Hoppa yfir valmynd
22. desember 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Komugjöld breytast um áramótin

Fréttatilkynning nr. 33/2004

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur gefið út reglugerð sem felur í sér breytingar á komugjöldum vegna heimsókna til lækna á heilsugæslustöðvar og heilbrigðisstofnanir og taka breytingarnar gildi 1. janúar.

Eru breytingar i samræmi við fjárlög 2005, en samkvæmt þeim er gert ráð fyrir 46,8 m.kr. hækkun sértekna hjá heilsugæslustöðvum og heilsugæslusviðum heilbrigðisstofnana. Þá var sértekjuáætlun Landspítala - háskólasjúkrahúss hækkuð í fjárlögum næsta árs í 52,1 m.kr. og breytist gjaldskrá á sjúkrahúsum í samræmi við þetta.

Þetta þýðir að almenn komugjöld á heilsugæslustöðvar á dagvinnutíma hækka um 100 krónur og verða 700.- kr. í stað 600 kr. Komugjöld fyrir ellilífeyrisþega, örorkulífeyrisþega og börn hækka úr kr. 300 í 350,- kr.

Almennu komugjöldin á heilsugæslustöðvunum verða 1. janúar 2005 þau sömu í krónum og þau voru á árunum 1997 til 2000, en neysluverðvísitalan hefur hækkað um tæplega 34% frá 1997. Hefðu komugjöldin fylgt þróun neysluverðsvísitölu væru þau nú 937 krónur svo sem sjá má á línuritinu.

Almenn komugjöld utan dagvinnutíma verða 1.750, - kr. en voru 1.500,- kr. og komugjöld ellilífeyrisþega, örorkulífeyrisþega og vegna barna utan dagvinnutíma hækka um 100 krónur, verða 800 krónur í stað 700 kr. áður.

Gjöld vegna vitjana lækna hækka úr kr. 1.600 krónum í 1.850. Gjöld vegna vitjana lækna til ellilífeyrisþega, örorkulífeyrisþega og barna hækka úr kr. 600 í kr. 700.

Gjald vegna krabbameinsleitar á heilsugæslustöðvum hækkar um 100 krónur og verður 2.600,- krónur og gjald fyrir bólusetningar þar breytist til að mæta breytingum á innkaupsverði bóluefna.

Gjöld vegna heimsókna á slysadeildir sjúkrahúsa hækka um 110 krónur og verða 3.320 krónur frá 1. janúar nk. Gjald fyrir hverja komu og endurkomu á göngudeild sjúkrahúsa vegna þjónustu annarra en lækna hækkar um 56 krónur og verður 1.777 krónur.

Almennt gjald sjúkratryggðra fyrir keiluskurðaðgerðir hækka úr kr. 5.100 í kr. 5.280 og gjald fyrir hjartaþræðingu hækkar úr kr. 5.100 í kr. 5.280. Gjald fyrir sjúkraflutninga hækkar um 100 krónur 1. janúar 2005 og verður 3.500 krónur.

Gjöld fyrir rannsóknir, geisla- og myndgreiningar og beinþéttnimælingar verða óbreytt.

Ákveðið hefur verið að frá 1. janúar 2005 reiknist dagvinnutími heilsugæslustöðvanna frá kl. 8:00 til kl. 16:00 virka daga.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið,
22. desember 2004

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum