Hoppa yfir valmynd
30. maí 2012

Helstu hagvísar benda í rétta átt

Gluggar á Alþingishúsinu
Gluggar á Alþingishúsinu

„Við höfum gengið í gegnum erfiða tíma en við erum hægt og bítandi og jafnt og þétt að sigrast á þeim og eftirleikurinn verður auðveldur borið saman við það sem að baki er,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra í almennum stjórnmálaumræðum á Alþingi í gær.
Steingrímur sagði að allir helstu hagvísar bentu í rétta átt; hagvöxtur væri nálægt 3% tvö ár í röð og horfur næstu árin ágætar. Atvinnuleysi væri auk þess þremur prósentustigum lægra en það var þegar það var verst. Loks væru fjárfestingar meiri nú en áður innan atvinnuveganna. „Þær ásamt aukinni útflutningsstarfsemi leggja mest til vaxtar landsframleiðslunnar, öfugt við það sem svartsýnisspámenn sögðu hér í þessum sölum þegar þeir hættu að geta neitað því lengur að bati væri hafinn. En þá sögðu menn hér í hálft ár: Já, en það er tímabundið vegna þess að það er bara einkaneyslubóla sem drífur hagvöxtinn. Hvað kemur nú í ljós? Nei, það er öfugt. Það er útflutningsstarfsemin og það eru auknar fjárfestingar sem eru í fyrsta og öðru sæti þess sem drífa áfram hagvöxtinn. Einkaneyslan kemur í þriðja sæti. Þannig að allt hefur gengið eftir og allt hefur það reynst rangt, sem betur fer, sem þeir svartsýnu héldu hér fram.“

Aukið lánshæfi kemur öðrum til góða

Oddný G. Harðardóttir, fjármálaráðherra, sagði í umræðunum að árangur af aðhaldssömum ríkissrekstri léti ekki á sér standa. Betra mat á lánshæfi gæfi tilefni til að sækjast eftir góðum kjörum á lánamarkaði. Orðrétt sagði Oddný: „Ríkissjóður er smátt og smátt að öðlast traust á alþjóðamörkuðum og til marks um endurheimt traust er að á síðasta ári gaf ríkissjóður út eins milljarðs dollara skuldabréf til fimm ára og í síðasta mánuði annað eins til 10 ára á ásættanlegum kjörum. Ríkissjóður hefur því mikilvæga hlutverki að gegna að ryðja brautina fyrir íslensk fyrirtæki sem þurfa á erlendu lánsfé að halda og síðasta skuldabréfaútboð var stórt skref í þeirri vegferð. Því var það einstaklega ánægjulegt að fá þær fréttir að Orkuveita Reykjavíkur hafi náð samningum við lánardrottna sína um lengingu lána, en fyrirtækið átti að greiða háar afborganir á næsta ári og hefði það sett umtalsverðan þrýsting á gjaldeyrisjöfnuð landsins. Þessar ánægjulegu fréttir eru vísbending um það sem koma skal og á þá staðreynd bentu greiningaraðilar í liðinni viku.“

Fjölbreyttar stoðir atvinnulífs

Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, gerði fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar meðal annars að umtalsefni í stjórnmálaumræðunum á Alþingi. Hún sagði að sá lærdómur sem draga mætti af hruninu væri meðal annars sá að byggja þurfi atvinnulífið á fjölbreyttum stoðum. Þannig yrði það síður viðkvæmt fyrir ytri áföllum og sveiflum. „Út á þetta gengur fjárfestingaáætlunin, sem hér hefur verið rædd, hún byggist á því að efla hið græna hagkerfi, hún byggist á því að efla skapandi greinar og hún byggist á því að efla rannsóknir og tækniþróun hvers konar því að mannvitið eða hugvitið er sú auðlind sem aldrei þrýtur. Við getum rætt mikið um auðlindir í þessum sal og hvernig eigi að virkja þær, en þetta er sú auðlind sem aldrei þrýtur. Hún byggist á öflugu menntakerfi. Með því að virkja þessa auðlind getum við virkjað hér atvinnuuppbyggingu til framtíðar sem mun standa af sér ytri áföll. Með þá hugmyndafræði að leiðarljósi hefur þessi fjárfestingaráætlun nú verið kynnt og ég hef fulla trú á því að hún eigi eftir að ganga eftir.“

Samgöngubætur og fleiri framkvæmdir

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, gat einnig um auknar fjárfestingar í umræðunum og sagði: „Nú þegar sést til sólar á efnahagshimninum er það ánægjuefni að geta sett aukna fjármuni í framkvæmdir. Það er mikið gleðiefni eftir að finna fyrir samstöðu Vestfirðinga og Austfirðinga um flýtingu jarðganga að geta orðið við þeirri ósk. Samgöngur skipta okkur grundvallarmáli og eru hinar dreifðu byggðir eðli máls samkvæmt háðari samgöngubótum en þéttbýlið. En á sama tíma ráðumst við í stórátak til að efla almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Þessar framkvæmdir og aðrar, nýtt fangelsi sem sorgleg dæmi sanna að löngu er kominn tími bil að verði reist, munu skapa mörgu fólki störf.“

Ögmundur hóf hins vegar mál sitt á því að fjalla um aðildarviðræðurnar við ESB. Hann sagði að fæstir hefðu séð fyrir hremmingarnar í Evrópu og nú stefndi í að aðildarviðræðurnar teygðu sig yfir í nýtt kjörtímabil. Síðan sagði Ögmundur: „Ég er ekki í hópi þeirra sem mælast til þess að við hlaupumst frá þessu verki, síður en svo, en við eigum að sammælast um að knýja fram niðurstöðu fyrr en síðar. Á nýju kjörtímabili endurnýjast öll umboð í stjórnvöldum og þjóðin á rétt á aðkomu að þessu máli á beinan og lýðræðislegan hátt áður en það gerist og helst vel áður en það gerist. Annars óskum við Evrópusambandinu alls góðs. Evrópa er í vanda og evran er í vanda.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum