Hoppa yfir valmynd
14. maí 2018 Utanríkisráðuneytið

Eina ljósið í myrkrinu er neyðarathvarf UN Women

Mianara Begum og dóttir hennar. Ljósmynd UN Women/ Allison Joyce - mynd

„Í Mjanmar bjuggum við fjölskyldan í stóru húsi í sveitinni. Við vorum með kýr, geitur og hænur sem voru á beit á okkar stóra græna landi. Við ræktuðum hrísgrjón og áttum nóg í okkur og á, allt þar til einn góðan veðurdag um miðjan ágúst 2017. Þá réðst Mjanmarski herinn inn í húsið okkar, kveikti í því ásamt öllum moskum í nágrenninu. Hermennirnir nauðguðu hundruð kvenna og myrtu fjöldann allan af fólki. Ég var ein af þeim heppnu og náði að flýja. Ég flúði allslaus ásamt fjögurra ára dóttur minni, systkinum og foreldrum. Við náðum ekki að taka neitt með okkur.”

Þetta er hluti af frásögn Mianara Begum, rúmlegri tvítugri Róhingjakonu sem býr í flóttamannabúðunum Cox´s Bazar í Bangladess. Frásögnin er birt á vef UN Women á Íslandi. Fram kemur í greininni að undanfarna þrjá áratugi hafi Bangladess hýst Róhingja sem sætt hafi ofsóknum í heimalandinu, Mjanmar. Í ágústmánuði í fyrri hafi átökin harðnað, ofsóknir aukist og hundruð þúsunda hafi neyðst til að flýja.

“Nú halda því til um 800 þúsund Róhingjar í Balukhali-flóttamannabúðunum við Cox´s Bazar í Bangladess. Þar af eru yfir 400 þúsund Róhingjakonur sem flúið hafa gróft ofbeldi Mjanmarska hersins og nauðganir. Nánast allar hafa orðið vitni að eða verið beittar grófu kynferðislegu ofbeldi. Nauðganir á konum og stúlkum hafa verið notaðar sem markvisst stríðsvopn í þessum blóðugu ofsóknum hersins gegn Róhingjum í Mjanmar. En ekki tekur endilega betra við. Í búðunum eru konur berskjaldaðar fyrir árásum og lifa í stöðugum ótta við ofbeldi. Um þessar mundir, eða níu mánuðum frá því að hertar ofsóknir á hendur Róhingja í Mjanmar hófust, eru að fæðast þúsundir barna í búðunum, lifandi minnisvarðar um skelfilegt ofbeldi,” segir í greininni.

Saga Minara Begum hefst á tilvitnun: „Ég kvíði regntímabilinu og vona að litla skýlið okkar haldi...“

Minara Begum, er 23 ára Róhingjakona sem tókst að flýja gróft ofbeldi og árásir Mjanmarska hersins á þorp hennar Buchidong í Mjanmar. Nú heldur hún til í næststærstu flóttamannabúðum heims við borgina Cox´s Bazar í Bangladess. Hún sækir daglega neyðarathvarf UN Women í búðunum þar sem hún fær hagnýtt nám, atvinnutækifæri og síðast en ekki síst, vernd.

Eftir flóttann gekk Minara sleitulaust í fimm daga án matar og vatns og fjölskyldan svaf undir berum himni. Hún segir að þegar þau hafi komið að ánni hafi hún selt gulli sleginn neflokk til að komast yfir ána með dóttur sína.

“Nú erum við hér í Balukhali búðunum, en hér er lífið síður en svo auðvelt. Pabbi minn er aldraður og getur ekki unnið. Ég verð því að hætta mér út úr skýlinu okkar og sækja mat og aðrar nauðsynjar fyrir fjölskylduna. Í fyrstu grét dóttir mín mikið, hún fékk ekki fylli sína og var alltaf svöng.

En fyrst og fremst kvíði ég regntímabilinu, þá rignir svakalega. Skýlið okkar stendur á sléttu og miklu láglendi og ég vona innilega að það haldi þegar rigningarnar hefjast.

Eina ljósið í myrkrinu er neyðarathvarf UN Women hér í búðunum. Þar læri ég klæðskurð og að sauma. Þar fæ ég sæmdarsett sem inniheldur meðal annars vasaljós sem veitir mér mikla öryggiskennd. Ég hef líka verið í sjálfboðastarfi fyrir UN Women og veiti Róhingjakonum í búðunum upplýsingar um neyðarathvarf UN Women og réttindi þeirra hér í búðunum. Ég tala sérstaklega við foreldra ungra stúlkna og hvet þau til að senda stúlkurnar í neyðarathvarf UN Women þar sem þeim gefst sem dæmi tækifæri til að læra lesa, skrifa og sauma auk þess sem þær fá um leið upplýsingar um réttindi þeirra og hvað stendur þeim til boða að gera innan búðanna.

Í neyðarathvarfi UN Women líður mér vel og er örugg. Það er líka ómetanlegt að hitta aðrar konur og stelpur í sömu stöðu auk þess sem ég læri svo ótal margt nýtt á hverjum degi sem mun án efa nýtast mér til framtíðar. Dóttir mín kemur daglega með mér í athvarfið, hér fær hún bæði mat og leikskólamenntun. Ég vona innilega að hennar framtíð verði bjartari einn góðan veðurdag.“

Saga Minara Begum endurspeglar reynslu og sögu fjölmargra Róhingjakvenna sem halda til í Balukhali flóttamannabúðunum í Cox´s Bazar. Til að lýsa upp myrkur Minöru getur þú gefið vasaljós sem UN Women dreifir í búðunum. 

Greinin á vef UN Women

  • $alt

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum