Hoppa yfir valmynd
13. desember 2023 Utanríkisráðuneytið

Átökin fyrir botni Miðjarðarhafs og málefni Úkraínu til umræðu á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna

Átökin fyrir botni Miðjarðarhafs og málefni Úkraínu til umræðu á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna  - myndJohannes Jansson/norden.org

Málefni Úkraínu, átökin fyrir botni Miðjarðarhafs, undirbúningur fyrir leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins á næsta ári og staða fjölþjóðlegrar samvinnu voru meðal helstu umræðuefna á fjarfundi utanríkisráðherra Norðurlandanna (N5) sem fram fór í dag.  

„Þetta er gríðarlega þýðingarmikill og mikilvægur vettvangur fyrir vinaþjóðir til að skiptast á skoðunum og stilla saman strengi í mikilvægum málum á alþjóðavettvangi,“ segir Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra. „Norðurlöndin láta sig fjölþjóðasamvinnu miklu varða enda sameiginlegir hagsmunir okkar að varðveita alþjóðakerfið, gildin sem það byggir á, og að alþjóðalög séu virt.“ 

Um var að ræða síðasta fund ársins í norrænu samstarfi utanríkisráðherranna og jafnframt þann síðasta í formennskutíð Íslands, sem hefur haldið utan um samstarfið frá 1. Janúar. Svíþjóð tekur við keflinu um áramótin. 

Frá því að Rússland hóf innrásarstríð sitt hefur stuðningur Norðurlandanna við Úkraínu verið afgerandi, bæði á sviði varnarmála sem og í formi efnahags- og mannúðarstuðnings. Norðurlöndin undirstrikuðu enn á ný óbilandi stuðning sinn við Úkraínu á fundinum í dag og mikilvægi þess að áfram ríki einhugur meðal bandalagsríkja um stuðning til handa úkraínsku þjóðinni. 

Þá lýstu Norðurlöndin yfir þungum áhyggjum vegna ástandsins fyrir botni Miðjarðarhafs og þá sér í lagi hörmulegri stöðu mannúðarmála á Gaza. Norðurlandaþjóðirnar studdu allar ályktun Egyptalands og Máritaníu sem lögð var fram á neyðarfundi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í gær um tafarlaust vopnahlé af mannúðarástæðum á Gaza. Á fundinum var sömuleiðis undirstrikuð afstaða Norðurlandanna að líkt þenkjandi ríki sameinist um viðbrögð til að bregðast við ört hnignandi stöðu alþjóðlegrar samvinnu í heiminum, ekki síst með því að efla samstarf og samskipti við ríki í suðri, til dæmis á sviði loftslags- og mannúðarmála, til að vega á móti áróðri og íhlutun alræðisafla.  

Í apríl verða 75 ár liðin frá stofnun Atlantshafsbandalagsins og verður tímamótunum fagnað á  leiðtogafundi bandalagsins í Washington næsta sumar. Vonast er til að aðildarumsókn Svíþjóðar hljóti brautargengi innan skamms og Norðurlöndin fimm verði þar með öll fullgild bandalagsríki á fundinum í Washington. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum