Hoppa yfir valmynd
14. september 2017 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 565/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 14. september 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 565/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17060002

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 1. júní 2017 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...], (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. maí 2017, um að synja honum um ótímabundið dvalarleyfi, sbr. 58. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði hnekkt og honum veitt ótímabundið dvalarleyfi. Kærandi byggi kröfu sína á 2. mgr. 58. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um dvalarleyfi vegna náms þann 20. júlí 2007. Útlendingastofnun veitti kæranda dvalarleyfi vegna náms frá 11. október 2007 til 1. febrúar 2008. Leyfið var endurnýjað tvisvar, síðast með gildistíma til 1. febrúar 2009. Þann 21. október 2008 var kæranda veitt atvinnu- og dvalarleyfi vegna náms. Síðan þá hafa leyfin verið endurnýjuð 15 sinnum, síðast með gildistíma til 15. júlí 2016. Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla þann 9. maí 2016. Þeirri umsókn var synjað 13. febrúar 2017. Í kjölfarið sótti kærandi um ótímabundið dvalarleyfi þann 28. febrúar 2017 og var þeirri umsókn synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. maí 2017. Kærandi tók á móti ákvörðuninni 29. maí 2017 og kærði hana 1. júní sama ár. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 16. júní 2017. Gögn er varða fyrri umsóknir kæranda um dvalarleyfi hér á landi bárust frá Útlendingastofnun þann 16. ágúst 2017.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar voru skilyrði fyrir útgáfu ótímabundins dvalarleyfis rakin, sbr. 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Þá var tekið fram að dvalarleyfi vegna náms í 8. mgr. 65. gr. laga um útlendinga geti ekki verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, sbr. þó b-lið 2. mgr. 58. gr. sömu laga. Kærandi hafi ekki dvalist hér á landi síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti orðið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis í a.m.k. tvö ár og uppfylli því ekki skilyrði undanþáguákvæðis b-liðar 2. mgr. 58. gr. Kærandi hafi verið með dvalarleyfi vegna náms síðastliðin níu ár og gæti slík umsókn því ekki orðið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann byggi á 2. mgr. 58. gr. laga um útlendinga og vísi til þess að uppi séu aðstæður í málinu sem réttlæti að vikið verði frá skilyrðum 1. mgr. ákvæðisins. Kærandi telji að í því sambandi sé réttlætanlegt að líta til eðlis b. liðar 2. mgr. 58. gr. sem kveði á um að heimilt sé að falla frá skilyrði um að útlendingur hafi síðustu fjögur ár dvalið hér samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Kærandi hafi dvalið hér samfelldri dvöl samkvæmt dvalarleyfi vegna náms samkvæmt 65. gr. og sé heildardvöl hans hér á landi nú orðin tæp 10 ár. Hann hafi á dvalartímanum lokið alþjóðlegu námi á sviði kennslufræða og íslenskunámi. Það sé kæranda mikið hagsmunamál að vera heimiluð ótímabundin dvöl hér á landi enda hafi hann nú búið hér um 10 ára skeið og skotið hér rótum og vilji hvergi annars staðar vera. Það sé einlægur ásetningur hans að ílengjast hér á landi sé honum þess nokkur kostur og að verða í framtíðinni íslenskur ríkisborgari með þeim réttindum og skyldum sem því fylgja.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að synja kæranda um ótímabundið dvalarleyfi hér á landi.

Í 58. gr. laga um útlendinga er fjallað um ótímabundið dvalarleyfi. Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis eru m.a. að útlendingur sýni fram á að framfærsla hans hafi verið trygg á dvalartíma hans og að hann hafi getað og geti áfram framfleytt sér hér á landi á löglegan hátt, sbr. b-lið 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga.

Í 2. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að í undantekningartilvikum er heimilt að víkja frá kröfu um að tiltekin skilyrði skv. 1. mgr. séu uppfyllt. Samkvæmt b-lið 2. mgr. 58. gr. er heimilt að víkja frá skilyrði um að útlendingur hafi dvalist hér á landi síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, þegar útlendingur hefur haft slíkt dvalarleyfi í a.m.k. tvö ár og hefur áður dvalið hér á landi í samfelldri dvöl samkvæmt dvalarleyfi vegna náms skv. 65. gr. þannig að heildardvöl sé a.m.k. fjögur ár.

Kærandi byggir á því að 2. mgr. 58. gr. laga um útlendinga eigi við í máli hans þar sem aðstæður séu slíkar að þær réttlæti að vikið verði frá skilyrðum 1. mgr. ákvæðisins. Hann telji að réttlætanlegt sé að líta til eðlis b-liðar 2. mgr. 58. gr. sem sé þess efnis að heimilt sé að falla frá skilyrði um að útlendingur hafi síðustu fjögur ár dvalið hér samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Kærandi hafi dvalið hér í samfelldri dvöl á grundvelli dvalarleyfis vegna náms og að heildardvöl hans sé nú orðin tæp 10 ár.

Af gögnum málsins er ljóst að kærandi hefur dvalið hér á landi á grundvelli dvalarleyfis vegna náms síðan árið 2007 en hann hefur lagt stund á BA nám við Háskóla Íslands. Ákvæði eldri laga um dvalarleyfi vegna náms gátu ekki verið grundvöllur búsetuleyfis, sem nú heitir ótímabundið leyfi samkvæmt lögum nr. 80/2016. Síðasta dvalarleyfi kæranda rann út 15. júlí 2016 og hefur hann því ekki fengið útgefið dvalarleyfi á grundvelli laga um útlendinga nr. 80/2016, en ákvæði laganna eru að miklu leyti sambærileg ákvæðum eldri laga hvað varðar rétt til ótímabundinnar dvalar.

Í lögum um útlendinga hefur löggjafinn tekið skýra afstöðu til þess að eingöngu dvalarleyfi af ákveðinni tegund geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Þótt kærandi hafi dvalið hér á landi í tíu ár hefur hann aldrei verið með dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis og uppfyllir því ekki skilyrði 1. mgr. 58. gr. laganna. Að mati kærunefndar getur undanþága b-liðar 2. mgr. 58. gr. laganna ekki átt við um kæranda þar sem hann hefur ekki haft dvalarleyfi í a.m.k. tvö ár sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Samkvæmt framangreindu verður ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

 

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                               Árni Helgason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum