Hoppa yfir valmynd
23. maí 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 281/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 23. maí 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 281/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19040011

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 2. apríl 2019 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur […], og vera ríkisborgari Marokkó (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. mars 2019, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara krefst kærandi þess að honum verði ekki gert að sæta brottvísun og endurkomubanni, sbr. 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga þar sem hann eigi dóttur í Noregi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.         Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 4. júní 2018. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 7. mars 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 22. mars 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 2. apríl 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 17. apríl 2019 ásamt fylgigögnum. Kærunefnd taldi ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

III.        Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna ofsókna af hendi fjölskyldumeðlima stúlku sem hann hafi átt að kvænast.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.        Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann sé fæddur og uppalinn í borginni Khouribga í Marokkó. Þar séu gamlir siðir og menning ríkjandi að sögn kæranda. Áður en kærandi hafi flúið hafi hann verið búsettur í bænum Deakhla. Ástæður flótta kæranda megi rekja til sambands hans við stúlku úr fjölskyldu hans. Þau hafi verið saman árið 2001 og hafi stúlkan orðið barnshafandi. Á þessum tíma hafi stúlkan verið með mörgum karlmönnum og hafi bræður og faðir stúlkunnar krafist þess að kærandi kvæntist henni. Kærandi hafi fallist á að kvænast stúlkunni væri barnið sannarlega hans þar sem annað fari gegn gildandi hefðum og ríkjandi menningu í Marokkó. Fjölskylda stúlkunnar hafi ekki samþykkt læknisskoðun í því skyni að kanna faðerni barnsins og hafi kærandi því neitað að kvænast stúlkunni. Í kjölfarið hafi hótanir borist kæranda frá karlkyns ættingjum stúlkunnar. Stúlkan bíði hans enn í dag í heimaríki og vilji giftast honum. Kærandi greindi frá því að aðstoð yfirvalda sé ekki fáanleg í Marokkó og muni lögreglan segja honum að kvænast stúlkunni. Þá geti hann ekki leitað til lögreglu í heimabæ sínum yrði hann beittur ofbeldi og telji kærandi að ef til átaka komi verði stúlkunni trúað. Þá séu félagslegar aðstæður í heimaríki kæranda erfiðar, laun lág og aðgengi að heilbrigðisþjónustu slæmt. Kærandi óttist að fjölskylda stúlkunnar sem jafnframt sé fjölskylda hans muni beita hann ofbeldi og jafnvel myrða hann.

Í greinargerð byggir kærandi á því að hann sé flóttamaður skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann eigi hættu á ofsóknum vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi sbr. d-lið 3. mgr. 38. gr. sömu laga þar sem hann eigi hættu á að verða þolandi heiðursglæps. Kærandi óttist karlkyns ættingja stúlkunnar sem hann hafi átt að kvænast og að yfirvöld veiti honum ekki vernd. Kærandi vísar m.a. til umfjöllunar um hugtakið ofsóknir í handbók flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í 33. gr. flóttamannasamningsins. Kærandi sé í hættu þar sem hann hafi stefnt heiðri fjölskyldu sinnar og stúlkunnar í hættu en um sé að ræða einu og sömu fjölskylduna. Kærandi óttist af þessum sökum um líf sitt í heimaríki.

Í greinargerð kæranda kemur fram að það sé mat hans að Útlendingastofnun hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni varðandi rannsókn á aðstæðum í heimabæ kæranda með tilliti til ríkjandi hefða. Þá hafi stofnuninni láðst að rannsaka stöðu heiðursglæpa í Marokkó með fullnægjandi hætti. Í greinargerð leggur kærandi áherslu á að aðrar sönnunarreglur gildi um mál umsækjenda um alþjóðlega vernd vegna aðstæðna þeirra en almennt gangi og gerist í öðrum málum. Örðugt geti reynst fyrir einstaklinga í framangreindri stöðu að afla skriflegra gagna eða annarra sannana og liggi einungis framburður kæranda fyrir í máli hans.

Kærandi krefst þess til vara að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann eigi á hættu að sæta illri meðferð í heimaríki þar sem hann hafi neitað að kvænast frænku sinni. Með vísan til ríkjandi gilda og hefða á því strangtrúaða svæði þaðan sem kærandi komi frá sé hætta á að karlkyns ættingjar þeirra taki kæranda af lífi líkt og þeir hafi hótað. Kærandi vísar til lögskýringargagna að baki ákvæðinu máli sínu til stuðnings. Endursending kæranda til Marokkó bryti jafnframt gegn meginreglu þjóðarréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki myndi slík ákvörðun brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu slíks leyfis geti útlendingur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. vegna erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki, erfiðra félagslegra aðstæðna eða heilsufars. Heildarmat skuli fara fram á öllum aðstæðum í máli áður en slíkt dvalarleyfi sé veitt. Ljóst sé að kærandi myndi búa við afar erfiðar félagslegar aðstæður í heimaríki yrði honum gert að snúa til baka. Kærandi hafi litla menntun fengið og farið á vinnumarkað 12 ára að aldri. Kærandi hafi unnið við sjómennsku allt sitt líf en erfitt sé að fá atvinnu í Marokkó auk þess sem kaup sé lágt. Þrátt fyrir að efnahagslegar þrengingar séu almennt ekki grundvöllur veitingu dvalarleyfis af mannúðarástæðum skuli möguleikar hans á vinnu vera hluti af heildarmati á aðstæðum viðkomandi. Þá sé aðgengi að heilbrigðisþjónustu skert í heimaríki kæranda en hann hafi lengi þjáðst af miklum bakverkjum og ekki fengið viðeigandi læknisaðstoð. Einnig verði að taka mið af fjölskylduaðstæðum kæranda og þeirra aðstæðna sem bíði hans í heimaríki. Með hliðsjón af framangreindu telji kærandi skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

V.         Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram neitt sem sé til þess fallið að sanna á honum deili og hafi því verið leyst úr auðkenni hans á grundvelli trúverðugleikamats. Þá kemur fram í ákvörðun stofnunarinnar að við rannsókn málsins hafi ekkert komið fram sem gefi tilefni til að draga þjóðerni kæranda í efa og hafi því verið lagt til grundvallar að kærandi sé frá Marokkó en auðkenni hans sé að öðru leyti óstaðfest. Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um alþjóðlega vernd í Noregi árið 2009. Í gögnum frá norskum stjórnvöldum er kærandi skráður með sama nafn og fæðingardag og hann gaf upp hér á landi auk þess sem fram kemur í gögnunum að við flutning frá Noregi í kjölfar synjunar á umsókn hans um alþjóðlega vernd árið 2012 hafi hann haft undir höndum marokkóskt vegabréf. Að mati kærunefndar er auðkenni kæranda upplýst.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Marokkó m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Morocco 2018 Human Rights Report (U.S. department, 29. mars 2019);
  • Marokko: Ekterskap og skilmisse – juridiske og kulturelle forhold (LandInfo, 21. apríl 2017);
  • World Report 2018 - Morocco/Western Sahara (Human Rights Watch, 18. janúar 2018);
  • Amnesty International Report 2017/18 - Morocco/Western Sahara (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Mänskliga rättigheter, demokrati och rättsstatens principer i Marocko 2015–2016 (Utrikesdepartementet, 26. apríl 2017);
  • Freedom in the World 2018 – Morocco (Freedom House, 28. maí 2018);
  • Understanding masculinities, results from the International Men and Gender Equality Study in the Middle East and North Africa (UNWOMEN, 16. maí 2017);
  • Summary of stakeholders‘ submissions on Morocco (UN Human Rights Council, 20. febrúar 2017);
  • Social Security Program Throughout the World: Africa, 2017 (Social Security, september 2017);
  • Country Cooperation Strategy. Morocco. (WHO, 2018);
  • Les mariages forces au Maroc (Office Français de Protection des Réfugiés et Apatrides, 24, febrúar 2017);
  • Concluding observations on the initial report of Morocco (UN Human Rights Council, 1. desember 2016).

Marokkó er konungsríki með um 35 milljónir íbúa, þar sem konungurinn, Mohammed VI., fer með yfirstjórn ríkisins. Árið 1956 gerðist Marokkó aðili að Sameinuðu þjóðunum. Árið 1976 gerðist ríkið aðili að bæði alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarlegt réttindi. Marokkó gerðist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1987 og samþykkti barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 1990.

Í skýrslu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna frá 2016 kemur fram að einhver árangur hafi náðst í að tryggja réttindi kvenna m.a. með brottfalli ákvæðis um að gerandi kynferðisbrots gegn ólögráða einstaklingi geti kvænst brotaþolanum til að komast hjá saksókn. Þá standi þolendur kynferðisbrota enn höllum fæti m.a. þar sem skortur sé á verndarráðstöfunum og stöðum þar sem þolendur geti fengið stuðning. Jafnframt séu kynferðisleg sambönd utan hjónabands, hjúskaparbrot og þungunarrof enn refsiverðir verknaðir sem leiði til þess að konur sem tilkynni um nauðgun eigi á hættu að verða sjálfar sóttar til saka vegna kynlífs utan hjónabands. Einnig gagnrýni mannréttindaráðið að úrbætur á lögum sem varði ofbeldi gegn konum hafi skilið fjölda ákvæða eftir óbreytt sem feli í sér mismunun gegn konum svo sem ákvæði sem feli í sér refsimildun í tilvikum heiðursglæpa.

Samkvæmt skýrslu UN Women frá 2017 sem byggir hvoru tveggja á heimildum um stöðu kynjanna í Marokkó og rannsókn sem stofnunin hafi framkvæmt í ríkinu kemur fram að nokkurrar togstreitu gæti í Marokkó varðandi jafnrétti kynjanna þar sem íhaldssöm kynjahlutverk tíðkist en vilji sé til breytinga á sumum sviðum, m.a. sé mikill stuðningur við að konur vinni úti og taki þátt í stjórnmálum. Í skýrslu Human Rights Watch frá árinu 2018 kemur fram að tilkoma fjölskyldulaga árið 2004 hafi bætt réttarstöðu kvenna varðandi hjúskap, hjónaskilnað og forsjármál. Þó mismuni lögin enn konum, t.a.m. varðandi erfðarétt. Þá sé kynlíf utan hjónabands refsivert og geti konur og stúlkur sem verði barnshafandi eða eignist barn utan hjónabands átt á hættu að verða sóttar til saka. Í skýrslu UN Women kemur fram að hjúskapur í Marokkó byggist bæði á einstaklingsvali og þátttöku fjölskyldunnar. Samkvæmt skýrslu norsku útlendingastofnunar frá árinu 2017 er val á maka almennt einstaklingsbundið en fjölskylda brúðgumans hafi þó enn veigamikið hlutverk í ákvörðuninni. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2018 kemur fram að samkvæmt fjölskyldulögum sé fjölskyldan á ábyrgð beggja aðila, skilnaður sé leyfilegur með samþykki beggja og fjölkvæni hafi verið takmarkað.

Í ofangreindri skýrslu UN Women kemur fram að 80 % karlkyns þátttakenda í rannsókninni hafi greint frá því að þeir telji heiður sinn sem karlmanns beintengdan kvenkyns ættingjum sínum, t.a.m. hegðun þeirra og klæðaburði. Þá telji meirihluti marokkóskra karlmanna það skyldu sína að vernda heiður kvenna og stúlkna í fjölskyldu sinni og tæplega þriðjungur styðji í sumum tilfellum sæmdarmorð. Sæmdarmorð séu framin þegar fjölskyldumeðlimir, oftast konur, eru taldar hafa varpað rýrð á heiður fjölskyldunnar með ákveðinni hegðun sem talin sé syndsamleg, oftast kynferðislegs eðlis. Fáir þátttakendur í rannsókninni hafi greint frá því að þekkja dæmi um sæmdarmorð í samfélögum sínum síðastliðið ár en tölfræðiskýrslum um slík morð sé ábótavant. Þriðjungur karlmanna telji að þolendur sæmdarmorða eigi refsinguna skilið en afgerandi meirihluti kvenna telji slíka refsingu ekki réttlætanlega. Engin sértæk ákvæði sé að finna í marokkóskum lögum sem banni sæmdarmorð og heiðurstengt ofbeldi en slík brot falli undir önnur refsiákvæði.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2018 kemur fram að stjórnvöld hafi skilvirka stjórn á löggæslustofnunum ríkisins. Nokkur dæmi hafi verið árið 2018 um rannsóknir eða saksóknir á mannréttindabrotum opinberra starfsmanna, bæði í öryggissveitum og öðrum stjórnvöldum. Þá kemur fram í ofangreindum gögnum að löggæslunni í landinu sé dreift niður á nokkrar mismunandi stofnanir, þ. á m. ríkislögregluna sem sé undir yfirstjórn innanríkisráðuneytisins. Til staðar sé til að mynda embætti umboðsmanns, sem m.a. hafi sinnt sáttameðferðum í einkamálum og rannsóknum vegna kvartana sem beint hafi verið til hans vegna brota á grundvallarréttindum borgara landsins. Gögn kveði á um að mikil spilling fyrirfinnist í allri stjórnsýslu landsins. Þá gæti virðingarleysis gagnvart landslögum hjá öryggissveitum landsins. Dómskerfið eigi að vera sjálfstætt en í málum sem snerti öryggi ríkisins eða stjórnarfar þess eða önnur pólitísk mál kunni stjórnvöld að hafa óeðlileg áhrif á niðurstöðu mála.

Samkvæmt vefsíðu bandarísku velferðarstofnunarinnar er almannatryggingakerfi við lýði í Marokkó. Þá eigi íbúar landsins m.a. rétt á atvinnuleysisbótum, fæðingarorlofi og barnabótum. Þá kemur fram í skýrslu alþjóðaheilbrigðismálastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá 2018 að stjórnarskrá ríkisins tryggi borgurum þess rétt til heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðiskerfi landsins sé bæði ríkis- og einkarekið og hafi allir íbúar landsins aðgengi að endurgjaldslausri heilbrigðisþjónustu hins opinbera.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi ber því fyrir sig að hann óttist heiðursmorð þar sem hann hafi árið 2001 neitað að kvænast frænku sinni sem hann hafi átt að hafa getið barn með. Kærandi kveðst ekki vita hvort barnið sé raunverulega hans en fjölskylda stúlkunnar hafi neitað að láta hana undirgangast læknisskoðun í því skyni að kanna faðerni barnsins. Kærandi heldur því fram að lögreglan muni ekki aðstoða hann heldur einungis segja honum að kvænast frænku sinni.

Kærandi kveðst óttast um líf sitt en hefur greint frá því að hann hafi ekki orðið fyrir ofbeldi í heimaríki en honum og fjölskyldumeðlimum hans hafi borist líflátshótanir. Þá greindi kærandi frá því að hann telji að stúlkan sem hann hafi átt að kvænast bíði hans enn í heimaríki 18 árum síðar þrátt fyrir að nágrannar og aðrir hafi reynt að sannfæra fjölskyldu hennar um annað. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn við meðferð málsins til stuðnings frásögn sinni. Þá hefur kærandi ekki borið því fyrir sig að hafa hlotið dóm í heimaríki vegna samlífis utan hjónabands. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar um aðstæður í heimaríki hans kemur fram að samlífi og barneignir utan hjónabands séu refsiverðar athafnir í heimaríki jafnframt sem heiðurstengt ofbeldi tíðkist í einhverjum mæli en þá aðallega gagnvart konum. Þá séu heiðursglæpir ekki sérstaklega tilteknir í marokkóskum hegningarlögum en heyri undir önnur refsiákvæði. Kærandi greindi frá því að frænka hans hafi orðið barnshafandi og hann átt að kvænast henni árið 2001 og liggur því fyrir að þeir atburðir sem kærandi hefur borið fyrir sig hafi átt stað fyrir hartnær tveimur áratugum. Þá kveðst kærandi hafa flúið heimaríki sitt árið 2006 en að hafa farið aftur til Marokkó árið 2012 og síðan árið 2014 og þá dvalið þar í um tvö ár. Kærandi kvaðst ekki hafa orðið fyrir áreiti í heimaríki sínu þegar hann hafi snúið þangað aftur þar sem hann hafi viðhafst á svæðum fjarri einstaklingunum sem hann óttist. Kærandi greindi frá því að á þeim tíma sem að atvikið sem rekja megi flótta hans til hafi átt sér stað hafi enga aðstoð verið að fá frá lögreglu. Þá telji hann að honum stæði aðstoð lögreglu heldur ekki til boða í dag auk þess sem hann muni ekki leita lögreglu heldur leitast við að leysa málin sjálfur. Það er mat kærunefndar, í ljósi frásagnar kæranda og fyrirliggjandi heimilda um aðstæður í heimaríki hans, að þó svo að kærandi kunni að eiga á hættu áreiti af hálfu fjölskyldumeðlima sinna og konu þeirrar sem hann hafi átt að kvænast hafi hann ekki gert líklegt að hann eigi á hættu ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans. Í viðtali kæranda við Útlendingastofnun þann 5. júní 2018 greindi kærandi frá verk í baki jafnframt sem hann kvaðst sofa illa og fá höfuðverki. Kærandi kveðst ekki fá heilbrigðisþjónustu í heimaríki nema gegn gjaldi. Í þeim gögnum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar um heimaríki kæranda kemur fram að íbúum landsins standi heilbrigðiþjónusta til boða auk þess sem meðferð telst, samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, ekki óaðgengileg þrátt fyrir að greiða þurfi fyrir hana. Þá eru veikindi kæranda ekki svo alvarleg að þau geti talist grundvöllur dvalarleyfis af mannúðarástæðum.

Kærandi hefur greint frá erfiðum efnahagslegum aðstæðum sínum þar sem atvinnumöguleikar hans í heimaríki séu takmarkaðir vegna sérhæfingar hans í starfi auk þess sem kaup sé almennt lágt. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að ákvæðið um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða yrði að jafnaði ekki talið ná til neyðar af efnahagslegum rótum, svo sem fátæktar, hungursneyðar eða húsnæðisskorts. Við meðferð málsins hafa ekki komið fram gögn sem kalla á að vikið sé frá þeim meginsjónarmiðum sem fram koma í þessum athugasemdum.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Athugasemdir kæranda við rannsókn Útlendingastofnunar

Í greinargerð gerir kærandi athugasemdir við rannsókn Útlendingastofnunar. Þá sérstaklega varðandi aðstæður í heimaríki hans. Má af greinargerð ráða að kærandi telji stofnunina hafa brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga.

Að mati kærunefndar hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til þess að skort hafi á að nauðsynlegar upplýsingar lægju fyrir um ástandið í heimaríki kæranda, við ákvörðunartöku hjá Útlendingastofnun. Í því sambandi er tekið fram að kærunefnd hefur yfirfarið þau gögn sem aflað var við rekstur málsins, svo og skýrslur opinberra stofnana, og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Það er því mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Samkvæmt lögregluskýrslu dags. 4. júní 2018 er óvíst hvenær kærandi kom hingað til lands en hann hafi a.m.k. verið kominn hingað til lands þann 22. apríl 2018. Kærandi sótti um alþjóðlega vernd þann 4. júní 2018. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.

 

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Anna Tryggvadóttir                                                                        Þorbjörg Inga Jónsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum