Hoppa yfir valmynd
1. maí 2020 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 1. maí

Föstudagspóstur

Upplýsingadeildin heilsar á frídegi verkalýðsins og sendir ykkur síðbúnar sumarkveðjur. Sólin hefur létt okkur sem erum heima á Íslandi lífið og gert það að verkum að tíminn hefur flogið hratt undanfarnar tvær vikur.

Í vikunni var tilkynnt um flutninga forstöðumanna sendiskrifstofa og fjölmargir starfsmenn undirbúa endurkomu sína í utanríkisráðuneytið eftir fjarvinnu undanfarinna vikna. Gert er ráð fyrir að borgaraþjónustu verði að mestu leyti sinnt með hefðbundnum hætti eftir 4. maí en þegar mest var sinntu 140 manns borgaraþjónustu.

Sendiskrifstofurnar hafa ekki setið auðum höndum. Aðalræðisskrifstofan í New York hefur staðið fyrir veferindum á samfélagsmiðlum um íslenska hestinn, tunglfarana og sitt hvað fleira. Sendiráðið í Berlín lyftir andanum að venju með innsýn í íslenska list og það gerði sömuleiðis sendiráðið í Kaupmannahöfn sem deildi kveðju til Margrétar Þórhildar á afmælisdegi hennar í síðustu viku. Norrænu sendiráðin í Moskvu stóðu í fyrra fyrir útgáfu bókar um norræna feður sem áfram verður kynnt í Rússlandi.

Sendiráð Íslands í Kampala tilkynnti um framlög Íslands til samstarfshéraðsins Buikwe í Úganda til stuðnings baráttunni við heimsfaraldur vegna kórónuveiru. Viðbrögð við faraldrinum eru mikið rædd á vettvangi alþjóðastofnana. Áhrif hans á fátækari ríki voru rædd á fundi þróunarnefndar Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins nýlega og á fjarfundi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í Genf kom fram alheimsviðskipti geti átt eftir að dragast saman milli 13% til 32% í kjölfar heimsfaraldursins. Yfirmaður vísindasviðs UNESCO fjallaði um viðbrögð stofnunarinnar á sviði vísinda og á vettvangi ÖSE var rætt um möguleg neikvæð áhrif á lýðræði og málfrelsi. Síðast en ekki síst var fjallað um hvernig íslenskt hugvit hefði gagnast í baráttunni við COVID-19 á sérstakri málstofu Norræna nýsköpunarhússins í Singapúr og nýsköpunarskrifstofu Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna (UNDP) þar í landi.

Upplýsingadeild vinnur nú að lokafrágangi skýrslu ráðherra til Alþingis sem er á dagskrá þingsins 7. maí nk. og því verður pósturinn ekki lengri að sinni. Þá mun utanríkisráðherra ávarpa svokallaðan Arria-fund öryggisráðsins föstudaginn 8. maí en þann dag fagna Ísland og Bretland einnig áttatíu ára stjórnarsambandsafmæli.

Helgarnestið er spánýr þáttur Utanríkisvarpsins. Okkar eina sanna Sigríður Snævarr sendiherra er gestur þáttarins þar sem hún rifjar upp gamla tíma og spáir í ókomna tíð. Hlaðvarpsþættirnir eru nú orðnir þrír talsins og fleiri á leiðinni.

 

Kær kveðja,

uppló

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum