Hoppa yfir valmynd
24. október 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Dagskrá félagsmálaráðherra á kvennafrídeginum

Í tilefni af kvennafrídeginum í dag, 24. október, er dagskrá félagsmálaráðherra þétt skipuð. Vinnudagurinn hefst á viðtölum í ráðuneytinu þar sem ráðherra hittir meðal annars fulltrúa frjálsra félagasamtaka. Að því búnu heimsækir hún Stígamót og heldur þaðan til að flytja opnunarávarp á ráðstefnu í Keili á Reykjanesi sem ber yfirskriftina „Hvaðan kemur hræðslan við jafnrétti?“. Ráðstefnan er haldin á vegum Háskóla Íslands í samstarfi við símenntunarmiðstöðvar, atvinnuþróunarfélög og tengslanet kvenna á landsbyggðinni og sent er út frá ráðstefnunni til annarra landshluta. Að því búnu mun ráðherra ásamt forsætisráðherra vera við afhendingu á fimm styrkjum úr Jafnréttissjóði og kynningu á niðurstöðum og framgangi þeirra áhugaverðu verkefna sem hlutu styrk úr sjóðnum á síðastliðnu ári. Félagsmálaráðherra afhendir Jafnréttisviðurkenninguna árið 2007 síðdegis og lýkur kvennafrídeginum með því að ávarpa fund undir yfirskriftinni „Okkar hjartans mál“ sem haldinn er á vegum Samfylkingarfélagsins í Reykjavík.

Félagsmálaráðherra hvetur konur til að vera meðvitaðar um stöðu sína og standa saman við að koma á jafnrétti kvenna og karla. „Þau baráttuorð sem hljómuðu í útvarpi og kvenna á meðal 24. október 1975 eiga enn við í dag. Þessi dagur er í mínum huga afar mikilvægur, minnir okkur á hvar við stöndum í jafnréttismálum og hvetur okkur til þess að ræða hvert við viljum stefna í framtíðinni. Nýjar upplýsingar frá Hagstofu Íslands sýna að konur eru nú í meirihluta þeirra sem afla sér framhaldsmenntunar og ég vil sjá þessa staðreynd endurspeglast á öllum sviðum þjóðlífsins. Við þurfum að fá að njóta krafta bæði kvenna og karla í öllum geirum og meta framlag allra að verðleikum hvers og eins en ekki eftir kyni. Ég finn að margir eru reiðubúnir að leggja hönd á plóg og hlakka til að takast á við þetta mikilvæga verkefni“, segir Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra.

 

Tenging frá vef ráðuneytisinsFrétt forsætisráðuneytis um afhendingu úr Jafnréttissjóði



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum