Hoppa yfir valmynd
3. apríl 2012

Endurreisn fyrirtækja að mestu lokið um næstu áramót

Skip á siglingu
Skip á siglingu

Aukin hreyfing komst á fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja í bankakerfinu á síðastliðnu ári, segir í nýrri skýrslu Samkeppniseftirlitsins, Endurreisn fyrirtækja 2012 – Aflaklær eða uppvakningar?
Í skýrslunni kemur fram að endurskipulagingu fjölmargra stærri fyrirtækja sé lokið og gengið hafi verið frá sölu í mörgum tilvikum. „Með sama áframhaldi má reikna með að þessum aðgerðum verði að mestu lokið um næstu áramót,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra.

Að mati Samkeppniseftirlitsins dró úr ráðandi áhrifum bankanna í stærri fyrirtækjum í fyrra.  Þannig er talið að bankarnir hafi verið í ráðandi stöðu í 27 prósent fyrirtækja í byrjun þessa árs samanborið við 46 prósent í byrjun árs 2011. Minnkandi áhrif bankanna skýrast meðal annars af sölu á 20 fyrirtækjum en einnig því að þau hafa verið endurskipulögð með þeim hætti að telja verður að kröfuhafar hafi ekki lengur ítök í rekstri þeirra.
„Þarna hafa ítök bankanna minnkað mjög verulega eða úr tæpum helmingi niður í um fjórðung á einu ári. Í upphafi árs 2009 voru milli 60 og 70 prósent af þessum fyrirtækjum í raun og veru komin upp á náð sinna lánardrottna. Þetta er því mjög mikil framför ef við miðum við þann tímapunkt,“ segir Steingrímur.

Eigið fé eykst

Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins er varað við neikvæðum áhrifum skuldsetningar sem enn er mikil meðal íslenskra fyrirtækja. Mjög skuldsett fyrirtæki kunni að ákveða verð á vöru eða þjónustu í samræmi við slæma skuldastöðu sína eða leita leiða til að forðast samkeppni til að geta haldið uppi háu verði á vörum eða þjónustu. Samkeppniseftirlitið varar einnig við því að bankar fjármagni yfirtöku nýrra aðila á fyrirtækjum að umtalsverðu leyti því slíkt auki hættu á eignabólu.

Samkeppniseftirlitið telur að þær aðstæður, sem mikil skuldsetning skapar, ógni ekki aðeins hagsmunum neytenda heldur kunni hún að leiða til stöðnunar til lengri tíma. Fram kemur engu að síður að eiginfjárhlutfall fyrirtækja hafi hækkað úr 22 prósentum í 31 prósent að jafnaði árið 2011 eða um nærfellt 50 prósent. Eigið fé fyrirtækja er þó mun minna hér á landi en almennt gerist í Evrópu.

„Vissulega eru mörg fyrirtækjanna enn skuldug þrátt fyrir þetta. En það var fróðlegt að heyra það mat bankanna á málþingi í vikunni að flestum þeirra vegni – ef eitthvað – ívið betur en menn reiknuðu með. Ef við fengjum nú svipaðar upplýsingar úr Beinu brautinni – skuldaúrvinnslu lítilla og meðalstórra fyrirtækja, sem er ágæt ástæða til að ætla, þá er að verða heilmikil framför í atvinnulífinu hvað þetta varðar. Það gefur aftur vonir um meiri hagvöxt og nýráðningar. Æ stærri hluti atvinnulífsins er með þessu móti að komast á eðlilegt ról,“ segir Steingrímur.

Minni inngrip stjórnvalda en menn hugðu 

Til þess er tekið í skýrslu Samkeppniseftirlitsins að í kjölfar hrunsins hafi sú leið orðið ofan á að fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja hafi fyrst og fremst átt sér stað með samningum milli kröfuhafa og skuldara án aðkomu stjórnvalda. Stjórnvöld hafi hins vegar tryggt samræmi og eftirlit upp að ákveðnu marki. „Bein inngrip stjórnvalda í endurskipulagningu banka á fyrirtækjum hafa verið lítil og mun minni en margir hugðu við hrunið,“ segir í skýrslunni.
Um þetta segir Steingrímur: „Sem betur fer kom ekki til þess að stofna þyrfti eignaumsýslufélag til þess að taka yfir rekstur fyrirtækja. Þetta lýtur samræmdum reglum og fylgst er með því að þeim sé framfylgt. Í það heila eru forsvarsmenn fyrirtækja og banka á því að þetta hafi gengið nokkuð vel og að fylgt hefði verið réttri aðferðarfræði. Að styðja út í lífið öll rekstrarhæf félög í stað þess að ganga að þeim og gera þau gjaldþrota í stórum stíl. Það hefði reynst okkur gífurlega kostnaðarsamt. Það hefði leitt til miklu meiri uppsagna og atvinnuleysis. Ég er því ekki í neinum vafa um að rétt leið var valin. Árangurinn er að skila sér og það má gera sér vonir um að ef vel gengur út þetta ár verðum við að mestu komin með hreint borð hvað varðar rekstur og endurskipulagningu fyrirtækja í landinu.“

Meiri varkárni en áður

Samkeppniseftirlitið telur að umrædd samningaleið kröfuhafa og skuldara sé athyglisverð, en hvergi hafi skuldir fyrirtækja verið jafn miklar eftir banka- og gengishrun og hér á landi. „Samkeppniseftirlitið telur að þessi leið samninga um endurskipulagningu sé æskilegri fyrir samkeppnina en inngrip ríksins í formi yfirtöku eigna eða ábyrgða.“

Samkeppniseftirlitið telur víst að bankarekstur hér á landi verði með öðrum hætti en fyrir hrun þegar vinnu við fjárhagslega endurskipulagningu verður að mestu lokið. Ætla megi að bankarnir verði varkárari en á uppgangstímum fyrir hrun, ákvarðanataka verði hægari, veðkröfur stífari, skjalagerð vandaðri og eftirlit með frammistöðu lántaka strangara og dýrara. Af þessu geti leitt traustara áhættumat og bætt viðskiptasiðferði þótt aðgangur nýrra keppinauta á markaði geti orðið erfiðari í leiðinni.

Í kjölfar bankahrunsins þurftu 60 prósent fyrirtækja á fjárhagslegri endurskipulagningu að halda. Samkeppniseftirlitið athugaði afdrif 120 fyrirtækja í þessum efnum. Stærstur hluti þeirra hefur verið í fjárhagslegri endurskipulagningu í bönkunum án þess að hafa verið tekin yfir. Hluti þeirra hefur verið tekinn yfir af bönkunum en innan við 10 prósent hafa orðið gjaldþrota eða leitað nauðasamninga.

Samkeppnislög og björgunarstarf

Samkeppniseftirlitið segir skiljanlegt að stjórnendum vel rekinna fyrirtækja, sem hafi sýnt aðgæslu og ráðdeildarsemi í rekstri, gremjist að verða vitni að því að bankar afskrifi skuldir keppinauta sem sýnt hafi minni gát. „Varðandi slík sanngirnissjóðarmið verður að hafa í huga að brýnir samfélagslegir hagsmunir eru fólgnir í því að brugðist sé hratt og með fullnægjandi hætti við skuldavanda fyrirtækja sem eru rekstrarhæf. Það er neytendum og atvinnulífinu almennt til hagsbóta að bankar afskrifi eða minnki skuldir rekstrarhæfa fyrirtækja. Beiting samkeppnislaga á ekki að vinna gegn því,“ segir í skýrslunni.

Í skýrslunni er staldrað sérstaklega við það að enn sé uppi sú staða að bankar geti þurft að endurskipuleggja og laga skuldir að greiðslugetu rekstrarhæfra fyrirtækja því ella geti afleiðingar mikillar skuldsetningar orðið skaðvænlegar fyrir samkeppnina og neytendur.

Skýrsluna Endurreisn fyrirtækja 2012 – aflaklær eða uppvakningar? er að finna í heild sinni á vef Samkeppniseftirlitsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum