Mál nr. 21/2023-Úrskurður
Mál nr. 21/2023
Úrskurður kærunefndar jafnréttismála
A
gegn
Sýslumanninum á Norðurlandi vestra
Uppsögn. Mismunun vegna aldurs. Ekki fallist á brot.
Með lögum nr. 45/2023 um breytingar á þágildandi lögum nr. 54/1971, um Innheimtustofnun sveitarfélaga, voru verkefni Innheimtustofnunar sveitarfélaga flutt til sýslumanns. Samkvæmt ákvæði I til bráðabirgða við lögin voru öll störf hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga lögð niður frá 1. janúar 2024 en starfsfólki, öðru en forstjóra, sem uppfyllti skilyrði laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, skyldi boðið starf hjá ríkinu. A sem starfaði hjá stofnuninni kærði ákvörðun S um að bjóða honum ekki áframhaldandi starf á þeim grundvelli að með henni hefði honum verið mismunað á grundvelli aldurs í andstöðu við ákvæði laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði. Að mati kærunefndar var fallist á að sýnt hefði verið fram á að A hefði verið mismunað á grundvelli aldurs, sbr. 1. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 1. gr., sbr. 1. mgr. 8. gr., laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði. Hins vegar var talið að kærði hefði fært fram málefnaleg rök fyrir þeirri meðferð sem kæranda var gert að sæta, sbr. 12. gr. laga nr. 86/2018. Var því ekki fallist á að kærði hefði gerst brotlegur við lög nr. 86/2018.
1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 27. mars 2025 er tekið fyrir mál nr. 21/2023 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
2. Með kæru, upphaflega móttekinni 12. desember 2023, kærði A þá ákvörðun Sýslumannsins á Norðurlandi vestra að bjóða honum ekki áframhaldandi starf hjá embættinu eins og kveðið væri á um í ákvæði I til bráðabirgða við lög nr. 54/1971, um innheimtu meðlaga, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 45/2013, um breytingu á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga nr. 54/1971 (verkefnaflutningur til sýslumanns). Kærandi telur að með ákvörðuninni hafi honum verið mismunað vegna aldurs í andstöðu við ákvæði laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði.
3. Upphaflegri kæru var beint að Innheimtustofnun sveitarfélaga. Undir rekstri málsins lagði kærandi fram aðra kæru, dags. 4. janúar 2024, að mestu sambærilega hinni fyrri, en nú beint að Sýslumanninum á Norðurlandi vestra. Í ljósi þess að ákvörðun um að bjóða kæranda ekki starf var tekin af Sýslumanninum á Norðurlandi vestra og fyrir lá að stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga og öll störf hjá stofnuninni voru lögð niður frá og með 1. janúar 2024 samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 45/2023 var ákveðið á fundi kærunefndar, dags. 10. janúar 2024, að leggja til grundvallar við meðferð málsins að kæru í málinu væri beint að Sýslumanninum á Norðurlandi vestra sem teljast skyldi kærði í málinu.
4. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 18. janúar 2024. Greinargerð barst kærunefndinni með bréfi, dags. 14. febrúar s.á., og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dags. 19. s.m. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda í málinu.
MÁLAVEXTIR
5. Kærandi var ráðinn árið 2009 sem starfsmaður Innheimtustofnunar sveitarfélaga í fullu starfi. Hinn 28. september 2018 var undirritað samkomulag um breytingar á ráðningarsamningi kæranda vegna þess að kærandi hafði náð […] ára aldri. Var í samkomulaginu kveðið á um að kærandi skyldi vera ráðinn í fast 49% starfshlutfall hjá stofnuninni frá og með 1. október 2018. Var tekið fram að ákvæði ráðningarsamnings aðila, dags. 15. september 2014, skyldu gilda áfram en að öðru leyti skyldu, um samskipti aðila, þ.m.t. réttindi og skyldur, gilda ákvæði kjarasamnings Launanefndar sveitarfélaga og Kjarafélags viðskiptafræðinga og hagfræðinga eins og hann væri á hverjum tíma.
6. Alþingi samþykkti hinn 13. júní 2023 lög nr. 45/2023, um breytingu á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga, nr. 54/1971 (verkefnaflutningur til sýslumanns). Samkvæmt lögunum skyldi sýslumaður taka við öllum stjórnsýsluverkefnum Innheimtustofnunar sveitarfélaga sem færast skyldu til ríkisins frá og með 1. janúar 2024. Í 2. mgr. 9. gr. laganna var kveðið á um ákvæði til bráðabirgða þess efnis að á sama tíma skyldu öll störf hjá stofnuninni og stjórn hennar vera lögð niður. Þá var mælt þar fyrir um að starfsfólki, öðru en forstjóra, sem uppfyllti skilyrði laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, skyldi boðið starf hjá sýslumanni.
7. Kærandi lýsir því svo að Innheimtustofnun sveitarfélaga hafi sagt upp öllu starfsfólki stofnunarinnar um mitt ár 2023. Kæranda hafi verið sagt upp starfi sínu með bréfi, dags. 19. júní 2023, með sex mánaða uppsagnarfresti. Skyldu starfslok hans hjá stofnuninni vera 31. desember 2023.
8. Með tölvupósti kæranda, dags. 30. júní 2023, til kærða og stjórnar Innheimtustofnunar sveitarfélaga, óskaði hann rökstuðnings vegna þeirrar ákvörðunar að bjóða honum ekki áframhaldandi starf hjá kærða til samræmis við ákvæði laga um flutning verkefna Innheimtustofnunar sveitarfélaga til ríkisins. Tók kærandi sérstaklega fram í tölvupóstinum að annað starfsfólk stofnunarinnar hefði fengið boð um áframhaldandi starf hinn 19. s.m.
9. Kærði svaraði erindi kæranda þann 10. júlí 2024. Vísaði hann til þess að samkvæmt 2. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, væri opinberum starfsmönnum heimilt að starfa til næstu mánaðamóta eftir að þeir næðu 70 ára aldri. Þar sem kærandi hefði náð þeim aldri lægi fyrir að hann uppfyllti ekki skilyrði laga nr. 70/1996 sem væri kveðið á um í ákvæði I til bráðabirgða við lög nr. 54/1971, sbr. 9. gr. laga nr. 45/2023.
SJÓNARMIÐ KÆRANDA
10. Kærandi byggir á því að ákvörðun um að bjóða honum ekki áframhaldandi starf hafi falið í sér brot gegn lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, þar sem skýrt sé kveðið á um bann við allri mismunun, þar með talinni á grundvelli aldurs.
11. Kærandi er ósammála þeim forsendum ákvörðunar kærða að bjóða honum ekki áframhaldandi starf þar sem hann uppfylli ekki skilyrði laga nr. 70/1996, en hann telur sig uppfylla skilyrðin. Í því sambandi bendir kærandi á að honum hafi ekki verið sagt upp störfum hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga á þeim grundvelli að hann hafi náð 70 ára aldri. Lög nr. 70/1996 hafi því átt við um ráðningarsamband kæranda við Innheimtustofnun sveitarfélaga á sama hátt og þau hafi átt við um annað starfsfólk stofnunarinnar.
12. Kærandi bendir á að í ákvæði 2. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996 sé ekki lögð sú skylda á forstöðumann stofnunar að segja starfsmanni upp á þeim grundvelli að hann hafi náð 70 ára aldri. Kveðið sé á um að það skuli jafnan gert sem samkvæmt orðsins hljóðan merki venjulega eða yfirleitt. Þá felist ekki í ákvæðinu fortakslaust bann við því að ráða fólk til starfa eftir að það nær 70 ára aldri.
SJÓNARMIÐ KÆRÐA
13. Kærði hafnar því að hann hafi mismunað kæranda á grundvelli aldurs með þeirri ákvörðun að bjóða honum ekki starf hjá kærða á grundvelli ákvæðis I til bráðabirgða við lög nr. 54/1971, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 45/2023. Ákvörðunin hafi byggt á því að kærandi hafi ekki uppfyllt hlutlægt skilyrði 2. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996 um aldurshámark opinberra starfsmanna. Það hafi verið skilyrði þess að heimilt væri að bjóða kæranda starf hjá kærða samkvæmt fyrrnefndu ákvæði I til bráðabirgða. Í ákvörðun kærða hafi því ekki falist mismunun á grundvelli aldurs í skilningi 1. mgr. 1. gr., sbr. 12. gr., laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði.
14. Kærði bendir á að við samþykkt laga nr. 45/2023 hafi legið fyrir að öllu starfsfólki Innheimtustofnunar sveitarfélaga, utan forstjóra, skyldi boðið starf hjá kærða, að því gefnu að það uppfyllti skilyrði laga nr. 70/1996. Hafi ákvörðunin jafnframt verið undanþegin auglýsingaskyldu sömu laga. Kærði vekur athygli á því að lög nr. 70/1996 hafi ekki gilt um réttarstöðu starfsfólks Innheimtustofnunar sveitarfélaga enda hafi hún verið starfrækt af sveitarfélögum landsins. Um starfskjör, réttindi og skyldur starfsfólks stofnunarinnar hafi því gilt ákvæði ráðningar- og kjarasamninga eins og mælt sé fyrir um í 57. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Þannig hafi Innheimtustofnun sveitarfélaga borið að gæta þess að fyrrnefndum ákvæðum væri fylgt og að segja upp starfsfólki samkvæmt því sem mælt var fyrir um í lögum nr. 45/2023.
15. Kærði bendir á að hann hafi enga aðkomu haft að ákvörðun um uppsagnir starfsfólks Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Við undirbúning flutnings starfsfólks til samræmis við fyrrnefnt ákvæði til bráðabirgða hafi kærði miðað við að skylda hans næði til þess að bjóða því starfsfólki sem uppfyllti skilyrði laga nr. 70/1996 starf og starfshlutfall sambærilegt því sem ráðningarsamband þess við Innheimtustofnun sveitarfélaga hefði byggt á.
16. Kærði bendir á að ákvæði 2. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996 hafi að geyma meginreglu um aldurshámark opinberra starfsmanna sem gilt hafi um árabil. Regluna hafi áður verið að finna í 13. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Kærði bendir á að vera kunni að víkja megi frá reglunni í einhverjum tilvikum sé sérstakt tilefni til þess. Skuli þá ráðningarkjörum breytt á þann veg að laun miðist eftirleiðis við unna tíma en ekki fast starf í tilteknu starfshlutfalli. Sé það til marks um að slíkum undantekningum sé almennt ætlað að vara tímabundið og í takmörkuðum mæli. Ljóst sé hins vegar að ekki hafi verið litið svo á að starfsfólk geti byggt rétt til áframhaldandi ráðningar, eftir að hámarksaldri er náð, á að heimilt sé að gera undantekningu frá fyrrnefndri meginreglu um aldurshámark. Þá hafi ekki verið litið svo á að stofnunum ríkisins beri að bjóða starfsfólki sem náð hefur hámarksaldri áframhaldandi ráðningu á breyttum ráðningarkjörum. Kærði bendir á að ef það væri lagt til grundvallar væri þýðing reglunnar að lögum næsta engin.
17. Að mati kærða leiði framangreind meginregla um uppsögn starfsmanns við 70 ára aldur eðli málsins samkvæmt af sér samsvarandi meginreglu um að einstaklingar sem séu eldri en 70 ára verði ekki ráðnir til starfa hjá ríkinu. Ætla verði að heimilar undantekningar frá reglunum séu þær sömu. Kærði bendir hér á að undantekningar frá meginreglum skuli almennt túlkaðar þröngt. Þá bendir kærði á að löggjafinn hafi talið ástæðu til þess að lögfesta sérstaka undanþáguheimild til bráðabirgða með 1. gr. laga nr. 59/2023, um breytingu á lögum nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn, þess efnis að heilbrigðisstofnunum væri heimilt, þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996, að ráða heilbrigðisstarfsmann sem náð hefur 70 ára aldri tímabundið til starfa við heilbrigðisþjónustu. Ráðning megi hins vegar ekki vara lengur en til loka þess mánaðar þegar starfsmaður verður 75 ára. Kærði vísar til þess að í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð við frumvarp það sem varð að fyrrgreindum lögum hafi verið tekið fram að núgildandi lög krefjist þess að starfsfólki sé sagt upp við 70 ára aldur en engin undanþága sé í lögum nr. 70/1996 frá meginreglu laganna um aldurshámark starfsmanna ríkisins.
18. Kærði vísar til þess að hann hafi að vel athuguðu máli við undirbúning ákvörðunartöku um að bjóða starfsfólki Innheimtustofnunar sveitarfélaga starf á grundvelli áðurnefnds ákvæðis I til bráðabirgða við lög nr. 54/1971 litið svo á að það starfsfólk sem náð hefði 70 ára aldri uppfyllti ekki hlutlægt skilyrði 2. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996. Skylda til að bjóða því starf yrði því hvorki byggð á fyrrnefndu bráðabirgðaákvæði né yrði samsvarandi réttur starfsfólks sem náð hefði 70 ára aldri til starfa hjá kærða byggður á því. Kærði bendir hér á að önnur túlkun myndi leiða til þess að starfsfólk Innheimtustofnunar sveitarfélaga, sem væri 70 ára eða eldra, myndi öðlast með því ríkari rétt til áframhaldandi starfa eftir 70 ára aldur sem annað starfsfólk hjá stofnunum ríkisins nyti ekki. Slík niðurstaða yrði vart talin standast jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar. Af framangreindu leiði að kærandi, sem náð hafði […] ára aldri hinn 31. desember 2023, hafi talist við það tímamark ekki uppfylla skilyrði laga nr. 70/1996. Kærða hafi því hvorki verið rétt né skylt að bjóða kæranda starf á grundvelli fyrrnefnds bráðabirgðaákvæðis.
19. Kærði byggir á því að kæranda hafi ekki verið mismunað á grundvelli aldurs í skilningi laga nr. 86/2018. Þvert á móti hafi kærandi fengið sömu meðferð og almennt gerist í tilfelli starfsfólks ríkisins sem náð hafi 70 ára aldri. Kærandi hafi hins vegar hvorki getað öðlast ríkari né lakari rétt til starfa á grundvelli ákvæðis I til bráðabirgða. Kærði bendir hér á að sérstaklega sé tekið fram í 12. gr. laga nr. 86/2018 að mismunandi meðferð vegna aldurs brjóti ekki gegn lögunum séu færð fyrir henni málefnaleg rök sem helgist af lögmætu markmiði, enda gangi slíkar aðgerðir ekki lengra en þörf krefji til að ná því markmiði sem að sé stefnt. Kærði bendir á að í 4. kafla greinargerðar með frumvarpi til laga nr. 86/2018 sé m.a. vísað til starfslokareglu 2. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996. Sérstaklega hafi verið tekið fram að með frumvarpinu væri ekki ætlunin að raska starfslokareglum sem tengdar séu lífeyristökualdri og helgist af málefnalegum sjónarmiðum og lögmætu markmiði. Kærði byggi á því að málefnaleg sjónarmið hafi auk þess legið að baki ákvörðun hans, þ.e. að tryggja einstaklingum í sambærilegri stöðu sams konar meðferð og að gæta jafnræðis meðal starfsfólks ríkisins við framkvæmd lagareglu um hámarksaldur ríkisstarfsmanna.
NIÐURSTAÐA
20. Mál þetta snýr að því hvort kærði hafi brotið gegn ákvæðum 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, með þeirri ákvörðun að bjóða kæranda ekki starf hjá kærða frá 1. janúar 2024, á grundvelli aldurs.
21. Í 2. gr. laga nr. 86/2018 kemur fram að markmið laganna sé að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr., þ.e. kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu, m.a. hvað varðar aðgengi að störfum, þ.m.t. við ráðningar. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna er hvers kyns mismunun á vinnumarkaði, hvort heldur bein eða óbein, vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr. óheimil. Í 8. gr. laganna er sérstaklega vikið að banni við mismunun í starfi og við ráðningu. Samkvæmt 1. mgr. er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr., sbr. þó 2. mgr. 1. gr., 10., 11. og 12. gr. Sama gildir um stöðuhækkun, stöðubreytingu, endurmenntun, símenntun, starfsþjálfun, námsleyfi, uppsögn, vinnuaðstæður og önnur starfskjör starfsmanna.
22. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, þ.e. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lög um jafna meðferð utan vinnumarkaðar og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði. Tekið er fram að lögin gildi m.a. um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint eftir því sem mælt er fyrir um í lögum um jafnréttismál, sbr. 1. gr., og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði þeirra laga hafi verið brotin. Jafnframt er tekið fram að komist kærunefndin að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn lögunum sé henni heimilt í úrskurði sínum að beina fyrirmælum um tilteknar úrbætur til hlutaðeigandi aðila.
23. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 86/2018 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli þeirra þátta sem taldir eru upp í 1. mgr. 1. gr. Samkvæmt sönnunarreglu í 15. gr. laganna kemur það í hlut þess sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli aldurs. Takist sú sönnun ber atvinnurekandanum að sýna fram á að aðrar ástæður en aldur hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Er því um sams konar sönnunarreglu að ræða og í 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020. Kemur það því í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að aldur hafi haft áhrif á ákvörðun kærða um að bjóða honum ekki starf. Hér ber einnig að hafa í huga að samkvæmt 12. gr. laga nr. 86/2018 telst mismunandi meðferð vegna aldurs ekki brjóta gegn lögunum séu færð fyrir henni málefnaleg rök sem helgist af lögmætu markmiði, þ.m.t. stefnu í atvinnumálum eða öðrum markmiðum er varða vinnumarkað, enda gangi slíkar aðgerðir ekki lengra en nauðsynlegt sé talið til að ná því markmiði sem stefnt sé að. Er frávik frá banni við mismunandi meðferð á grundvelli aldurs því heimilað að uppfylltum framangreindum skilyrðum.
24. Árétta ber að framangreint verður ekki talið fela í sér sjálfstæða heimild fyrir nefndina til að byggja á öðrum sjónarmiðum en kærði hefur sjálfur lagt til grundvallar og ekki heldur heimild til að endurmeta innbyrðis vægi þessara sjónarmiða með sjálfstæðum hætti, svo lengi sem þau voru málefnaleg og innan þess svigrúms sem kærði hefur. Takmarkast endurskoðun kærunefndar jafnréttismála því af sambærilegum þáttum og þegar um kyn er að ræða, sbr. til hliðsjónar athugasemdir við 19. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 150/2020.
25. Í máli þessu liggur fyrir að ákvörðun kærða var byggð á því að kærandi sem var þá […] ára hafi sökum aldurs ekki uppfyllt skilyrði laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. 2. mgr. 43. gr. laganna. Hafi kærða því ekki verið skylt að bjóða kæranda áframhaldandi starf hjá kærða frá 1. janúar 2024 eins og mælt var fyrir um í ákvæði I til bráðabirgða við lög nr. 54/1971, um innheimtu meðlaga o.fl., sbr. a-lið 1. mgr. 9. gr. laga nr. 45/2023. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að kærði hafi boðið öðru starfsfólki Innheimtustofnunar sveitarfélaga áframhaldandi starf hjá sér frá 1. janúar 2024.
26. Samkvæmt því verður lagt til grundvallar í málinu að ákvörðun kærða um að bjóða kæranda ekki starf hafi falið í sér mismunun á grundvelli aldurs, sbr. 1. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 1. gr., sbr. 1. mgr. 8. gr., laga nr. 86/2018. Kemur þá til skoðunar hvort mismununin hafi verið réttlætanleg, sbr. 12. gr. laga nr. 86/2018, þannig að unnt hafi verið að færa fyrir henni málefnaleg rök sem helgist af lögmætu markmiði og að ekki hafi verið gengið lengra en nauðsynlegt hafi verið til að ná því markmiði.
27. Kærði hefur vísað til þess að réttarstaða starfsfólks Innheimtustofnunar sveitarfélaga hafi verið ólík réttarstöðu starfsfólks ríkisins enda um stofnun sveitarfélaga að ræða. Það hafi ekki fallið undir lög nr. 70/1996, en um réttarstöðu þess hafi verið kveðið á í ráðningar- og kjarasamningum eins og mælt sé fyrir um í 57. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
28. Fyrir liggur í gögnum málsins að breytingar voru gerðar á ráðningarfyrirkomulagi kæranda hjá Innheimtustofnun við […] ára aldur hans árið 2018. Af samkomulagi því sem liggur fyrir í málinu verður ráðið að kærandi hafi verið ráðinn ótímabundið í fast starf í 49% starfshlutfalli en að öðru leyti færi um réttindi og skyldur samkvæmt kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Kjarafélags viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Þegar ráðningarsamningi kæranda var breytt árið 2018 sökum þess að hann hafði náð […] ára aldri gilti kjarasamningur aðila sem hafði gildistíma frá 1. maí 2011 til 31. mars 2014, eins og hann var framlengdur með breytingum, dags. 30. mars 2014 og 7. apríl 2016, með gildistíma frá 1. september 2015 til 31. mars 2019. Í gr. 11.1.7.1 kjarasamningsins var fjallað um starfslok vegna aldurs. Var þar tekið fram að starfsmaður skyldi láta af starfi sínu næstu mánaðamót eftir að hann næði 70 ára aldri án sérstakrar uppsagnar. Með nýjum kjarasamningi aðila með gildistíma frá 1. janúar 2020 til 31. mars 2023 var óbreytt regla um starfslok við 70 ára aldur en jafnframt samið um nýja gr. 11.1.7.2 um heimild til þess að framlengja ráðningu eða endurráða starfsmann sem náð hefði 70 ára aldri og látið hefði af föstu starfi ef starfsmaður óskaði þess. Væri unnt að verða við ósk starfsmanns skyldi ráðning gilda í allt að tvö ár til fyrstu mánaðamóta eftir að 72 ára aldri væri náð, nema annar hvor aðili segði ráðningu upp með þriggja mánaða fyrirvara.
29. Af framangreindum ákvæðum kjarasamninga sem giltu um starf kæranda hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga verður ekki ráðið að hann hafi átt rétt til áframhaldandi starfs hjá Innheimtustofnun eftir 70 ára aldur, en samkvæmt gr. 11.1.7.1 skyldi hann láta af störfum við 70 ára aldur. Það sama á við eftir að við kjarasamninginn bættist nýtt ákvæði, gr. 11.7.1.2, árið 2020 um heimild til framlengingar ráðningar starfsfólks eftir 70 ára aldur. Af orðalagi ákvæðisins verður ekki annað ráðið en að starfsmaður skyldi láta af störfum í síðasta lagi við 72 ára aldur.
30. Kærði hefur hafnað því að hann hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 86/2018 gagnvart kæranda. Kærði byggir á því að í 2. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996, sem fjallar um starfslok starfsmanna ríkisins við 70 ára aldur, felist sú meginregla að starfsfólk ríkisins skuli láta af störfum við 70 ára aldur. Af þeirri meginreglu leiði jafnframt að einstaklingur sem er orðinn 70 ára verði ekki ráðinn í fast starf hjá ríkinu. Túlka verði því skilyrði ákvæðis I til bráðabirgða við lög nr. 54/1971 þannig að kærða hafi aðeins verið skylt að bjóða starf því starfsfólki Innheimtustofnunar sveitarfélaga sem uppfyllti skilyrði laga nr. 70/1996. Það hafi ekki átt við um kæranda sem hafi verið orðinn […] ára þegar kærði hafi tekið þá ákvörðun sem liggur til grundvallar máli þessu.
31. Kærandi bendir hins vegar á að ekki sé lögð sú skylda á forstöðumann stofnunar að segja upp starfsmanni, sem falli undir lögin, á þeim grundvelli að hann hafi náð 70 ára aldri, heldur sé kveðið á um að það skuli jafnan gert. Þá felist ekki í ákvæðinu fortakslaust bann við því að ráða fólk til starfa eftir að það nái 70 ára aldri. Kærði bendir aftur á móti á að vera kunni að víkja megi frá reglunni í einhverjum tilvikum sé sérstakt tilefni til þess. Skuli þá ráðningarkjörum breytt á þann veg að laun miðist eftirleiðis við unna tíma en ekki fast starf í tilteknu starfshlutfalli. Sé það til marks um það að slíkum undantekningum sé almennt ætlað að vara tímabundið og í takmörkuðum mæli. Ljóst sé hins vegar að ekki hafi verið litið svo á að starfsfólk geti byggt rétt til áframhaldandi ráðningar eftir að hámarksaldri er náð á því að heimilt sé að gera undantekningu frá fyrrnefndri meginreglu. Þá hafi ekki verið litið svo á að stofnunum ríkisins beri að bjóða starfsfólki sem náð hafi hámarksaldri áframhaldandi ráðningu á breyttum ráðningarkjörum.
32. Ágreiningslaust er í málinu að ákvæði 2. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996 mælir ekki fyrir um að óheimilt sé að ráða í starf einstakling sem náð hefur 70 ára aldri. Af lögskýringargögnum má hins vegar ráða að við túlkun og framkvæmd ákvæðins hafi slík meginregla verið talin gilda. Hvað það varðar er í v-lið 4. kafla greinargerðar með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 86/2018 rakið að hvorki væri í gildandi lögum né í kjarasamningum kveðið á um almennan starfslokaaldur á almennum vinnumarkaði þótt í framkvæmd væri jafnan miðað við að starfsfólk ynni ekki mikið lengur en til sjötugs. Að jafnaði tengdist starfslokaaldur lífeyristökualdri og væri frumvarpinu ekki ætlað að raska því. Samkvæmt lögum nr. 70/1996 skuli segja starfsmanni upp störfum frá og með næstu mánaðamótum eftir að hann nær 70 ára aldri. Hins vegar væri heimilt að ráða opinbera starfsmenn eftir að þeir næðu framangreindum aldri en skyldu laun þeirra þá miðast við unna tíma. Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 59/2023, um breytingu á lögum um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012, voru rakin sérstök rök fyrir því að heimila heilbrigðisstofnunum tímabundið að ráða heilbrigðisstarfsmenn til afmarkaðra starfa við heilbrigðisþjónustu allt til 75 ára aldurs. Kom þar fram að heilbrigðisstofnunum ríkisins væri undantekningarlaust gert að segja upp ráðningarsamningi við allt starfsfólk þegar það næði 70 ára aldri á grundvelli 2. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996. Engu máli breyti varðandi uppsagnarskyldu að skortur væri á sérhæfðu starfsfólki til að veita heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins hefðu því gripið til þess örþrifaráðs að gera tímavinnu- eða verktakasamninga við heilbrigðisstarfsfólk, eftir að hafa sagt upp ráðningarsamningi við það sökum aldurs, en ríkisstofnunum væri heimilt, þrátt fyrir regluna um 70 ára aldurshámark ríkisstarfsmanna, að gera tímavinnusamninga um vinnuframlag starfsmanna eftir sjötugt.
33. Af framangreindu verður ekki annað ráðið en að lagt hafi verið til grundvallar af hálfu löggjafans að í framkvæmd sé litið svo á að óheimilt sé að ráða einstakling í fast starf hjá ríkinu eftir að hann hefur náð 70 ára aldri. Fær framangreint jafnframt stuðning af forsendum í dómi Landsréttar í máli nr. 618/2022 þar sem ekki var talið ólögmætt af ríkisstofnun að taka umsókn sjötugs umsækjanda um starf ekki til frekari meðferðar.
34. Með vísan til alls þess sem rakið er hér að framan verður fallist á að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði laga nr. 70/1996 um aldurshámark starfsmanna ríkisins sem var forsenda þess að honum yrði boðið starf hjá kærða samkvæmt ákvæði I til bráðabirgða við lög nr. 54/1971.
35. Eins og áður er rakið var sú ákvörðun kærða að bjóða kæranda ekki starf hjá kærða frá 1. janúar 2024 byggð á aldri hans. Með vísan til þess sem rakið er að framan og að ákvörðun kærða hafi byggst á ákvæði 2. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996 um hámarksaldur starfsmanna ríkisins verður fallist á að kærði hafi fært fram málefnaleg rök fyrir þeirri meðferð sem kæranda var gert að sæta, sbr. 12. gr. laga nr. 86/2018. Með vísan til framangreinds verður ekki talið að ákvörðun kærða hafi verið andstæð lögum nr. 86/2018. Er það því niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að ákvörðun kærða hafi ekki falið í sér mismunun gagnvart kæranda á grundvelli aldurs hans, sbr. 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 86/2018.
36. Uppkvaðning úrskurðar hefur tafist umfram þann tveggja mánaða frest sem nefndin hefur til að úrskurða í máli eftir að gagnaöflun í því er lokið samkvæmt 5. mgr. 9. gr. laga nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála. Er ástæða þess einkum mikill fjöldi mála sem er til meðferðar hjá nefndinni auk breytinga á skipan og vistun hennar.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Kærði, Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra, braut ekki gegn 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði með ákvörðun um að bjóða kæranda ekki starf.
Ari Karlsson
Andri Árnason
Maren Albertsdóttir