Hoppa yfir valmynd
17. ágúst 2018 Utanríkisráðuneytið

Fólksflutningar og mannréttindi rædd á vinnufundi í Kúveit

Hópmynd af fulltrúum á fundinum. - mynd

Í júlí stóðu stjórnvöld og landsteymi stofnana Sameinuðu þjóðanna (SÞ) í Kúveit fyrir vinnufundi til að ákvarða stefnu- og aðgerðaáætlun fyrir samvinnu þeirra fram til ársins 2023. Yfirskrift fundarins var „Forgangsröðun og árangurstengd viðmið í samvinnu fyrir friði, velmegun, hagsmunum fólks og jarðarinnar.“ Fundinum var stýrt af aðalritara æðsta ráðs stjórnvalda Kúveit um skipulagsmál og framþróun. Sameiginleg aðgerðaáætlun stjórnvalda og stofnana Sameinuðu þjóðanna er sett fram til að styðja við framfylgni við núgildandi þróunaráætlun stjórnvalda fram til ársins 2035. Helstu áherslur og markmið þeirrar áætlunar lúta að því að gera opinbera stjórnsýslu skilvirkari og aðgengilegri; að skapa meiri fjölbreytni í efnahagslífinu og á vinnumarkaði; betri og umhverfisvænni nýtingu á orkuauðlindum og sköpun græns hagkerfis; bætt heilbrigðisþjónusta og betra aðgengi að henni; meiri stuðningur við ungmenni og fólk með fötlun; og fleiri og betri menntunartækifæri sem skila þeim mannauði sem þörf er fyrir á vinnumarkaði.   

Undirrituð sótti fundinn sem annar af tveimur fulltrúum Svæðisskrifstofu Mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna fyrir Mið-Austurlönd og Norður Afríku, og var sérstaklega til þess litið við þá ákvörðun að í maímánuði á þessu ári stofnaði landsteymið vinnuhóp um fólksflutninga, flóttafólk og mannréttindi með þátttöku níu stofnanna SÞ, meðal annars Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR), Alþjóða Fólksflutningastofnunarinnar (IOM) og Alþjóða Vinnumálastofnunarinnar (ILO), Þróunarsjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNDP) og Matvælastofnunnar Sameinuðu þjóðanna (WFP). Megin tilgangur vinnuhópsins er að efna til og vinna að sameiginlegum verkefnum stofnana Sameinuðu þjóðanna og stjórnvalda sem lúta að fólksflutningum og mannréttindum, meðal annars í tengslum við framfylgni við hina nýgerðu alþjóðlegu samþykkt um fólksflutninga (Global Compact on Migration) sem búist er við að verði samþykkt formlega af aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna á fundi þeirra í Marokkó í desember 2018.

Í framsögum fulltrúa stjórnvalda um markmið hinnar sameiginlegu aðgerðaáætlunar fyrir Kúveit var tekið fram að hún nær eingöngu til ríkisborgara landsins en þeir eru um 30% af heildarfjölda íbúa þess sem er rúmar fjórar milljónir manna. 70% þeirra sem búa í Kúveit eru annað hvort innflytjendur eða svonefndir bidoons. Orðið bidoon merkir ´án´og er það notað yfir einstaklinga sem eru ríkisfangslausir. Þessi hópur telur um 110.000 manns og eru einstaklingar, eða afkomendur þeirra,  sem hafa búið og starfað í Kúveit kynslóð fram af kynslóð, en gátu ekki fengið ríkisfang í landinu á grundvelli laga um ríkisfang sem voru sett árið 1959, tveimur árum áður en Kúveit varð sjálfstætt ríki. Lögin kveða meðal annars á um að ríkisfang sé veitt ef einstaklingur getur sannað að fjölskylda hennar/hans hefur verið búsett í landinu frá árinu 1920 og að barn konu með ríkisfang í Kúveit og föðurs sem er bidoon, geti ekki fengið ríkisfang þar.

Heildarfjöldi innflytjenda í Kúveit er rétt undir þremur milljónum, þar af eru 1,1 milljón frá öðrum Arabaríkjum og um 1,4 milljónir frá ýmsum ríkjum Asíu. Þeir hópar innflytjenda sem eru í hvað viðkvæmastri stöðu hvað mannréttindi varðar eru þeir sem starfa við þjónustustörf á einkaheimilum og verkamenn í byggingarvinnu. Fjöldi þeirra sem starfar við þjónustustörf á einkaheimilum er um 620,000, sem er 21.9% af heildarfjölda allra sem eru á vinnumarkaði í Kúveit, en 90% af heimilum í landinu eru með starfsfólk inni á heimilum sínum.

Verkamenn í byggingarvinnu eru um 190.000 talsins, sem er 17% allra erlenda ríkisborgara á vinnumarkaði.

Þrátt fyrir að ýmsar úrbætur hafi verið gerðar á síðustu árum hvað varðar réttarstöðu innflytjenda á vinnumarkaði er ennþá í gildi fyrirkomulag sem nefnist Kafala sem felur í sér að landvistar- og atvinnuleyfi er veitt atvinnuveitandanum en ekki innflytjandanum sjálfum. Koma innflytjenda vegna atvinnu til landsins, dvöl þar og brottför úr landi er algjörlega háð vinnuveitanda þeirra. Þetta kerfi hefur leitt af sér kefisbundna misnotkun á innflytjendum, sérstaklega þeim sem starfa við þjónustustörf á einkaheimilum, en þeir eru undanskildir almennri vinnulöggjöf og því nánast réttlausir á vinnumarkaði. Árið 2013 bönnuðu stjórnvöld í Eþíópíu ríkisborgurum sínum að flytja til Kúveit vegna atvinnu og í byrjun árs 2018 gerðu stjórnvöld Filippseyja slíkt hið sama. Í báðum tilfellum var bannið tilkomið vegna alvarlegra tilfella ofbeldis gagnvart ríkisborgurum þessara landa sem störfuðu við þjónustustörf á einkaheimilum. Bæði Eþíópía og Filippseyjar afléttu nýverið þessum bönnunum eftir að stjórnvöld í Kúveit gerðu sérstakar úrbætur hvað varðar réttindi innflytjenda frá þessum tveimur ríkjum. Úrbæturnar felast meðal annars í því að atvinnurekandi megi ekki taka vegabréfið af starfsmanni sínum við komuna til landsins og að þeir fái einn frídag í viku. Aðstæður innflytjenda sem vinna láglaunastörf í öðrum ríkjum við Persaflóa eru sambærilegar aðstæðum í Kúveit og eru mannréttindabrot gagnvart þeim kerfisbundin og alvarleg. Vegna alþjóðlegs þrýstings í tengslum við byggingu fótboltamannvirkja í Katar á síðastliðnum árum hafa stjórnvöld þar nú gert nokkrar úrbætur á réttindum erlends verkafólks og hafa heitið því að afnema Kafala kerfið, en framkvæmd þess kerfis í ríkjunum við Persaflóa sem og öðrum ríkjum Mið-Austurlanda er helsta undirrót þeirra kerfisbundnu brota á mannréttindum innflytjanda sem viðgengst hér.

Bjarney Friðriksdóttir starfar sem mannréttindasérfræðingur á sviði fólksflutninga á svæðisskrifstofu Mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna fyrir Mið-Austurlönd og Norður Afríku, með aðsetur í Beirút.

 

  • $alt

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum