aðalatriðið er að í stað línulegra framleiðsluferla eru allar aukaafurðir nýttar og framleiðsluferlarnir verða því hringlaga.

Þessi nýi veruleiki skiptir miklu máli fyrir þróun dreifbýlis því þar er áherslan á auðlindanýtingu grundvöllurinn fyrir atvinnu og búsetu.

Á ráðstefnunni eru tekin fjöldamörg dæmi frá öllum Norðurlöndunum sem lýsa þeim áskorunum sem mismunandi svæði standa frammi fyrir. Einnig verður sagt frá reynslu Skota af því að nýta eigin auðlindir til hagsbóta fyrir staðbundið efnahagskerfi Skotlands.

Ráðstefnan er haldin að tilstuðlan Nordregio, sem er stofnun á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar um samstarf í byggðamálum, Norrænu ráðherranefndarinnar, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og Byggðastofnunar

Dagskrá ráðstefnunnar má lesa hér. 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum