Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2012

Yfirveðsettum heimilum fækkar um nær helming

Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, segir niðurstöður Seðlabanka Íslands um skuldastöðu heimila gefa skýr skilaboð. „Þær undirstrika meðal annars hversu dýr og óskilvirk aðgerð almenn skuldaniðurfærsla er. Seðlabankinn áætlar að almenn niðurfærsla skulda um 20 prósent kosti um 260 milljarða króna en stærstur hluti hennar myndi renna til tekjuhæstu hópanna í samfélaginu og þeirra sem ekki eru í greiðsluvanda. Þetta hefur legið fyrir allan tímann. Þess í stað var gripið til almennra aðgerða með 110 prósenta leiðinni til að losa um yfirveðsetningu og liðka fyrir á húsnæðismarkaði. Um leið var ákveðin sértæk vaxtaleiðrétting sem allir fengu. Áætlaðar vaxtabætur á þessu ári eru 17 til 18 milljarðar króna og þær ná mjög vel til þeirra sem á þurfa að halda. Um þetta var pólitísk samstaða og þetta tvennt var ætlað sem almenn úrræði.“
„Ég tel nú mikilvægast að leysa úr vanda þeirra sem eru í greiðsluvanda og þá fyrst og fremst þeirra sem eru bæði í greiðslu- og skuldavanda eins og Seðlabankinn mælir með. Þar verður sérstaklega að horfa til fjölskyldna með börn á framfæri  sem og til tekjulágra einstaklinga. Frekari úrræði þurfa því að mæta þessum hópum betur en gert er í dag.  Auk þess þurfum við að horfa til þess sístækkandi hóps sem er á leigumarkaði og þeirra sem eru með litla sem enga greiðslugetu,“ segir Guðbjartur.

Barnafjölskyldur og tekjulágir einstaklingar

Rannsókn sérfræðinga Seðlabanka Íslands er gagnlegt framlag til umræðunnar um fjárhagsstöðu heimilanna. Byggt er á framreikningi gagna sem taka til áranna 2007 til 2009. Í gagnagrunninum eru ítarlegar upplýsingar um hvert einstakt lán heimila og upplýsingar um tekjur, fjölskyldugerð  og aldur lántakenda. Hagfræðingar bankans reikuðu gögnin fram til desember 2010 á grundvelli upplýsinga um þróun launa, verðlags, gengis, skattabreytinga ofl.
Áherslan í rannsókninni liggur á að greina greiðsluvanda fólks. Fólk er talið í greiðsluvanda ef  ráðstöfunartekjur duga ekki fyrir framfærslu samkvæmt viðmiði Umboðsmanns skuldara (með 60 prósenta  álagi) og greiðslubyrði af lánum. Hagfræðingar bankans telja að í desember 2010 hafi um 20 prósent skuldara verið í greiðsluvanda samanborið við 27 prósent haustið 2009.  Niðurstöður sýna að greiðsluvandinn er í meira mæli bundinn við tekjulægri fjölskyldur og barnafjölskyldur. Rétt er að benda á að greining Seðlabankans tekur ekki tillit til breytinga á vaxtabótum sem gildi tóku í fyrra. Hún horfir einnig framhjá áhrifum 110 prósenta leiðarinnar svonefndu. Einnig er ástæða til að minna á að kaupmáttur launa jókst um 2,6 prósent frá 2010  til 2011 og kaupmáttur lægstu launa jókst enn meir eða um 8 til 10 prósent. 

11.500 heimili ekki lengur yfirveðsett

Athugun Ríkisskattstjóra fyrir stjórnvöld sýnir að skuldir heimila lækkuðu um 3-4 prósent  frá 2010 til 2011 eða um 9 prósent að raunvirði. Lækkunin er meiri meðal ungs fólks en þeirra sem eldri eru.  Ennfremur sýnir athugunin að yfirveðsettum heimilum hefur fækkað úr  25.876 í 14.412 eða sem nemur tæplega 11.500 heimilum.
Í rannsókn Seðlabankans er leitast við að meta áhrif ýmissa aðgerða til að draga úr greiðsluvanda fólks. Niðurstaðan er mjög skýr: lítill árgangur næst með almennum aðgerðum. Rannsóknin sýnir að almenn skuldaniðurfærsla er dýr og kemur einungis að litlu leyti til móts við  þá sem eru í greiðsluvanda.
Þessar niðurstöður koma ekki á óvart, þar sem þær komu skýrt fram í fyrri rannsókn Seðlabankans en einnig í skýrslu sérfræðingahóps á vegum stjórnvalda síðla hausts 2010. Þessar skýrslur voru mótandi um þá stefnu sem ríkisstjórnin tók m.a. með stuðningi stjórnarandstöðunnar.
Í þessu sambandi er rétt að taka fram að 110 prósenta leiðinni var ekki ætlað sérstaklega að taka á greiðsluvandanum en viðurkenna varð þann vanda sem yfirveðsett heimili glímdu  við. 
Skuldavandi gerir viðskipti með fasteignir erfið, veldur átthagafjötrun, getur leitt til vanskila vegna skorts á greiðsluvilja og frekara verðfalls á fasteignamarkaði. Þetta voru rökin fyrir því að stjórnvöld lögðu til 110 prósenta leiðina með fjármálastofnunum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum