Hoppa yfir valmynd
17. janúar 2005 Heilbrigðisráðuneytið

Þögn í minningu látinna

Framkvæmdastjórn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) minntist látinna við Indlandshaf á fundi sínum sem hófst í dag með einnar mínútu þögn. Davíð Á. Gunnarsson, formaður framkvæmdastjórnar WHO, gerði í upphafi fundar hörmungarnar á svæðinu að umtalsefni í inngangserindi sínu. Hann og forstjóri WHO greindu framkvæmdastjórninni frá því hvernig hjálparstarfið gengur og hver staða heilbrigðismála á svæðinu er, en um 160 þúsund manns eru nú látnir af völdum hörmunganna við Indlandshaf.

Í upphafi fundar tengdust starfsmenn WHO sem vinna að hjálparstarfi í Banda Ache fundinum um gervihnött og greindu framkvæmdastjórninni milliliðalaust frá afleiðingum flóðbylgjunnar í Ache. Sama gerðu fulltrúar WHO sem staddir eru á flugvélamóðurskipinu USS Abraham Lincoln úti fyrir ströndinni en þeir skipuleggja í samvinnu við bandaríska sjóherinn, Sameinuðu þjóðirnar, stjórnvöld í Indónesíu og fjölmörg hjálparsamtök hjálparstarfið á vesturströnd Ache. Áhersla hefur verið lögð á að koma vatni, mat og lyfjum til íbúa svæðisins, en auk þess hefur þurft að byggja upp fjarskipti á svæðinu sem voru í rúst eftir flóðbylgjuna. Fram kom í máli yfirmanns USS Abrahams Lincolns að þyrlur flugvélamóðurskipsins hefðu farið yfir þúsund ferðir með hjálpargögn frá því skipið kom á svæðið þann 1. janúar s.l.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum