Hoppa yfir valmynd
13. mars 2017 Forsætisráðuneytið

Ráðherrar funduðu með framkvæmdastjóra UN Women

Phumzile Mlambo-Ngcuka (3.ja frá hægri) ásamt norrænum ráðherrum jafnréttismála. Mynd: UN Women/Ryan Brown - mynd

Norrænir ráðherrar jafnréttismála funduðu með Phumzile Mlambo-Ngcuka framkvæmdastjóra UN Women í tengslum við fund kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York í dag. Ábyrgð karla í jafnréttismálum, baráttan gegn kynbundnu ofbeldi og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna voru meðal umræðuefna á þeim fundi.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna voru samþykkt á leiðtogafundi haustið 2015 en þau eru vegvísir aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna að sjálfbærri þróun til ársins 2030. Norðurlandaþjóðirnar náðu miklum árangri við gerð þeirra þar sem norræn stjórnvöld lögðu ríka áherslu á að öll aðildaríki viðurkenndu rétt kvenna til lífs án mismununar og ofbeldis sem og rétt þeirra til kyn- og frjósemisheilbrigðis, þar á meðal bann við limlestingum á kynfærum barna og kvenna.

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, lagði í umræðunum áherslu á nauðsyn þess að stefna og ákvarðanir stjórnvalda taki mið af aðstæðum karla og kvenna. Hann ræddi sérstaklega um ábyrgð karla í jafnréttismálum og hve mikilvægt væri að þeir beittu sér fyrir jafnrétti kynjanna: „Kynbundið ofbeldi er mjög skýrt dæmi um viðfangsefni stjórnmálanna þar sem ekki verða neinar framfarir nema karlmenn taki virka afstöðu gegn ofbeldinu” sagði Þorsteinn meðal annars.

Á fundinum með ráðherrunum þakkaði Phumzile norrænum stjórnvöldum öflugan fjárhagslegan og pólitískan stuðning við starfssemi UN Women en yfir 40% heildarframlaga til stofnunarinnar kemur frá Norðurlöndunum. Hún sagði Norðurlöndin vera mikilvæga fyrirmynd annarra ríkja hvað varðar árangur í jafnréttismálum og að þau væru í lykilstöðu til að sýna heimsbyggðinni fram á að raunhæft sé að ná fullu jafnrétti kvenna og karla fyrir árið 2030.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum