Hoppa yfir valmynd
11. maí 2007 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Flugskóli Íslands í útrás

Starfsemi Flugskóla Íslands hefur síðustu misserin náð út fyrir landsteinana með því að skólinn hefur sinnt kennslu og þjálfun erlendra flugmanna. Hefur skólinn þannig bæði sinnt verkefnum fyrir erlend flugfélög og fyrir íslensk flugfélög sem ráðið hafa erlenda flugmenn.

Baldvin Birgisson, skólastjóri Flugskólans, rakti á morgunfundi um almannaflug síðastliðinn þriðjudag, hvernig skólinn hefði síðustu misserin víkkað út starfsemina út fyrir landsteinana með flugkennslu í öðrum JAA ríkjum. Sagði hann þessa starfsemi tvímælalaust skapa gjaldeyristekjur og þótt það væri ekki í miklum mæli væri mögulegt að útvíkka þessa starfsemi skólans enn frekar. Baldvin nefndi sem dæmi að skólinn hefði sinnt þjálfun í Washington, Brussel, London, Helsinki, Köln, Toulouse, Amman og Kuala Lumpur.

Meðal annars hefur skólinn tekið upp samvinnu við Lufthansa Flight Training um efni til þjálfunar flugmanna, einkum þá sem lengra eru komnir. Gerður var samningur um kennslugögn, meðal annars hugbúnaðinn Computer Based Training sem hefur að geyma kennslu fyrir allmörg svið: Flugvélategundirnar Boeing 737/747/757/767 og Airbus 300 og 310; veðurfræði, starfrækslu flugvéla að næturlagi, meðhöndlun og flutning á hættulegum varningi, flug yfir Norður-Atlantshafið, afkastagetu og neyðarviðbrögð í farþegaflugi. Þetta efni er einnig notað af öllum íslensku flugfélögunum við þjálfun flugmanna.

Baldvin segir mikilvægt að stuðlað verði að bætt umhverfi fyrir flugþjálfun á Íslandi. Hvetja þurfi íslenska sem erlenda flugnema til að læra hérlendis enda veðurfar og umhverfi á Íslandi að mörgu leyti krefjandi fyrir flugmenn. Einnig þurfi að auka svigrúm með því að efla atvinnuflug á Íslandi og auka framboð á íslenskum flugmönnum. Fram kom í máli Baldvins að á næstunni þurfi íslensk flugfélög að ráða 40 til 60 nýja flugmenn og hætt sé við að erlendir flugmenn, sem nú séu í starfi hjá íslensku flugfélögunum, hverfi til starfa hjá erlendum félögum þar sem víða vanti flugmenn.

Varðandi æfinga- og kennsluflug benti Baldvin á ýmsar takmarkanir sem settar hefðu verið við því á Reykjavíkurflugvelli, Selfossflugvelli og á Keflavíkurflugvelli og sagði flugnemum erfitt að stunda nauðsynlegar æfingar með slíkar takmarkanir. Sagði hann það slæma þróun að leggja áherslu á að kennsluflug flyttist frá Reykjavík og á velli sem væru vanbúnir tækjum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira