Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Rannsókn og vöktun hafin á minkum

Minkur - myndSindri Gíslason

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Róbert A. Stefánsson, forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands, hafa skrifað undir samning um rannsóknir og vöktun Náttúrustofu Vesturlands á minkum. Markmið samningsins er að afla og vinna úr vísindalegum gögnum um mink í náttúru landsins, sem meðal annars má nýta til að styðja við bætt skipulag og framkvæmd minkaveiða.

Náttúrustofa Vesturlands mun á næstunni leggja fram vöktunaráætlun fyrir minkastofninn, í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun. Leitað verður til veiðimanna um samvinnu við framkvæmd vöktunar en þáttur þeirra er lykill að því að verkefnið heppnist vel. Veiðimenn verða beðnir um að senda afla sinn til rannsókna á Náttúrustofunni, þar sem fram fara ýmsar mælingar og sýnataka úr minkunum.

„Minkurinn er mjög ágeng tegund sem er framandi í íslenskri náttúru og hefur valdið skaða á lífríki landsins. Það er mikilvægt að halda tjóni af völdum minksins í lágmarki og það verður best gert í góðri samvinnu veiðimanna, rannsóknaraðila og stjórnvalda,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Samningstíminn er tvö ár og greiðslur til Náttúrustofu Vesturlands nema samtals 12 milljónum króna á tímabilinu.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum