Hoppa yfir valmynd
28. janúar 2014 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Farþegum í millilandaflugi fjölgaði en færri farþegar í innanlandsflugi

Farþegum í millilandaflugi um íslenska flugvelli fjölgaði á síðasta ári um 15,1% frá árinu 2012 en alls fóru þá 2.801.850 farþegar um flugvellina. Árið 2012 voru þeir 2.435.210 og í báðum tilvikum eru taldir með áningarfarþegar sem fara um Keflavíkurflugvöll. Farþegum innanlands fækkaði um 7,4% milli ára, voru 695.556 í fyrra en 751.505 árið 2012. Þetta er meðal þess sem kemur fram í árlegum flugtölum Isavia sem birtar voru í gær.

Frá Reykjavíkurflugvelli.
Frá Reykjavíkurflugvelli.

Þegar fjöldi farþega innanlandsflugi er skoðaður nánar kemur í ljós að þeim fækkar á öllum áætlunarflugvöllum nema Húsavík og Grímsey. Um Grímseyjarflugvöll fóru 4.223 farþegar í fyrra og fjölgaði þeim um 8,9% og um Húsavíkurflugvöll fóru 9.893 farþegar sem er fjölgun um 50,4%. Mest er fækkun farþega um Ísafjarðarflugvöll eða úr 40.331 farþega árið 2012 í 35.577 í fyrra sem eru 11,8%. Farþegum um Reykjavíkurflugvöll fækkaði úr 363.332 í 338.278.

Farþegum í millilandaflugi fjölgaði eins og fyrr segir um 15,1%. Af rúmlega 2,8 milljónum farþega í millilandaflugi fóru 2.751.743 um Keflavíkurflugvöll (15,6% fjölgun), rúmlega 42 þúsund (9,6% fækkun) um Reykjavíkurflugvöll, 5.014 um Akureyrarflugvöll (32,1% fækkun) og 2.601 um Egilsstaðaflugvöll sem er yfir 400% fjölgun.

Í flugtölum Isavia má síðan finna tölur um vöru- og póstflutninga innanlands og milli landa svo og um flughreyfingar um áætlunarflugvelli landsins. Hefur þeim í heildina fjölgað lítillega frá 2012 til 2013 bæði hvað varðar innanlands- og millilandaflug.

Umferð um íslenska flugstjórnarsvæðið jókst um 7,7% milli áranna 2012 og 2013 og fóru alls 116.326 flugvélar um svæðið í fyrra. Hlutdeild Icelandair var mest eða 16.584 ferðir en næst á eftir komu bandarísku flugfélögin United Airlines og Delta með rúmlega 8 þúsund og rúmlega 6 þúsund ferðir. Algengustu þotugerðirnar voru Boeing 757 eins og Icelandair notar og síðan Boeing 777 og 747.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í flugtölum Isavia:

  • Umfang vöru- og póstflutninga minnkaði um 6,6% innanlands en jókst um 5,3% milli landa.
  • 116.326 flugvélar fóru um íslenska flugstjórnarsvæðið á árinu 2013, 7,7% fleiri en árið 2012.
  • Algengasta leiðin innan svæðisins var frá London til Los Angeles en 2.204 ferðir voru farnar þá leið á árinu.
  • Þau sex flugfélög sem flugu oftast um íslenska svæðið eru Icelandair, United Airlines, Delta, Lufthansa, British Airways og Emirates.
  • Sjá nánar á vef Isavia

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira