Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Félagasamtök styrkt um 80 milljónir króna

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndHeilbrigðisráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur veitt tæpar 80 milljónir króna í styrki til félagasamtaka til að styðja við starfsemi þeirra á sviði heilbrigðisþjónustu. Styrkirnir eru veittir félögum sem vinna mikilvægt starf, hvert á sínu sviði, með því að veita einstaklingum eða hópum stuðning, fræðslu og ráðgjöf. Að þessu sinni var einkum horft til þess að styðja við verkefni sem tengjast endurhæfingu og langvinnum verkjum.

Styrkir til félagasamtaka eru veittir árlega af safnliðum fjárlaga. Styrkirnir eru auglýstir til umsóknar og fer þriggja manna starfshópur yfir umsóknirnar sem berast, metur styrkhæfi þeirra og gerir tillögu til ráðherra um úthlutun þeirra. Að þessu sinni voru styrkir veittir 29 félagasamtökum og námu styrkupphæðir á bilinu 300.000 krónum til 6,0 milljónum króna.

Þrjú félög hlutu 6 milljónir króna hvert

Hæstu styrkina hlutu að þessu sinni Gigtarfélag Íslands til að sinna forvörnum, fræðslu og stuðningi við fólk með gigtarsjúkdóma eða annan stoðkerfisvanda, SÍBS til forvarna og fræðslu á sviði lífsstílstengdra sjúkdóma og Rauði krossinn á Íslandi vegna skaðaminnkunarverkefna RKÍ sem rekin eru í Reykjavík (Frú Ragnheiður) og á Akureyri (Ungfrú Ragnheiður) og hafa þann tilgang að ná til jaðarsettra hópa í samfélaginu eins og einstaklinga sem nota vímuefni um æð og bjóða þeim skaðaminnkandi þjónustu.

Eins og jafnan áður voru umsóknirnar fjölbreyttar sem sýnir að með styrkjunum er stutt við fræðslu og ráðgjöf til ólíkra hópa. Frjáls félagasamtök sinna daglega afar mikilvægu starfi í þágu samfélagsins. Styrkirnir sem veittir eru í senn viðurkenning á því starfi og fjárframlag til að styðja við þá mikilvægu starfsemi sem frjáls félagasamtök sinna í þágu heilbrigðisþjónustunnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum