Hoppa yfir valmynd
13. mars 2017 Forsætisráðuneytið

Norrænir ráðherrar jafnréttismála á fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna

Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra fjallaði um ýmsar aðgerðir sem ætlað er að brúa kynjabilið á íslenskum vinnumarkaði og efla hlut kvenna á fundi með norrænum ráðherrum jafnréttismála í New York í dag.

Norrænu ráðherrarnir héldu fund sinn í tengslum við árlegan fund kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (Commission on the Status of Women) sem fram fer í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York dagana 13.-24. mars. 

Meginþema kvennanefndarfundarins er efnahagsleg valdefling kvenna á tímum breytinga á vinnumarkaði. Á fundi norrænu ráðherranna var rætt um stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði og árangur af sértækum aðgerðum til að efla stöðu og hlut kvenna. Fundur þeirra var opinn, hann sóttu á annað hundrað manns og komust færri að en vildu.

Síðastliðin 40 ár hefur norrænt samstarf á sviði jafnréttismála verið farsælt og átt stóran þátt í að skipa Norðurlandaþjóðunum í fremstu röð í alþjóðlegum samanburði. Árangurinn talar sínu máli. Hvergi mælist kynjajafnrétti meira en á Norðurlöndum. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hafa Norðurlöndin leitast við að tala einni röddu til að knýja fram árangur í málaflokknum á heimsvísu.

Á fundi sínum í dag lögðu norrænu ráðherrarnir áherslu á að samkeppnishæfi Norðurlanda í alþjóðlegum samanburði byggðist ekki síst á hárri atvinnuþátttöku kvenna og framlagi þeirra á vinnumarkaði. Það væri sameiginleg reynsla Norðurlandaþjóða að kynjajafnrétti væri í senn drifkraftur og grundvöllur hagsældar og velferðar. Þrátt fyrir góðan árangur væri mikilvægt að halda áfram markvissum aðgerðum um aukið kynjajafnrétti á vinnumarkaði.

Feðraorlof, jafnlaunavottun, ábyrgð karla o.fl.

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra fjallaði um aðgerðir sem ætlað er að brúa kynjabilið á íslenskum vinnumarkaði, sérstaklega feðraorlof og lögfestingu ákvæða um aukinn hlut kvenna í stjórnum fyrirtækja og stofnana sem og áform ríkisstjórnarinnar um lögfestingu jafnlaunavottunar.  Þorsteinn talaði einnig um mikilvægi þess að höfða til ábyrgðar karla til að ná frekari árangri á sviði jafnréttismála á norrænum vinnumarkaði.

„Ísland þekkir af eigin raun að sterk staða í jafnréttismálum er undirstaða efnahagslegrar hagsældar. Auk þess að vera augljóst mannréttindamál er áhersla á kynjajafnrétti einfaldlega skynsamleg. Þá skiptir miklu að karlmenn láti til sín taka í þessum málaflokki, við þurfum öll að taka þátt“ sagði Þorsteinn Víglundsson.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum