Hoppa yfir valmynd
22. maí 2008 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Rætt um samgöngur þjóðar og lífæð borgar

Samgöngur þjóðar - lífæð borgar var yfirskrift fundar Flugmálafélags Íslands í morgun þar sem rætt var einkum um Reykjavíkurflugvöll og þýðingu flugs. Frummælendur voru úr ýmsum áttum og ræddu málin frá sínu sjónarhorni. Var fundurinn hluti af flugdagskrá sem staðið hefur alla vikuna.

Fundur Flugmálafélagsins um Reykjavíkurflugvöll.
Fundur Flugmálafélagsins um Reykjavíkurflugvöll.

Matthías Sveinbjörnsson, ritari félagsins, hóf fundinn á að minna á umfang starfseminnar á vellinum, þar væru ekki færri en 25 aðilar með rekstur og starfsmenn vart undir um 400. Hann sagði völlinn mikilvægan vegna sjúkraflugs sem væru kringum 200 á ári, minnti á að allar höfuðborgir í Evrópu hefðu flugvöll í innan við 20 km fjarlægð frá miðborg og hann taldi ýmis ónýtt tækifæri felast í starfsemi núverandi flugvallar í Vatnsmýrinni.

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, sveitarstjóri í Tálknafirði, sagði innanlandsflugið vera einu almenningssamgöngurnar sem næðu til alls landsins. Sagði hún um 60% farþega í innanlandsflugi vera almenning sem annars vegar sækti afþreyingu og önnur erindi til höfuðborgarsvæðisins og hins vegar höfuðborgarbúar á leið út um land. Eyrún sagði fyrirhugaða samgöngumiðstöð fagnaðarefni og löngu tímabæra og sagði flugvöll í nágrenni miðborgar vera auðlind.

Ragnar Atli Guðmundsson, verkefnisstjóri samgöngumiðstöðvar, greindi frá helstu atriðum varðandi bygginguna. Sagði hann nú unnið að ýmsum atriðum varðandi skipulagsmál og kvaðst vona að unnt yrði að hefja framkvæmdir um næstu áramót. Gert væri ráð fyrir að samgöngumiðstöð yrði fullbúin árið 2010 en hugsanlega væri hægt að taka fyrri áfanga í notkun á næsta ári. Gert er ráð fyrir að um ein milljón farþega fari um stöðina á ári í fyrstu, þar af um 600 þúsund flugfarþegar en aðrir væru rútufarþegar. Farþegafjöldinn yrði um tvær milljónir árið 2016.

Aðrir framsögumenn voru Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, Einar Kárason rithöfundur, Ögmundur Jónasson, alþingismaður og formaður BSRB, og Gestur Ólafsson, arkitekt og skipulagsfræðingur.

Nokkrar umræður urðu í framhaldi af erindunum og í lokin þakkaði Kristján L. Möller samgönguráðherra, sem var meðal fundargesta, fyrir góðan og upplýsandi fund.

Fundurinn í dag er hluti af röð viðburða sem Flugmálafélag Íslands hefur skipulagt þessa viku með stuðningi ýmissa aðila í flugrekstri. Síðdegis í dag verður opið hús hjá grasrótinni þegar flugklúbbar á höfuðborgarsvæðinu sýna það sem er að gerast í einkaflugi og fisflugi og síðdegis á morgun verður opið hús hjá þeim sem bjóða viðskiptaflug og útsýnisflug. Á morgun verður einnig tekin formlega í notkun snertilendingarbraut á Sandskeiði og á laugardag er hápunktur vikunnar sem er flugsýning á Reykjavíkurflugvelli kl. 12 til 16.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira