Hoppa yfir valmynd
28. júní 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Ráðherra heimsótti kvikmyndaskóla í Vancouver

Kvikmyndaskólinn í Vancouver er framsækinn kvikmyndaskóli sem er leiðandi á heimsvísu í kvikmynda og sjónvarpsgerð. Skólinn starfar náið með atvinnulífinu í British Columbia en nemendur vinna með hinum ýmsu fyrirtækjum sem tengjast kvikmyndaiðnaði í skólaverkefnum sínum. Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra heimsótti Kvikmyndaskóla Vancouver á ferð sinni í Norður-Ameríku.

 

Skólinn var stofnaður árið 1987 og bíður upp á 15 mismunandi brautir, allt frá leiklist fyrir kvikmyndir og sjónvarp, kvikmyndaframleiðslu, förðun fyrir kvikmyndir og sjónvarp, hljóðhönnun fyrir sjónmiðla ásamt handritsgerð fyrir kvikmyndir, sjónvarp og tölvuleiki.

 

„Það var sérstaklega áhugavert að sjá hversu náið skólinn vinnur með atvinnulífinu og með miklum árangri. Framleiðsla á kvikmyndum og sjónvarpsefni er orðin umfangsmikil atvinnugrein á Íslandi og hefur óbein hagræn áhrif á aðrar greinar atvinnulífsins og verðmætasköpun. Einnig fannst mér spennandi að sjá hversu mikla áherslu skólinn lagði á hreyfimyndir sem og vélmyndir (e. machinima),“ segir Lilja en vélmyndir byggja á samruna kvikmynda og tölvuleikja.

 

Kvikmyndaiðnaðurinn blómstrar í Vancouver en borgin er stundum nefnd Hollywood norðursins. Undanfarin ár hafa stórfyrirtæki á borð við Sony Pictures Imageworks, Industrial Light & Magic (ILM), Animal Logic fært höfuðstöðvar sínar til Vancouver.

 

Líkt og á Íslandi bíður Vancouver upp á endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar en framleiðendur kvikmynda eða sjónvarpsefnis sem tekið er upp í Vancouver eiga kost á endurgreiðslum á allt að 35% af framleiðslukostnaði sem fellur til.  

 

Mikil gróska hefur verið í íslenskri kvikmyndagerð undanfarin ár, ný kvikmyndastefna tók gildi árið 2020 og nýlega var frumvarp menningar- og viðskiptaráðherra, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi samþykkt. Nýju lögin fela í sér að hlutfall endurgreiðslu verður 35% af framleiðslukostnaði sem fellur til við kvikmyndagerð hérlendis.

 

,,Ísland og Kanada eiga margt sameiginlegt og við getum lært mikið af því hvernig Vancouver hefur byggt upp sinn kvikmyndaiðnað með markvissum aðgerðum. Þetta er sama vegferð og ríkisstjórnin vinnur nú að með því að fjölga störfum í hinum skapandi greinum,” segir Lilja Alfreðsdóttir.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum