Hoppa yfir valmynd
23. maí 2007 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Samvinna margra aðila þýðingarmikil í umferðaröryggismálum

Finnsk yfirvöld eru duglegust við að fá íbúa til liðs við sig í umferðaröryggisaðgerðum, Danir eru duglegastir við að virkja skólana í þessum efnum og sveitarfélög ættu að nýta hvers kyns áhugahópa til samvinnu við umferðaröryggi.

Frá fundi um umferðaröryggismál í Danmörku.
Frá fundi um umferðaröryggismál í Danmörku.

Þetta er meðal þess sem fram kom á ráðstefnu umferðarráða Norðurlandanna sem haldin var nýverið í Kaupmannahöfn. Þar var meðal annars kynnt niðurstaða könnunar sem fram fór í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð á því hvernig háttað er umferðaröryggisaðgerðum sveitarfélaga. Óskað var eftir upplýsingum frá sveitarfélögum með 30 þúsund eða fleiri íbúa í þessum löndum og fengust svör frá 115 af 180 sem fengu spurningalista sem þýðir 64% svarhlutfall. Svörin eru frá 18 og uppí 46 sveitarfélögum frá hverju landanna fjögurra. Ísland var ekki með þar sem hér eru ekki mörg sveitarfélög með yfir 30 þúsund íbúa.

Danski dómsmálaráðherrann, Lene Espersen, ávarpaði ráðstefnuna í upphafi og lýsti áhyggjum af mikilli fjölgun banaslysa og alvarlegra slysa í Danmörku á fyrstu mánuðum ársins. Alls hafa 144 látist í banaslysum en þeir voru 73 á sama tíma í fyrra. Skýringin væri að sumu leyti aukinn hraði en fleira kæmi til. Hún sagði brýnt að fulltrúar landanna deildu reynslu sinni í umferðaröryggisaðgerðum og nefndi sem dæmi punktakerfi sem hefði gefið góða raun og veitt aðhald en slíkt kerfi er ekki við lýði á öllum Norðurlöndunum. Ráðherrann sagði líka nauðsynlegt að fjalla um umferðarslys í fjölmiðlum og lýsti ánægju sinni með að eitt dagblað landsins hefði tekið hvert banaslys til ítarlegrar umfjöllunar og því fylgt eftir með margs konar umræðu. Þá nefndi hún þá nýjung lögreglunnar að fulltrúar hennar heimsæktu fyrirtæki ef atvinnubílstjórar þess gerðust brotlegir og slíkt væri áhrifamikil forvörn.

Sigurður Helgason, verkefnastjóri hjá Umferðarstofu, sem sat fundinn, telur að staða umferðaröryggismála sé allgóð á Íslandi miðað við nágrannalöndin enda séu vandamálin víðast hvar svipuð og aðgerðir hliðstæðar. Löndin leggi öll áherslu á víðtækar áætlanir um öryggisaðgerðir sem lagðar eru í samvinnu allra aðila sem sinna umferðarmálum. Vandaðar áætlanir, eftirlit og aðgerðir ásamt auknu fylgi almenningsálitsins við bætta hegðun gefi von um góðan árangur í fækkun slysa.

Lækkun ökuhraða algengasta aðgerðin

Nokkuð misjafnt er eftir löndunum hversu algengt er að sveitarfélögin hafi lagt eigin umferðaröryggisáætlanir. Þannig hafa nær öll sveitarfélög í Finnlandi og Noregi slíkar áætlanir og flest dönsku sveitarfélaganna. Fjórða hver áætlun er frá því fyrir árið 2000. Í flestum löndum eru slysatölur lagðar til grundvallar aðgerðum en vegir og götur í nágrenni skóla sem þykja ekki örugg hafa einnig forgang. Þá leggja flest löndin áherslu á samvinnu við lögreglu og gjarnan þrjá til fimm aðra aðila.

Sveitarfélög í Danmörku, Noregi og Svíþjóð hafa orðið vör við aukinn áhuga stjórnmálamanna á umferðaröryggismálum en Finnar hafa ekki fundið slíka breytingu í sínum herbúðum. Í Danmörku og Noregi er lögð mikil áhersla á að æðstu yfirvöld umferðarmála samþykki umferðaröryggisáætlanir en minna er um það í hinum löndunum.

Skoðað var í könnuninni hvers konar aðgerðir eru algengastar og kom þá í ljós að hvers kyns ráðstafanir til að lækka hraðann eru alls staðar mest áberandi. Í öðru sæti kemur mat eða kortlagning á aðstæðum og umferðinni til að geta hagað aðgerðum út frá slíkri upplýsingasöfnun. Frá öllum löndunum komu fram þær staðhæfingar að ótvíræður árangur væri af umferðaröryggisaðgerðum, íbúar fyndu fyrir meira öryggi og slysum fækkaði.

Þýðingarmikil atriði sem gefa árangur:

  • Nákvæmt skipulag aðgerða
  • Pólitískur stuðningur
  • Nægilegt fjármagn til að ljúka verkefni
  • Víðtæk samstaða tryggir framgang verkefnis
  • Þátttaka íbúa
  • Sveitarfélög noti umferðaröryggisáætlanir og forgangsröðun við heildarfjárhagsáætlun
  • Meta skal verkefnin og mæla árangur

Lögreglan hvetur til meðferðar

Erling Andersson, lögreglufulltrúi í Skáni í suðurhluta Svíþjóðar, greindi frá því að ölvunarakstur væri vaxandi vandi í landinu. Mikil áhersla væri lögð á eftirlit til að koma í veg fyrir ölvunarakstur. Um fjórðungur þeirra sem látast í umferðarslysum í Svíþjóð eru undir áhrifum áfengis. Hann sagði að í ljósi þess að stór hluti þeirra sem teknir væru fyrir ölvunarakstur væru iðulega áfengissjúklingar hefði lögreglan haft forgöngu um að bjóða þeim meðferðarúrræði. Árangursríkast væri að geta boðið mönnum meðferð strax eftir brot sem þessi, þá væru menn móttækilegastir.

Í Finnlandi er löng reynsla fyrir því að lækka hámarkshraðann á þjóðvegum yfir vetrarmánuðina, frá október til mars. Er hann lækkaður úr 120 km í 100, úr 100 í 80 km og úr 80 í 70. Staðhæfði fulltrúi finnsku lögreglunnar að þessi tilhögun þýddi færri slys þar sem hraðinn lækkaði og árangur væri því tvímælalaust góður.

Hraðakstur, ölvunarakstur og of lítil notkun bílbelta eru aðalástæður banaslysa í Finnlandi og er það sameiginlegt fyrir öll Norðurlöndin að Íslandi meðtöldu.

Finnska lögreglan setti fram umferðaröryggisáætlun fyrir árin 2006 til 2010 í árslok 2005. Stefnt er að því að banaslys, sem nú eru kringum 400 að meðaltali á ári, verði ekki fleiri en 250 á ári í lok tímabilsins sem þýðir 4,7 banaslys á hverja 100 þúsund íbúa. Til ársins 2025 er sett það markmið að banaslysunum hafi fækkað í 100. Grunnmarkmiðin voru sett af stjórnvöldum árið 2001 og lögreglunni falið að leggja fram aðgerðaáætlun. Markmiðin þóttu djörf þar sem allan tíunda áratug síðustu aldar hafði banaslysum ekki fækkað.

Með þessari áætlun stefnir Finnland að sama markmiði og til dæmis Svíþjóð og Noregur. Þar var fjöldi banaslysa árið 2004 á hverja 100 þúsund íbúa 5,3 og 5,7 en 7,2 í Finnlandi og 7,8 á Íslandi. Í Noregi varð enn fækkun banaslysa árið 2005, í 4,7 á hverja 100 þúsund íbúa og því telja Finnar ekki út í hött að stefna að svipuðu markmiði og tekist hefur að ná meðal þeirra landa sem best standa sig.

Meðal aðgerða sem unnið verður að á næstu árum er að skilja að akstursstefnur á þjóðvegum, lækka ökuhraða á ákveðnum svæðum, einkanlega í þéttbýli, fá samþykkt lög sem gera alkóhóllása að skilyrði í nýjum vöruflutningabílum og rútum frá árinu 2010 og í framhaldinu í nýjum fólksbílum og til að ná árangri sem fyrst í að draga úr ölvunarakstri verður efnt til herferða og fræðslu í skólum. Þá er ráðgert að auka mjög eftirlit með aksturs- og hvíldartíma atvinnubílstjóra svo og almennt eftirlit með ökuhraða. Eftir hvert ár verður síðan tekin saman skýrsla um árangur og hann borinn saman við markmiðin og skilgreint er hvaða aðilar sjá um að mæla árangur á hvaða sviði.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira