Hoppa yfir valmynd
5. september 2014 Dómsmálaráðuneytið

Innanríkisráðherra setti norræna ráðstefnu um gjafsóknarreglur í einkamálum

Norræn ráðstefna um gjafsóknarreglur í einkamálum á Norðurlöndum er haldin í Reykjavík í dag. Ráðstefnan er á vegum Lagastofnunar Háskóla Íslands í samvinnu við innanríkisráðuneytið og Lögmannafélag Íslands og með styrk frá Norræna ráðherraráðinu og Norræna húsinu.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra setti norræna ráðstefnu um gjafsóknarmál í Norræna húsinu í dag.
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra setti norræna ráðstefnu um gjafsóknarmál í Norræna húsinu í dag.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra setti ráðstefnuna og sagði Norðurlöndin eiga langa hefð fyrir margs konar samvinnu á sviði löggjafar enda væru samfélögin lík og eðlilegt væri að eiga samvinnu um slík mál. Þrátt fyrir það færu löndin á sumum sviðum ólíkar leiðir varðandi gjafsókn og þó að öll ríkin byggju við góðar og árangursríkar reglur á þeim sviðum væri alltaf hægt að leita leiða til umbóta. Ráðherra sagði gjafsókn mikilvæga til að tryggja að réttur borgaranna til réttlætis og aðgangs að dómstólum væri ekki háður efnahag þeirra.

Ráðherra lýsti að lokum  í stuttu máli fyrirkomulagi gjafsóknar í íslensku réttarkerfi og óskaði ráðstefnugestum góðs gengis og árangurs í umfjöllun um efni dagsins.   

Á ráðstefnunni fjalla sérfræðingar frá Danmörku, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð og Íslandi sem vinna við gjafsóknarmál um reglur sem gilda og þau atriði sem reynir mest á. Þá munu lögmenn frá sömu löndum, með mikla reynslu í þessum málaflokki, fjalla um reynslu sína og hvað betur má fara í löggjöf og framkvæmd að þeirra mati.

Einnig verður fjallað um hvort gjafsókn sé veitt öðrum en einstaklingum, hvort gjafsóknarþegar taki í sumum tilvikum þátt í kostnaði, hvort það sé gert að skilyrði og hvort takmörk séu á gjafsóknarkostnaði. Þá er einnig rætt um framtíðarsýn m.a. með tilliti til þess hvort lögð sé áhersla á að spara í þessum málaflokki og hverjar geti verið afleiðingar slíkrar stefnu.

Efni frá ráðstefnunni verður sett á vef Lagastofnunar H.Í.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum