Hoppa yfir valmynd
4. júní 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 1/2012. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 16. maí 2012

í máli nr. 1/2012:

ÞÁ bílar ehf.

gegn

Sveitarfélaginu Árborg

Með bréfi, dags. 3. janúar 2012, kærðu ÞÁ bílar ehf. ákvörðun Árborgar um „að semja við Guðmund Tyrfingsson ehf.“ í útboði kærða nr. 11229: „Útboð á akstri, skólaakstur og hópferðabifreiðaþjónusta fyrir sveitarfélagið Árborg 2011 – 2014“. Í kæru voru kröfur orðaðar með eftirfarandi hætti af lögmanni kæranda:

„1. Þess er krafist að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kærða gagnvart umbjóðanda mínum.

 

2. Þá er þess krafist að kærði verði úrskurðaður til þess að greiða kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi sbr. 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007“

 

Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Með bréfi, dags. 12. janúar 2012, krafðist kærði þess aðallega að kærunefndin vísaði kröfum kæranda frá en til vara að kærunefndin viðurkenndi ekki skaðabótaskyldu til handa kæranda og að hafnað yrði kröfu kæranda um málskostnað. Kærandi gerði athugasemdir við greinargerð kærða, með bréfi dags. 7. mars 2012.

 

I.

Í júlí 2011 auglýsti kærði útboð nr. 11229: „Útboð á akstri, skólaakstur og hópferðabifreiðaþjónusta fyrir Sveitarfélagið Árborg 2011 - 2014“. Útboðinu var skipt í 3 verkhluta: 1. Skólaakstur samkvæmt tímatöflu, 2. Tilfallandi akstur hópferðabifreiða og 3. Akstur fyrir ferðaþjónustu fatlaðra og notendur Dagdvalar aldraðra.

            Grein A.1.3 í útboðslýsingu bar fyrirsögnina „Kröfur til bjóðenda“ og í henni sagði m.a.:

            „Bjóðendur skulu leggja fram með tilboði sínu eftirfarandi gögn:

·         Almennar upplýsingar um bjóðanda, fyrirtæki hans og starfslið, sbr. viðauka I.

·         Nöfn og starfsreynslu helstu yfirmanna, stjórnenda og bifreiðastjóra sem að verkinu koma, sbr. grein B.1.6 og fylgiskjal II.

·         Skrá yfir helstu sambærileg verk sem bjóðandi hefur unnið á sl. 3 árum, sbr. viðauka III.

·         Skrá yfir hópferðabifreiðar sem fyrirhugað er að nota við verkið, sbr. grein B.1.4 og B.1.9 ásamt viðauka IV. Með fyrrgreindri skrá skal fylgja staðfesting á eignarhaldi eða umráðarétti bjóðanda á hópferðabifreiðum [...] Gögn skulu sýna að bjóðandi hafi yfir að ráða nægum fjölda hópferðabifreiða til þess að annast akstur samkvæmt kröfum útboðs þessa og tilboði bjóðanda. Verkkaupi skal eiga þess kost að skoða þau tæki og búnað, sem bjóðandi tilgreinir í tilboði sínu.

·         Afrit af starfs- eða rekstrarleyfi og öllum tilskildum leyfum og vottorðum til reksturs hópferðaþjónustu og fólksflutninga í atvinnuskyni.

·         Skrá yfir undirverktaka er bjóðandi hyggst ráða til verksins.

·         Ef um hlutafélag er að ræða er óskað eftir útskrift um hlutafélagið úr hlutafélagaskrá.

·         Yfirlýsingu frá viðskiptabanka um bankaviðskipti bjóðanda.

·         Ársreikningar síðustu tveggja ára (2010 og 2009), áritaðir af endurskoðanda. Þegar um einstakling með atvinnurekstur í eigin nafni er að ræða, er óskað eftir staðfestum ljósritum af skattaskýrslum.

[...]

Ef eitt eða fleiri af eftirtöldum atriðum koma í ljós við skoðun gagna frá bjóðanda áskilur verkkaupi sér rétt til að hafna tilboði hans:

[...]

·         Bjóðandi uppfyllir ekki eftirfarandi kröfur um eignarhald eða umráðarétt bjóðanda á hópferðabifreiðum sem uppfylla kröfur útboðsgagna:

 

Til að koma til álita sem verktaki er gerð sú krafa að bjóðandi sé eigandi og/eða hafi umráðarétt yfir nægum fjölda hópferðabifreiða til þess að annast akstur samkvæmt kröfu útboðs þessa og tilboði bjóðanda [...].“

 

Grein B.1.4 í útboðslýsingu bar fyrirsögnina „Kröfur um hópferðabifreiðar og gæði búnaðar“ og í henni sagði m.a.:

„Að auki er gerð sú krafa að vélar hópferðabifreiða uppfylli a.m.k. kröfur EURO III staðals en jafnframt er óskað að vélin hafi eins háan EURO staðal og hægt er miðað við framleiðsluár hópferðabifreiðar.“

 

Kærandi var einn fjögurra bjóðenda sem skiluðu tilboði í útboðinu. Með bréfi, dags. 8. september 2011, tilkynnti kærði að hann hyggðist semja við kæranda um verkhluta 2 og 3.

Guðmundur Tyrfingsson ehf. var einnig bjóðandi í útboðinu og hann kærði ákvörðun kærða um val á tilboðum kæranda í verkhluta 2 og 3 til kærunefndar útboðsmála.

Í úrskurði kærunefndar útboðsmála í máli nr. 26/2011, dags. 15. desember 2011, var niðurstaða nefndarinnar að tilboðum kæranda hefðu ekki fylgt að öllu leyti þær upplýsingar sem gerð var krafa um í útboðsgögnum, þ.e. um ársreikninga og rekstrarleyfi. Auk þess taldi nefndin ljóst að þær bifreiðar sem kærandi hugðist nota uppfylltu ekki allar kröfur EURO III staðalsins eins og áskilið var í útboðsgögnum. Af þeirri ástæðu taldi kærunefnd útboðsmála að kærða hefði ekki verið heimilt að velja tilboð ÞÁ bíla ehf. Í úrskurðarorðum sagði m.a. eftirfarandi: 

„Sú ákvörðun kærða, Árborgar, að taka tilboði ÞÁ bíla ehf. í útboði nr. 11229: „Útboð á akstri, skólaakstur og hópferðabifreiðaþjónusta fyrir sveitarfélagið Árborg 2011 – 2014“ er felld úr gildi.

 

Í kjölfar úrskurðarins samdi kærði við Guðmund Tyrfingsson ehf. um verkhluta 2 og 3 í útboðinu.

 

II.

Kærandi segist ekki vilja una þeirri ákvörðun kærða að láta útboð um skólaakstur og hópferðabifreiðaþjónustu fyrir Sveitarfélagið Árborg ekki fara fram á nýjan leik. Kærandi segir að þegar samningurinn við Guðmund Tyrfingsson ehf. hafi verið gerður hafi verið liðnir meira en þrír mánuðir frá því að að tilboð hafi verið opnuð en tilboð Guðmundar Tyrfingssonar ehf. hafi aðeins verið skuldbindandi í 6 vikur samkvæmt útboðsgögnum. Kærandi segir að samkvæmt 76. gr. laga um opinber innkaup skuli samþykkja tilboð endanlega innan gildistíma þess.

            Kærandi byggir á því að með því að semja fyrirvaralaust við Guðmund Tyrfingsson ehf. hafi kærandi brotið jafnræðisreglu og jafnfram ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni gagnvart kæranda. Kærandi telur að hann hafi haft möguleika á því að bjóða í þjónustuna á nýjan leik og verða valinn en þeir möguleikar hafi orðið að engu við brot kærða.

 

III.

Kærandi segir að kærunefnd útboðsmála hafi þegar leyst úr því álitaefni sem mál þetta lúti að. Kærði segir skaðabótaskyldu ekki fyrir hendi í málinu enda hafi kærandi ekki átt raunhæfa möguleika á að verða valinn til að sinna þjónustunni sem boðin var út.

 

IV.

Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda. Í 1. mgr. 101. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, er mælt fyrir um skaðabótaskyldu vegna tjóns sem hlotist hefur vegna brota kaupanda á lögum og reglum um opinber innkaup. Samkvæmt ákvæðinu eru sett tvenns konar skilyrði fyrir skaðabótaskyldu. Annars vegar þarf að vera um að ræða brot á lögum eða reglum um opinber innkaup. Hins vegar þarf bjóðandi að sanna að hann hafi átt raunhæfa möguleika á að verða valinn.

            Í úrskurði í máli nr. 26/2011 komst kærunefnd útboðsmála að þeirri niðurstöðu að tilboð kæranda hefði ekki verið í samræmi við kröfur útboðsgagna í útboðinu nr. 11229: „Útboð á akstri, skólaakstur og hópferðabifreiðaþjónusta fyrir sveitarfélagið Árborg 2011 – 2014“. Með vísan til þeirrar niðurstöðu er ljóst að kærandi átti ekki raunhæfa möguleika á að verða valinn í útboðinu.

Kemur þá til álita hvort kærði hafi átt að bjóða út að nýju skólaakstur og hópferðabifreiðaþjónusta fyrir árin 2011 – 2014.

Kærði gekk til samninga við Guðmund Tyrfingsson ehf. á grundvelli tilboðs fyrirtækisins í verkhluta 2 og 3 í útboðinu. Í útboðsgögnum kom fram að gildistími tilboða væri 6 vikur frá opnun tilboða. Tilboð voru opnuð hinn 5. ágúst 2011 en kærði tók tilboði Guðmundar Tyrfingssonar ehf. í desember 2011. Þannig voru liðnar meira en 6 vikur frá opnun tilboða þegar tilboðinu var tekið. Við mat á því hvort heimilt hafi verið að taka tilboði Guðmundar Tyrfingssonar ehf. verður að líta til þeirra hagsmuna sem búa að baki gildistíma tilboða. Tilboðum í opinberum innkaupum er markaður gildistími til þess að bjóðendur geti treyst því að þeir verði einungis bundnir við tilboð sitt til fyrirfram ákveðins tíma. Gildistíminn er þannig bjóðendum til hagsbóta.

Kærunefnd útboðsmála hefur heimild, skv. 96. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, til þess að stöðva innkaupaferli eða gerð samnings þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru. Markmið ákvæðisins er að tryggja bjóðendum raunhæft úrræði til þess að fá ólögmætri ákvörðun kaupanda um val á tilboði hnekkt. Úrræðið gerir þannig ráð fyrir því að hið kærða innkaupaferli geti haldið áfram í kjölfar úrskurðar nefndarinnar. Gert er ráð fyrir að í framhaldi af stöðvun og úrskurði kærunefndarinnar hafi bjóðandinn möguleika á að verða valinn til samningsgerðar á grundvelli þess innkaupaferlis sem stöðvað var. Ljóst er að þessi úrræði laganna væru til lítils ef málsmeðferð nefndarinnar yrði ávallt til þess að tilboð rynnu út á meðan beðið væri úrskurðar.

Ástæða þess að svo langur tími leið frá opnun tilboða og þar til kærði tók tilboði Guðmundar Tyrfingssonar ehf. er sú að í millitíðinni var  útboðsferlið stöðvað af kærunefnd útboðsmála á meðan nefndin fjallaði um mál nr. 26/2011. Kærði tók tilboði Guðmundar Tyrfingssonar ehf. aðeins nokkrum dögum eftir að úrskurður nefndarinnar lá fyrir. Við þær aðstæður telur kærunefnd útboðsmála að kærða hafi verið rétt að taka gildu tilboði sem barst í hinu kærða útboði.

Af framangreindum ástæðum telur kærunefnd útboðsmála að kærði hafi ekki brotið gegn lögum nr. 84/2007, um opinber innkaup, með því að taka tilboði Guðmundar Tyrfingssonar ehf. Því er það álit kærunefndar útboðsmála að kærði hafi ekki bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart kæranda samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laga nr. 84/2007.

Kærandi hefur krafist þess að kærða verði gert að greiða honum kostnað við að hafa kæruna uppi, sbr. fyrri málslið 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007. Með hliðsjón af úrslitum málsins eru ekki skilyrði til að verða við kröfunni og henni er því hafnað.

 

Úrskurðarorð:

Það er álit kærunefndar útboðsmála að kærði, Sveitarfélagið Árborg, sé ekki skaðabótaskyldur gagnvart kæranda, ÞÁ bílum ehf.

 

Kröfu kæranda, ÞÁ bíla ehf. um að kærði, Sveitarfélaginu Árborg, verði gert að greiða kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi, er hafnað.

 

 

                                         Reykjavík, 16. maí 2012.

                                         Páll Sigurðsson

                                         Auður Finnbogadóttir

                                         Stanley Pálsson

                                                            

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík,                maí 2012.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum