Hoppa yfir valmynd
4. desember 2006 Utanríkisráðuneytið

Undirritun viljayfirlýsingar um fríverslunarviðræður milli Íslands og Kína

Frá undirritun viljayfirlýsingar um fríverslunarviðræður
Frá undirritun viljayfirlýsingar um fríverslunarviðræður

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu

Nr. 089

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra átti í dag fund með Yu Guangzhou aðstoðarutanríkisviðskiptaráðherra Kína í Peking. Á fundinum ræddu ráðherrarnir tvíhliða samskipti ríkjanna og aukin umsvif íslenskra fyrirtækja í Kína á undanförnum misserum. Á fundinum var undirrituð viljayfirlýsing um upphaf fríverslunarviðræðna milli ríkjanna. Var ákveðið að þær myndu hefjast þegar í upphafi árs 2007.

Að loknum fundinum var utanríkisráðherra gestgjafi í mótttöku í tilefni af 35 ára stjórnmálasambandi Íslands og Kína. Móttökuna sóttu á þriðja hundrað manns og voru þar meðal annars fulltrúar opinberra aðila, erlendra ríkja og atvinnulífsins, auk íslenskra námsmanna.

Í gær opnaði utanríkisráðherra formlega fyrsta áfanga nýrrar hitaveitu í borginni Xian Yang í Shaanxi héraði. Hitaveitan er samstarfsverkefni Shaanxi Geothermal Energy og ENEX Kína, sem að standa Orkuveita Reykjavíkur, Glitnir og ENEX.

Síðar í dag heldur utanríkisráðherra til Shanghai, þar sem hún mun á morgun setja ráðstefnu nýstofnaðs samráðsvettvangs íslenskra fyrirtækja í Kína og verða jafnframt vistödd opnun nýrrar skrifstofu Glitnis. Glitnir er fyrsta íslenska fjármálafyritækið sem opnar skrifstofu í Kína.



Frá undirritun viljayfirlýsingar um fríverslunarviðræður
Frá undirritun viljayfirlýsingar um fríverslunarviðræður

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum