Hoppa yfir valmynd
11. maí 2007 Innviðaráðuneytið

Lækkun flutningskostnaðar á Vestfjörðum til athugunar

Á vegum samgönguráðuneytisins er nú unnið að því að kanna hvort lækka megi flutningskostnað svo að Vestfirðingar sitji við sama borð og aðrir landsmenn í því efni. Skýrsla hefur verið unnin á vegum samgönguráðherra þar sem fram koma hugmyndir um hvernig hægt sé að leysa málið. Hugmyndirnar eru nú til meðferðar hjá samgönguráðuneytinu í tengslum við tillögur Vestfjarðarnefndarinnar.

Jafnframt var settur á fót samstarfshópur samgönguráðuneytis og sjávarútvegsklasa Vestfjarða sem hefur leitað leiða til þess að lækka flutningskostnað. Í þeim hópi sitja Elías Jónatansson, formaður, Jóhann Guðmundsson, Einar Valur Kristjánsson, Guðni Einarsson, Jón Örn Pálsson og Signý Sigurðardóttir.

Samgönguráðherra fól Elíasi Jónatanssyni, iðnaðarverkfræðingi í Bolungarvík, og Jóhanni Guðmundssyni, skrifstofustjóra í samgönguráðuneytinu, að skrifa skýrslu í kjölfar umræðu og hugmyndavinnu vegna málsins. Meginniðurstaða þeirra var sú að sunnan- og norðanverðir Vestfirðir búa við mismunun á flutningskostnaði í samanburði við aðra landshluta sem rekja má beint til ófullkominna vega og vegalengdar að næstu útflutningshöfn. Meginhugmynd þeirra er að á ákveðnum leiðum verði landflutningar styrktir fjárhagslega þar til tilteknum vegaframkvæmdum veður lokið, þ.e. vegi um Ísafjarðardjúp, um Arnkötludal og milli Vatnsfjarðar og Bjarkalundar. Einnig komi til greina að niðurgreiða gjald fyrir vöruflutningabíla í Breiðafjarðarferjuna Baldur þar til framkvæmdum lýkur.

Skýrsluhöfundar telja að sjóflutningar séu ekki hagkvæmari en landflutningar enda þurfi magnið að aukast verulega til þess að svo verði. Ef magnið eykst t.d. vegna aukinna framleiðslu á Vestjförðum má draga þá ályktun að sjóflutningar gætu orðið raunhæfur kostur.

Skýrsluna má finna hér.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum