Hoppa yfir valmynd
10. maí 2012

Atvinnuþátttaka meiri en í öðrum Evrópulöndum

Hlutfall fólks á vinnualdri sem er í launaðri vinnu
Hlutfall fólks á vinnualdri sem er í launaðri vinnu

Um síðustu áramót var atvinnustigið á Íslandi hið hæsta í allri Evrópu samkvæmt samanburði Eurostat.

Meðfylgjandi mynd sýnir þann hluta fólks á vinnualdri sem er í launuðum störfum í 34 löndum Evrópu, en hún er fengin úr nýrri skýrslu Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands um áhrif fjármálahrunsins á lífskjör þjóðarinnar. Þar segir meðal annars: „Þrátt fyrir að atvinnustig Íslands hafi lækkað um hátt í 5 prósentustig er Ísland enn í efsta sæti á seinni hluta ársins 2011. Svisslendingar, Norðmenn, Svíar, Hollendingar og Danir koma þar á eftir. Þetta er auðvitað mjög góður árangur á Íslandi og hjálpar fjölskyldunum að komast í gegnum kreppuna.“

Hátt atvinnustig eykur líkur á að tvær fyrirvinnur séu á hverju heimili. Það eitt og sér mildar kjaraskerðingaráhrifin markvert því líkur eru ekki miklar á því að fyrirvinnur missi vinnu samtímis á sama heimili. Á það er reyndar bent í skýrslunni að þetta ráði nokkru um aðlögunargetu heimila í alvarlegu kreppuástandi.

Hæsta atvinnustig í Evrópu um síðustu áramót – hlutfall fólks á vinnualdri sem er í launaðri vinnu

Hlutfall fólks á vinnualdri sem er í launaðri vinnu

Á myndinni sést að hæst er hlutfall vinnandi fólks á Íslandi eða tæp 80 prósent. Innan ESB  eru að jafnaði um 65 prósent fólks á vinnualdri í launavinnu. (Heimild: Þjóðmálastofnun Háskóla Íslands – Umfang kreppunnar og afkoma ólíkra tekjuhópa, apríl 2012).

Enn dregur úr atvinnuleysi

Fyrstu þrjá mánuði þessa árs fjölgaði störfum um 1.300 og atvinnulausum fækkaði um 1.000 miðað við sama tímabil í fyrra.  Þótt vel þokist í rétta átt er atvinnuleysi enn of mikið eða um 7 prósent. Allt bendir þó til þess að úr því dragi á næstu mánuðum. Skilyrði fyrir slíkri þróun eru orðin all góð innanlands þótt verðbólguskot hafi vissulega sett strik í reikninginn og gjaldeyrishöft séu enn óleystur vandi.

Atvinnuleysi hefur aukist verulega á Spáni, í Grikklandi, Portúgal og á Írlandi undanfarin misseri. Í febrúar síðastliðnum var atvinnuleysi tæp 24 pósent á Spáni, 21 prósent í Grikklandi og um 15 prósent í Portúgal og á Írlandi. Á sama tíma hefur tekist að draga úr atvinnuleysi hér á landi sem og í Lettlandi sem líkt og Ísland varð fyrir miklum búsifjum í fjármálakreppunni.Þegar horft er til þess að enn dregur úr atvinnuleysi og samanburðurinn við aðrar þjóðir er metinn er ekki annað að sjá en Íslendingar megi vel við una. Atvinnustig og atvinnuleysi er minni vandi á Íslandi en í flestum öðrum vestrænum ríkjum þrátt fyrir fjármálahrunið eins og bent er á í skýrslu Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands.

Hvað hefur verið gert?

Ríkisstjórnin hefur beitt ýmsum mildandi aðgerðum sem skila sér bæði beint og óbeint til einstaklinga og heimila. Nefna má nokkur verkefni:

Ríkisstjórnin samþykkti fyrir ári að öllum umsækjendum um nám í framhaldsskóla að 25 ára aldri, sem uppfylla tiltekin skilyrði, yrði tryggð skólavist. Einnig yrðu sköpuð ný námstækifæri fyrir allt að 1.000 atvinnuleitendur frá og með síðastliðnu hausti og næstu tvö skólaár þaðan í frá. Áætluð útgjöld ríkissjóðs og Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna átaksins nema tæpum 7 milljörðum króna til ársins 2014.

Átakið „Allir vinna“ hefur verið framlengt út þetta ár.  Á undanförnum árum hefur það skapað hundruð starfa í byggingartengdum iðnaði. Undanfarin tvö ár hefur  endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu á byggingarstað numið tæpum 8 milljörðum króna.

Aðgerðir í þágu langtímaatvinnulausra undir hvatningarorðunum „Til vinnu“ miða að því að tryggja allt að 1.500 atvinnuleitendum störf eða starfstengd úrræði. Sveitarfélög og aðilar vinnumarkaðarins standa að átakinu ásamt ríkisstjórninni.

Atvinnuleysistryggingasjóður og ríkissjóður hafa sameinast um að skapa 900 störf í sumar fyrir námsmenn, líkt og undanfarin sumur. Atvinnuleysistryggingasjóður mun leggja tæpar 280 milljónir króna til sumarstarfa fyrir námsmenn gegn 100 milljón króna mótframlagi ríkissjóðs. Gert er ráð fyrir að hægt verði að skapa um 900 störf  í sumar með þessu móti.

Loks má nefna átak til eflingar vetrarferðaþjónustu en það er samstarfsverkefni ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja sem heldur áfram út næsta ár. Áætlaður heildarkostnaður er 1,8 milljarðar króna en þar af aflar ríkið 900 milljóna króna. Það er mál manna að þetta verkefni hafi tekist mjög vel og  skapað hundruð nýrra starfa.

Hagvöxturinn

Ekkert af þessu sem hér er talið breytir því að eitt helsta viðfangsefni ríkisstjórnarinnar er að skapa þann langþráða stöðugleika sem atvinnulífið þarf á að halda til þess að geta boðið öllum vinnandi höndum störf við hæfi.

En þrátt fyrir allt er hagvöxtur meiri en ætla mætti og var reyndar með því hæsta sem mældist í Evrópu í fyrra. Nýjasta hagvaxtarspáin er frá greiningardeild Arionbanka, sem spáir meiri vexti en Hagstofa Íslands og Seðlabankinn gera.  Spá sína byggir greiningardeildin einkum á væntingum um aukna neyslu þegar gengislánadómum verður framfylgt og umtalsverðar fjárhæðir taka að skila sér aftur til heimilanna.

Spá um hagvöxt:     

2012     Arion 2,9%,  Hagstofa  2,6%, Seðlabanki 2,3%

2013      Arion 3,9%,  Hagstofa  2,5%, Seðlabanki 2,3%

2014     Arion 3,5%,  Hagstofa  2,8%, Seðlabanki 2,5%

Eins og ráða má af þessu er gert ráð fyrir vexti en ekki samdrætti á næstu tveimur til þremur árum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum