Hoppa yfir valmynd
5. mars 2012

Tilmæli FME vegna gengislánadómsins og frekari aðgerðir

Fjármálaeftirlitið
Fjármálaeftirlitið

Með vísan til þeirrar stöðu sem upp er komin hefur Fjármálaeftirlitið beint tilmælum til bankanna um að stilla innheimtuaðgerðum í hóf meðal þeirra sem réttaróvissa ríkir um í kjölfar gengislánadóms Hæstaréttar 15. febrúar síðastliðinn. Tilmælin er að finna í heild sinni á vef Fjármálaeftirlitsins.

Fjallað var um innheimtu þeirra lána sem réttaróvissa ríkir um á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í síðustu viku og voru fulltrúar FME meðal þeirra sem kallaðir voru fyrir nefndina.

Ætlunin er að kalla fulltrúa bankanna á fund nefndarinnar þriðjudaginn 6. mars til að kanna viðbrögð þeirra við tilmælum FME.

Skuldastaða heimilanna var meðal mála sem fjallað var um á fundi ráðherranefndar um efnahagsmál í dag, 5. mars. Einnig munu fulltrúar innanríkisráðuneytis og efnahags- og viðskiptaráðuneytis fara yfir það sem verið er að gera á vettvangi ríkisstjórnarinnar.

Að loknum þeim fundum, sem hér er getið, er ætlunin að ræða nánar hvort þörf sé á auknum lagaheimildum, svo sem til að samræma aðgerðir sýslumanna, tryggja flýtimeðferð, endurupptöku mála sem reist voru á ólögmætum forsendum og til að tryggja gjafsókn eða skaðleysi neytenda í afdrifaríkum prófmálum.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði á Alþingi 1. mars síðastliðinn, að eðlilegt væri flýta málinu og skoða yrði lagabreytingar þar að lútandi ef með þyrfti. Hún kvaðst hafa nokkrar áhyggjur af innheimtuaðgerðum og taldi rétt að grípa til aðgerða til að milda innheimtuna meðan ekki væri búið að vinna úr gengislánadóminum.

Í tilmælum á heimasíðu FME segir meðal annars: „Lánastofnunum ber að leggja mat á það hver möguleg áhrif dómsins, og þess endurreiknings sem af honum hlýst, verða á eigið fé þeirra, samanber bréf Fjármálaeftirlitsins dagsett 27. febrúar síðastliðinn. Ef líkur eru á að nýr endurreikningur í samræmi við dóminn leiði í ljós að tilteknir skuldarar teljast mögulega hafa ofgreitt og ekki er unnt að skuldajafna þeim ofgreiðslum í samræmi við 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu ber lánastofnunum að:

  1. Meta hvort rétt sé að senda frekari greiðsluseðla til slíkra skuldara, og
  2. tryggja skuldurum sem reynast hafa ofgreitt miðað við nýjan endurreikning fullar endurgreiðslur.“

Fjármálaeftirlitið hefur einnig minnt lánastofnanir á þann valkost að þær geti boðið skuldurum, sem teljast mögulega hafa ofgreitt, upp á það úrræði að greiða inn á kröfu samkvæmt greiðsluseðli með greiðslu inn á sérstakan geymslureikning þar til nýjum endurreikningi og uppgjöri er lokið.

„Jafnframt hefur Fjármálaeftirlitið beint því til lánastofnana að grípa ekki til íþyngjandi vanefndaúrræða gagnvart skuldurum, svo sem á grundvelli laga nr. 90/1989 um aðför, laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu  og vörslusviptinga á grundvelli samningsskilmála, í þeim tilvikum þar sem óvissa kann að vera til staðar um ætluð vanskil.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum