Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2012

Athugasemdir vegna umfjöllunar um veiðigjöld og stjórn fiskveiða

Þorskur
Þorskur

Vegna umfjöllunar Deloitte og Íslandsbanka vill sjávarútvegsráðuneytið vekja athygli á eftirtöldum atriðum sem varða frumvörp um stjórn fiskveiða og veiðigjöld:

  1. Deloitte virðist ganga út frá þeirri meginforsendu að útgerðaraðilar eigi kvótann og eigi þar af leiðandi líka allan hagnað af nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar án tillit til þess hve mikið þeir hafa lagt fram. Taka veiðigjalds sé því skattlagning hagnaðar en ekki greiðsla fyrir afnot af auðlindinni. Með því reikna þeir sig upp í himinhá skatthlutföll. Hið eðlilega væri að líta á veiðigjöldin sem endurgreiðslu á kostnaði og leigu fyrir heimild til nýtingar á eign sem ekki tilheyrir útgerðinni.
  2. Deloitte gengur út frá því að „hagnaður“ í útgerð sé tilkominn fyrir tilstilli útgerðarinnar einnar og því sé hann „eign“ hennar. Vissulega hefur orðið mikil hagræðing í útgerð og fiskvinnslu á Íslandi og fyrirtæki í þeirri starfsemi staðið sig vel. Það breytir þó ekki því að rentan, sem nú er orðin stór hluti hagnaðar í útgerð, er m.a. tilkomin vegna aðgerða stjórnvalda, þ.e. ákvarðana um að takmarka veiðarnar, tryggja sjálfbæra nýtingu og stýra aðgangi að verðmætri en takmarkaðri auðlind í sameign þjóðarinnar. Án slíkra aðgerða væri líklega lélegur arður af fiskveiðum hér á landi. Til samans gera aðgerðir stjórnvalda og auðlindin sjálf útgerðinni mögulegt að vaxa og dafna með því að laga sig að breyttum aðstæðum, draga úr sóknarkostnaði og hagræða með öðrum hætti.
  3. Fram hjá því verður ekki litið að afkoma sjávarútvegs og ekki síst umframarðurinn er að hluta háður ytri aðstæðum, einkum raungengi gjaldmiðilsins og verði fyrir fiskiafurðir. Þetta er sérstaklega áberandi nú síðustu fáu árin. Á meðan almenningur verður að taka á sig byrðar vegna lækkunar krónunnar er því öfugt farið með útgerð og fiskvinnslu. Tekjur í þeim geira aukast stórlega án þess að það verði rakið til breytinga á starfseminni.
  4.  Í því sem Deloitte hefur látið frá sér kemur lítið fram á hverju niðurstöður þeirra eru byggðar. Ljóst er þó að ýmsar forsendur eru hæpnar. Meðal þess sem benda má á er að áhrif veiðigjalda á tekjuskattsgreiðslur, þ.e. væntanleg lækkun þeirra, er ekki metin en hún ætti til lengri tíma litið að vera 20% af veiðigjaldinu.
  5. Eitt álitamálið sem hefur afgerandi áhrif á meðhöndlun Deloitte er meðferð þeirra á skuldum og reiknuðum vöxtum. Deloitte telur til skulda útgerðar og reiknar vexti af öllum skuldum hvernig svo sem þær eru til komnar. Tekjurnar sem notaðar eru í samanburðinum eru hins vegar eingöngu af fiskveiðum og fiskvinnslu. Misræmi er í þessu efni. Skuldir þær sem Deloitte reiknar vexti af eru um og yfir 400 mia. kr. á síðustu árum. Á sama tíma er stofnverð rekstrarfjármuna í veiðum og vinnslu, uppreiknað til verðlags um 320 mia. kr. Það þýðir að Deloitte ætlar útgerðinni að bera vaxtagreiðslur af hærri skuldum en sem nemur öllum rekstrafjármunum útgerðarinnar.
  6. Sum útgerðarfyrirtæki hafa á undanförnum árum lagt fé í óskylda starfsemi, m.a. með hlutabréfakaupum. Um tíma var slíkt eignarhald talsverður hluti af bókfærðum eignum útgerðarfélaga sbr. fyrri skýrslu Deloitte. Þessar eignir hafa minnkað mikið, væntanlega að einhverju leyti verið afskrifaðar þótt skuldirnar sitji eftir í bókum fyrirtækjanna. Óeðlilegt er að vaxtakostnaður af  þessum viðskiptum sé notaður til að reikna niður arðsemi af  útgerð sem slíkri. Ekki er ljóst hvort fyrirtækin hafa tekjur af þessum fjárfestingum. Sé svo eru þær ekki reiknaðar með í tekjugreiningu Hagstofunnar þótt Deloitte noti kostnaðinn til frádráttar.
  7. Deloitte hefur talið útreikninga í veiðigjaldsfrumvarpinu um afskriftir og fjárfestingu gallaða. Í gagnrýni þeirra kemur fram að ekki sé gert ráð fyrir afskriftum og nýfjárfestingum í útreikningi á veiðigjaldi. Þetta er rangt eins og sést í fylgiskjali með frumvarpinu.  Í fylgiskjali frumvarpsins er þessi útreikningur útskýrður. Þar kemur fram að við mat á auðlindarentu þarf að finna þann kostnað sem nýtingunni fylgir. Kostnaður skiptist í ýmsan rekstrarkostnað, s.s. laun og annan breytilegan kostnað. Hins vegar er um að ræða kostnað af fjármagni. Í útreikningum á auðlindarentu í fylgiskjölum frumvarpsins er reiknaður kostnaður af heildarfjármagni (hvort sem það er eigið fé eða lánsfé) dreginn frá framlegð rekstrarins (EBITDA). Er það fjármagn fundið með því að meta til verðs alla rekstrarfjármuni fyrirtækisins. Þessir rekstrarfjármunir eru á uppreiknuðu stofnvirði, þ.e. fyrir afskriftir. Þetta er kölluð árgreiðsluaðferð. Hagstofa Íslands hefur um langt árabil notað 6% ávöxtunarkröfu við mat sitt á kostnaði á heildarfjármagni í sjávarútvegi. Í veiðigjaldsfrumvarpinu er notast við hærri ávöxtunarkröfu, 8% í veiðum og 10% í vinnslu. Það eru því nokkuð rýmri hlutföll og kemur til lækkunar á útreikningi veiðigjalds. Með þessari aðferð er því tekið tillit til heildarfjárfestinga vegna þeirra rekstrarfjármuna sem eru bundnir í greininni.
  8. Umfjöllun Íslandsbanka um flokk 2 í frumvarpi um stjórn fiskveiða er ruglingsleg og virðist sumpart byggð á misskilningi. Skerðing í þorski, ýsu, ufsa og steinbít er sú sama og á yfirstandandi fiskveiðiári. Um langt árabil hefur hluta aflaheimilda í þessum tegundum verið varið til hliðarráðstafana, svo sem byggðkvóta, línuvílnunar, rækju- og skelbóta og nú síðustu árin til strandveiða. Það er því misskilningur hjá Íslandsbanka að verið sé að auka skerðingu í þessum fjórum bolfisktegundum.

Að lokum er rétt að ítreka að sjávarútvegsráðuneytið fagnar allri málefnalegri og uppbyggilegri umræðu um málefni sjávarútvegsins, afkomu greinarinnar og framtíð hennar. Vonir eru bundnar við að þau frumvörp sem liggja fyrir Alþingi geti orðið grundvöllur meiri sátta um starfsskilyrði og umgjörð sjávarútvegsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum