Hoppa yfir valmynd
1. nóvember 2019 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra afhenti jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs

Verðlaunahafarnir: Rauðsokkur, Knúzið og Rótin - mynd
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, afhenti jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs í gær. Að þessu sinni voru það þrír aðilar sem hlutu viðurkenninguna:

Rótin – félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda, hlýtur viðurkenningu fyrir að vekja umræðu um konur, fíkn, áföll, ofbeldi og geðheilbrigði og huga að sérstökum meðferðarúrræðum fyrir konur. Í rökstuðningi sínum segir Jafnréttisráð m.a. að félagið sé brautryðjandi í umræðunni um tengsl áfalla, ofbeldis og fíknar hér á landi. Rótin var stofnuð í Reykjavík 8. mars 2013 og hefur því starfað óslitið á sjöunda ár.

Rótin hefur með starfi sínu og málflutningi kynnt nýjar kenningar og hugmyndir um konur, fíkn, áföll, ofbeldi og geðheilbrigði. Þannig hefur Rótin ögrað viðteknum hugmyndum um leiðir til bata.

Rauðsokkahreyfingin fær viðurkenningu Jafnréttisráðs fyrir að hafa sett kyn- og frjósemisréttindi á dagskrá á Íslandi á 8. áratug síðustu aldar. Þær börðust fyrir frjálsum fóstureyðingum og ruddu þannig brautina fyrir þeim lögum sem voru samþykkt á Alþingi sl. vor, sem tryggja konum sjálfsákvörðunarrétt yfir eigin líkama. Í rökstuðningi sínum segir Jafnréttisráð m.a. að barátta Rauðsokkanna hafi gert heiminn betri og rutt brautina fyrir komandi kynslóðir. Rauðsokkurnar eru okkur innblástur til að halda áfram baráttunni fyrir kvenfrelsi og jafnrétti.

Knúz – femínískt vefrit fær sérstaka fjölmiðlaviðurkenningu Jafnréttisráðs fyrir að halda úti feminískri umræðu um samfélagsmál. Í rökstuðningi sínum segir Jafnréttisráð að Knúz – feminískt vefrit birti greinar eftir breiðan og fjölbreyttan hóp fólks sem skrifar um jafnrétti og feminisma. Rétt eins og hópurinn sem stendur að vefritinu þá eru greinarnar jafn fjölbreyttar og þær eru margar. Viðfangsefnin eru allt frá nauðgunarmenningu til launamisréttis auk þess sem tekið er á stórum málum eins og forréttindum.

Rödd Knúzins er sterk í baráttunni fyrir kvenfrelsi og jafnrétti. Knúzið hefur sýnt frumkvæði og opnað augu margra fyrir mikilvægi feminískrar umræðu í samfélaginu.
  • Verðlaunahafarnir: Rauðsokkur, Knúzið og Rótin
  • Verðlaunahafarnir: Rauðsokkur, Knúzið og Rótin

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

 Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira