Hoppa yfir valmynd
5. júní 2012

Er tilefni til að binda skipin nú?

Framlegð sjávarútvegsins
Framlegð sjávarútvegsins

„Það er auðvitað alltaf gott að við tölum saman. Og við eigum að meðhöndla þessi mál svona;  sem rökræðu og skoðanaskipti en ekki boxkeppni eða eitthvað sem ræðst í krafti og auðs og peninga- eða valdastöðu í þjóðfélaginu,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í upphafi máls síns á fundi sem forsvarsmenn Brims hf. boðuðu til í dag um frumvörp um veiðigjald og breytingar á stjórn fiskveiða.

Steingrímur sagði markmiðið vera að þróa aðferðir til að finna sanngjarnar leiðir takast á við það að skila í góðum árum viðbótarrentunni til eiganda auðlindarinnar, þjóðarinnar. Hann sagði að búið væri að taka mið af mörgum góðum ábendingum og umsögnum til að bæta frumvörpin. „Það er mikill misskilningur að þær hafi ekki verið teknar alvarlega og skoðaðar og það sem mönnum hefur fundist vera málefnalegt og vel rökstutt hefur verið tekið til greina,“ sagði Steingrímur og bætti við að allar breytingar til þessa hafa verið útgerðinni til hagsbóta.

Steingrímur fjallaði um það markmið laganna að taka af tvímæli um það að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameiginleg og ævarandi eign íslensku þjóðarinnar. „[A]uðlindin tilheyrir okkur sem samfélagi, sem þjóð. Hún er hluti af tilveru okkar og grundvelli í landinu. Þetta er nánast sama niðurstaða og varð að lokum í Noregi. Auðlindin, fiskstofnarnir, villtir fiskstofnar, eru hvorki ríkiseign né einkaeign. En þeir tilheyra okkur sameiginlega og þeir eiga að gera það um aldur og ævi. Við eigum að passa upp á þá og þá getur enginn nema ríkið fyrir hönd þjóðarinnar á hverjum tíma farið með málið, veitt leyfi, ráðstafað heimildunum og ákveðið rammann utan um það. Og það sem menn fá er ekki eignarréttur, hvorki beinn né óbeinn heldur afnotaréttur af þessari sameiginlegu auðlind og sá afnotaréttur myndar aldrei eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði yfir auðlindinni því þá væru hin markmiðin farin fyrir borð.“

Veiðigjöldin

Frumvarp um veiðigjöld gerir annars vegar ráð fyrir að allir greiði  kr.9,50 í grunngjald fyrir hvert þorskígildiskíló.

„Hinsvegar er um að ræða sérstakt veiðigjald sem verði þannig útbúið að það fangi umfram fjármunamyndun í greininni í árum þegar hún er umtalsverð, en skilji að sjálfsögðu eftir hjá greininni nægjanlaga fjármunamyndun til þess að eiga fyrir góðri ávöxtun af öllu því fé sem bundið er í rekstrinum... Um það snýst þá umræða: hvar liggja hin hóflegu mörk í því?“

Steingrímur vék orðum að veiðigjaldi og því hvort hækkun þess kæmi við kjör sjómanna við skiptingu aflaverðmætanna.  „Auðvitað er þetta kaka, að sjálfsögðu. En það er ekki réttmætt hjá útgerðinni að stilla þessu þannig upp að hún þurfi að seilast í vasa sjómanna. [...] Það er ekki neitt í aðferðarfræðinni sem kallar á það. Því það er þannig að hver einasta króna sem er greidd í laun til sjómanna og fiskverkafólks er frádráttarbær rekstrarkostnaður áður en stofninn verður til sem er andlag auðlindagjaldsins. Og þá er það framlegðin sem eftir stendur og spurningin hvað er þá nauðsynlegt eða hóflegt að reikna sem ávöxtun á verðmæti alls stofnkostnaðar, uppreiknaðs, og fjármuna sem bundnir eru í greininni.“

Steingrímur gat þess að mikið góðæri hefði verið í sjávarútvegi undanfarin fjögur ár.  EBITDA – framlegð hefur farið úr 33 milljörðum króna árið 2007 en var 75 milljarðar á síðasta ári. Áætlun sýnir að hún verði enn meiri á þessu ári eða 78 milljarðar króna.  „Heildarskuldirnar hafa lækkað að því er áætla má miðað við lokastöðu á þessu ári úr 564 í 390 milljarða króna. Það er stórkostlegt hvað sjávarútvegurinn hefur getað greitt niður af skuldum. Og bankarnir segjast lítið hafa afskrifað hjá sjávarútveginum. [...]  Eigið fé hefur farið úr því að vera neikvætt yfir í það sem við áætlum að vera jákvætt um 160 milljarða króna í lok þessa árs. Þetta er stórkostlegt. Þetta er gleðilegt. Þetta kemur sér geysilega vel, en um leið segir það okkur það að íslenskur sjávarútvegur er ekki lengur á vonarvöl. Hann er ekki að fara fram af neinni bjargbrún þótt hann leggi núna aðeins meira af mörkum. Og minnumst þess að það er ekki án fórna. Það eru aðrir sem taka það á sig að útflutnings- og samkeppnisgreinarnar búa við svona góð skilyrði. Hver einasti maður í þessum sal gerir það í gegn um kaupmátt launa sinna gagnvart innfluttri vöru. Og hefur gert það í gegn um hækkun á lánum og öðru slíku sem gengisfallið hafði í för með sér. Þannig að þetta snýst líka að einhverju leyti um jafnræði og sanngirni í þessum efnum. – Fer allt á hausinn? Er ástæða til að binda skipin í þessari blíðu og þegar aflabrögðin eru góð. Þetta er framlegðin í íslenskum sjávarútvegi.“

Framlegð sjávarútvegsins

Á fundinum sýndi Steingrímur meðfylgjandi mynd af framlegðinni (EBITDA) frá árinu 2001 til 2011 og áætlaða framlegð allt þetta ár sem er 78 milljarðar króna. Um þetta sagði Steingrímur:

„Við tökum 15 milljarða af því í veiðigjöld. Þá eru eftir 63 milljarðar í fjármunamyndun í greininni. Ef sjávarútvegurinn ræður ekki við það, hvernig lifði hann þá af  árið 2002, 2003, 2004, 2005, 2006, 2007 og 2008? Því það verður samt skilin eftir meiri fjármunamyndun en var á öllum þessum árum. Og ívið meiri en á besta árinu litið lengra til baka eða árið 2001. Af hverju bundu menn ekki skipin árið 2004? Hvað var að þá? Er ástæða til að gera það núna? [...] Þetta veiðigjald, jafn hóflegt og það er orðið, skilur eftir fjármunamyndun í greininni sem er langt yfir meðaltali síðustu tíu ára.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum