Hoppa yfir valmynd
9. desember 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 602/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 9. desember 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 602/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21070011

 

Kæra […]

og barna hennar

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 1. júlí 2021 kærði […], fd. […], ríkisborgari Nígeríu (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 25. júní 2021, um að afturkalla dvalarleyfi kæranda og barna hennar, […], fd. […], ríkisborgara Nígeríu (hér eftir A), […], fd. […], ríkisborgara Nígeríu (hér eftir B) og C, fd. […], ríkisborgara Nígeríu, á grundvelli 59. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt því að synja kæranda og börnum hennar um framlengingu dvalarleyfis á grundvelli 74. gr. sömu laga.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.      Málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 18. nóvember 2018. Með í för var dóttir kæranda, sem fæddist á Ítalíu, en jafnframt var kærandi barnshafandi og eignaðist hún son sinn þann 26. desember 2018 hér á landi. Með ákvörðunum, dags. 8. mars 2019, hafnaði Útlendingastofnun því að taka umsókn kæranda og barna hennar um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar hér á landi og ákvað að þau skyldu endursend til Ítalíu þar sem kærandi hafði hlotið viðbótarvernd þar í landi og dvalarleyfi með gildistíma til 14. september 2020. Kærandi kærði ákvarðanir Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála þann 12. mars 2019. Með úrskurði nefndarinnar, dags. 11. júlí 2019, voru ákvarðanir Útlendingastofnunar felldar úr gildi og lagt var fyrir stofnunina að taka umsókn dvalarleyfishafa og barna hennar til efnismeðferðar. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. apríl 2020, var kæranda og börnum hennar veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga með vísan til erfiðra félagslegra aðstæðna kæranda í heimaríki sem einstæð móðir.

Þann 25. september 2020 sótti einstaklingur að nafni […] (hér eftir M) um alþjóðlega vernd á Íslandi. Til stuðnings umsókn sinni um alþjóðlega vernd lagði M fram hjúskaparvottorð sitt og kæranda, sem og fæðingarvottorð A. Jafnframt lagði hann fram ljósmyndir sem sýndu tengsl hans við kæranda og börn hennar. Í ljósi þess sendi Útlendingastofnun tilkynningu þann 18. janúar 2021 um hugsanlega afturköllun á dvalarleyfi kæranda og barna hennar. Með komu barnsföður og eiginmanns kæranda til Íslands kom til skoðunar hvort afturkalla ætti dvalarleyfi kæranda og barna hennar. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. hinn 8. febrúar 2021 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 25. júní 2021, afturkallaði Útlendingastofnun dvalarleyfi kæranda og barna hennar ásamt því að synja þeim um framlengingu dvalarleyfis. Var ofangreind ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 1. júlí 2021. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 15. júlí 2021. Í greinargerð óskaði kærandi eftir að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Kærandi mætti til viðtals hjá kærunefnd hinn 14. október 2021, ásamt talsmanni sínum og túlki. Þá bárust kærunefnd viðbótargögn frá kæranda hinn 20. október 2021. Hinn 14. október 2021 óskaði kærunefnd eftir því að fram færi DNA rannsókn til að staðfesta tengsl M við börn kæranda. Niðurstöður rannsóknarinnar bárust kærunefnd hinn 8. desember 2021 og staðfestu að M væri faðir beggja barna kæranda. Þá eignaðist kærandi þriðja barn þeirra hinn […].

III.    Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er fjallað um ástæðu umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi. Í ákvörðuninni kemur fram að kærandi hafi komið til landsins þann 18. nóvember 2018 og sótt um alþjóðlega vernd sama dag. Í för með henni hafi verið dóttir hennar, sem hafi fæðst á Ítalíu, en jafnframt hafi kærandi verið barnshafandi og eignaðist hún son sinn þann 28. desember 2018 hér á landi. Fram kemur í ákvörðun Útlendingastofnunar að við mat sitt hafi stofnunin horft til þess að kærandi væri einstæð móðir með tvö ung börn. Auk þess hafi kærandi greint frá því að hafa ekki séð föður dóttur sinnar í um þrjú og hálft ár og að hún vissi ekki hvar hann væri niðurkominn. Þá hafi hún greint frá því að eiga ekkert stuðningsnet í Nígeríu þar sem foreldrar hennar og systir væru öll látin. Útlendingastofnun hafi talið að kærandi, sem einstæð móðir, myndi eiga erfitt uppdráttar í heimaríki sínu þegar kæmi að því að sjá sér og börnum sínum farboða. Var kæranda og börnum hennar því veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Þann 25. september 2020 hafi eiginmaður og barnsfaðir kæranda, M, sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi. Í ljósi þess hafi Útlendingastofnun sent tilkynningu, þann 18. janúar 2021, um hugsanlega afturköllun á dvalarleyfi kæranda og barna hennar þar sem grundvöllur dvalarleyfisins hafi verið sá að kærandi væri einstæð móðir. Með vísan til 12. gr. laga um útlendinga og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi kærandi verið boðuð í viðtal þann 8. febrúar 2021 hjá Útlendingastofnun þar sem henni hafi verið gefinn kostur á að leggja fram gögn eða andmæli vegna hugsanlegrar afturköllunar á dvalarleyfi hennar og barna hennar. Í viðtalinu hafi kærandi verið spurð út í samband sitt við eiginmann sinn og barnsföður. Kærandi hafi greint frá því að eiginmaður hennar hafi horfið í júní 2018 þegar hún hafi verið barnshafandi af yngra barni þeirra. Kærandi greindi frá því að hún hafi farið að heiman einn dag í júní og þegar hún hafi komið aftur heim hafi eiginmaður hennar verið horfinn en hann hafi ekki skilið eftir nein skilaboð um hvert hann hafi farið. Kærandi greindi jafnframt frá því að hann hafi skilið eftir fötin sín, skófatnað og símann sinn. Þegar eiginmaður hennar hafi ekki snúið til baka hafi kærandi spurt vini hans hvort þeir vissu hvar hann væri niðurkominn. Vinir hans hafi ekki viljað svara henni. Kærandi kvað eiginmann sinn hafa horfið um það leyti sem dvalarleyfi hennar á Ítalíu hafi runnið út. Kærandi hafi fyrst heyrt aftur í eiginmanni sínum þegar hann hafi komið til Íslands. Kærandi hafi greint frá því að þau byggju ekki saman en að M hafi komið í heimsókn í desember 2020 og varið jólunum með þeim. Eiginmaður kæranda kæmi reglulega að heimsækja börnin sín. Kærandi hafi þekkt M síðan árið 2010 og að hann hafi verið fyrsti maðurinn sem hún hafi kynnst á Ítalíu. Kærandi kvað hann aldrei hafa beitt sig ofbeldi heldur væri hann umhyggjusamur og hefði einungis yfirgefið hana og börnin vegna illrar nauðsynjar. M hafi greint henni frá því að hafa fengið símtal frá lögfræðingi sínum daginn sem hann hafi horfið sem hafi greint M frá því að hann þyrfti að fara í fangelsi. Hann hafi ekki viljað fara í fangelsi og því hafi hann flúið sama dag. Kærandi kvað þau elska hvort annað og að hann væri besti maður sem hún hefði kynnst.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að með vísan til komu eiginmanns og barnsföður kæranda hingað til lands í september 2020 sé ekki lengur hægt að líta á kæranda sem einstæða móður enda hafi hún sjálf lýst vilja sínum til að vera með eiginmanni sínum og barnsföður. Þá var það einnig mat Útlendingastofnunar að kærandi uppfylli ekki lengur þau skilyrði sem upphaflega lágu til grundvallar veitingu dvalarleyfis hennar og barna hennar. Taldi Útlendingastofnun að það hefði haft verulega þýðingu við ákvörðun á umsókn kæranda og barna hennar hefði M verið með þeim hér á landi er umsóknir þeirra voru til meðferðar. Í ljósi framangreinds var það niðurstaða Útlendingastofnunar að afturkalla skyldi dvalarleyfi kæranda og barna hennar sem þeim var veitt þann 28. apríl 2020 enda væru forsendur fyrir leyfisveitingunni brostnar. Þá var kæranda jafnframt synjað um endurnýjun dvalarleyfis samkvæmt 5. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

IV.    Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda til kærunefndar er ekki fjallað um málavexti heldur er vísað til fyrirliggjandi gagna málsins hjá nefndinni, auk hjálagðs fylgiskjals um lögskilnað kæranda við M.

Kærandi byggir á því að skilyrði afturköllunar samkvæmt 59. gr. laga um útlendinga séu ekki uppfyllt í máli þessu. Þótt eiginmaður kæranda, M, hafi komið til Íslands hafi þau ekki verið saman og þau standi í skilnaðarferli. Þann 1. júlí 2021 hafi kærandi pantað tíma hjá sýslumanni vegna lögskilnaðar við eiginmann sinn. Með vísan til þess krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka málið til nýrrar meðferðar m.t.t. þeirra aðstæðna sem uppi séu í málinu.

V.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Afturköllun dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 59. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við 74. gr. frumvarps til laga um útlendinga kemur fram að í samræmi við ákvæði alþjóðlegra skuldbindinga og almennra laga sé lagt til að tekið sé sérstakt tillit til barna, hvort sem um er að ræða fylgdarlaus börn eða önnur börn. Í því ljósi og með hliðsjón af meginreglunni um að það sem barni er fyrir bestu skuli hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess, sbr. jafnframt 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga nr. 80/2016, telur kærunefnd að við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. 74. gr. laganna séu fyrir hendi skuli taka sérstakt tillit til þess ef um barn er að ræða og skuli það sem er barni fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.

Samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laga um útlendinga er Útlendingastofnun heimilt að afturkalla dvalarleyfi og ótímabundið dvalarleyfi ef útlendingur hefur við umsókn, gegn betri vitund, veitt rangar upplýsingar eða leynt atvikum sem hefðu getað haft verulega þýðingu við leyfisveitinguna eða ekki eru lengur uppfyllt skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis eða ótímabundins dvalarleyfis eða það leiðir að öðru leyti af almennum stjórnsýslureglum.

Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. apríl 2020, komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að kærandi hafi ekki verið þolandi mansals í heimaríki, þá hefði kærandi jafnframt ekki leitt líkur að því að hún hefði tilefni til ástæðuríks ótta við ofsóknir af hálfu stjórnvalda eða annarra aðila í heimaríki hennar. Var umsókn kæranda og barna hennar um alþjóðlega vernd hér á landi því synjað. Með ákvörðuninni var kæranda og börnum hennar veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Var það mat Útlendingastofnunar að gögn um heimaríki kæranda bentu til þess að staða einstæðra mæðra sem ættu lítið sem ekkert stuðningsnet í heimaríki væri slíkt að hún myndi eiga erfitt uppdráttar í heimaríki sínu þegar kæmi að því að sjá sér og börnum sínum farboða og þar með tryggja framfærslu þeirra. Yrði að túlka allan vafa kæranda og börnum hennar í hag og féllst því á að kærandi og börn hennar hefðu ríka þörf fyrir vernd hér á landi.

Í hinni kærðu ákvörðun, dags. 25. júní 2021, kemur fram að eiginmaður og barnsfaðir kæranda hafi komið hingað til lands í september 2020. Í ljósi þess taldi Útlendingastofnun að forsendur fyrir dvalarleyfi kæranda og barna hennar væru brostnar þar sem ekki væri hægt að líta á kæranda sem einstæða móður lengur. Þann 6. ágúst 2021 barst kærunefnd tölvubréf frá kæranda, ásamt fylgiskjali, þar sem fram kemur að hún og M hafi fengið leyfi til lögskilnaðar. Telur kærandi, í ljósi þess að hún sé nú skilin við eiginmann sinn og barnsföður, að forsendur ákvörðunar Útlendingastofnunar um afturköllun á dvalarleyfi hennar og barna þeirra séu brostnar. Með úrskurði kærunefndar nr. 601/2021 staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar dags. 25. júní 2021, um að synja eiginmanni kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd hinn 14. október 2021 ásamt talsmanni sínum og túlki. Þar var kærandi m.a. spurð út í samband sitt við M og skilnað þeirra. Í viðtalinu kom fram að kærandi væri barnshafandi af sínu þriðja barni og kvað hún M vera föður barnsins. Í viðtalinu var kærandi beðin um að lýsa aðdraganda brotthvarfs M og för hennar í kjölfarið til Íslands. Kærandi kvað M hafa látið sig hverfa í júlí 2018 á meðan hún hafi verið á spítala á Ítalíu. Þegar hún hafi komið aftur heim hafi hann verið farinn. Þá hafi hann hafi skilið eigur sínar eftir. Kærandi kvað vin M hafa sagt sér að M hafi ætlað að fara frá Ítalíu og að hann gæti hafa farið til Íslands. Kærandi kvað ástæðu þess að M hafi yfirgefið hana vera þá að meðlimir gengis hafi mætt heim til þeirra á Ítalíu og ógnað þeim. Þá kvaðst kærandi ekki hafa séð eða heyrt frá M aftur fyrr en þau hafi hist á mótmælum hér á landi undir lok ársins 2020.

Við mat sitt horfir kærunefnd til allra gagna málsins, m.a. framburðar kæranda í viðtölum hjá Útlendingastofnun og hjá kærunefnd. Auk þess horfir kærunefnd til þess hvort frásögn hennar samrýmist frásögn M um sömu atvik. Að mati kærunefndar er framburður kæranda töluvert á reiki varðandi brotthvarf M á Ítalíu og komu hans hingað til lands. Í umsókn kæranda um alþjóðlega vernd sem hún lagði fram við komu sína til landsins þann 18. nóvember 2018 kvaðst kærandi vera komin til Íslands til að leita að M. Kærandi kvaðst þar ekki hafa séð M í um tvö ár eða um það leyti sem dóttir þeirra, A, hafi fæðst en samkvæmt gögnum málsins fæddist hún […]. Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun kvað kærandi M hins vegar hafa horfið í júní 2018. Þá kvaðst hún, í viðtali hjá kærunefnd, síðast hafa séð M í júlí 2018. Að mati kærunefndar hefur ekkert komið fram í málinu sem skýrir framangreint misræmi í framburði kæranda. Við meðferð málsins var kærandi jafnframt tvísaga um ástæðu ferðar sinnar til Íslands. Kærandi kvaðst annars vegar hafa komið til Íslands því að vinir M hafi sagt henni að hann gæti verið hér á land. Hins vegar kvaðst hún ekki hafa vitað hvert M hafi farið þar sem vinir M hafi ekki viljað segja henni hvar hann væri. Að mati kærunefndar dregur framangreint misræmi úr trúverðugleika frásagnar kæranda.

Auk framangreinds var kærandi, í viðtali hjá kærunefnd, spurð út í skilnað sinn við M og ástæður hans. Kærandi kvað ástæðuna hafa verið þá að M hafi farið frá henni í júlí 2018 og þegar hann hafi komið til Íslands hafi hlutirnir breyst. Hún hafi ekki boðið honum að koma til Íslands, auk þess sem hún hafi ekki vitað af áætlunum hans um að koma hingað til lands. Í viðtalinu var frásögn kæranda í viðtali hjá Útlendingastofnun hinn 8. febrúar 2021 borin undir hana þar sem kærandi kvað M vera besta mann sem hún hefði kynnst og að þau elski hvort annað. Jafnframt var kærandi beðin um að skýra nánar frá því hvað hafi breyst frá því viðtalið hjá Útlendingastofnun fór fram. Kærandi kvað þá ekkert hafa komið upp á en að hún vilji einfaldlega vera ein. Í ljósi frásagnar kæranda um aðstæður skilnaðar hennar við M var kærandi beðin um að skýra frá því hvers vegna hún ætti þá von á barni með M. Kærandi kvað þá þungunina ekki hafa verið skipulagða en að hún hafi ákveðið að eiga barnið. Þegar kærandi var spurð út í samkomulag hennar við M varðandi umsjá barna þeirra kvað hún þau ekki hafa gert slíkt samkomulag. M sé þó náinn börnunum og hann komi reglulega að heimsækja þau. Kærandi kvaðst ekki hindra umgengni M við börnin heldur vilji hún að M taki þátt í uppeldi barnanna.

Líkt og áður greinir horfir kærunefnd til þess hvort frásögn kæranda beri saman við frásögn M um sömu atvik. Kæranda og M bar m.a. ekki saman um aðdraganda endurfundar þeirra á Íslandi. Bæði kváðust þau ekki hafa heyrt í hvoru öðru frá því að M hafi látið sig hverfa árið 2018 og þar til þau hafi hist hér á landi undir lok ársins 2020. Í viðtali hjá kærunefnd kvaðst M hafa hitt mann að nafni […] í Þýskalandi og greint honum frá vandamálum sem hann stæði frammi fyrir á Ítalíu vegna lögbrots sem hann hafi verið dæmdur fyrir. Jafnframt hafi M sýnt manninum ljósmynd af kæranda og börnum þeirra. M kvað manninn þá hafa greint sér frá því að hafa séð kæranda og börn þeirra á Íslandi. M hafi spurt manninn fjórum sinnum hvort svo væri og maðurinn hafi svarað því að hann væri viss um að hafa séð þau hér á landi. M hafi því í kjölfarið komið hingað til lands til að sameinast fjölskyldu sinni. Framburður M stangast á við fyrri framburð hans í viðtali hjá Útlendingastofnun en þar kvaðst hann ekki hafa vitað að kærandi væri á Íslandi. Hann kvaðst hafa séð hana óvænt þegar hann hafi verið staddur á mótmælum hér á landi.

Að mati kærunefndar eru frásagnir kæranda og M á talsverðu reiki og í mótsögn við hvora aðra. Annars vegar hafa þau bæði greint frá því við meðferð málanna að hafa heyrt að maki sinn væri á Íslandi en hins vegar hafa þau jafnframt greint frá því að hafa ekki vitað hvar maki sinn væri niðurkominn. Að mati kærunefndar verður að teljast ólíklegt og ótrúverðugt að kærandi og M hafi óvænt hist hér á landi án þess að hafa átt í samskiptum áður hvað það varðar. Þá má ráða að mati nefndarinnar, með vísan til frásagnar kæranda og M í viðtölum hjá bæði Útlendingastofnun og kærunefnd, að kærandi og M hafi ekki hugsað sér að skilja við hvort annað fyrr en dvalarleyfi kæranda var afturkallað þar sem kærandi gæti ekki lengur talist vera einstæð móðir með komu M til landsins. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun og kærunefnd sýndu bæði kærandi og M vilja til þess að ala börnin sín upp saman. M kvaðst vilja taka þátt í uppeldi þeirra og vera til staðar fyrir þau og kvaðst kærandi jafnframt vilja það.

Þar sem framangreint misræmi sem hér hefur verið rakið heggur nærri kjarna máls kæranda er það mat kærunefndar að frásögn hennar um að M hafi yfirgefið sig og börn þeirra og birst óvænt aftur hér á landi án þess að hafa verið í sambandi við hana og börn þeirra sé ótrúverðug. Jafnframt gat kærandi ekki lýst ástæðum skilnaðar síns eða veitt skýringar á því hvað hafi breyst frá fyrri framburði hennar í viðtali hjá Útlendingastofnun hinn 8. febrúar 2021 þegar hún kvað þau elska hvort annað og að hann væri besti maður sem hún hefði kynnst. Með vísan til frásagnar kæranda og M er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hún muni búa við erfiðar félagslegar aðstæður í heimaríki þar sem hún sé einstæð móðir. Kærunefnd hefur ekki ástæðu til annars en að leggja til grundvallar að kærandi og börn hennar muni njóta stuðnings M í heimaríki. Þá hefur ekkert komið fram sem bendir til annars en að kærandi og M séu vinnufær og fær um að veita börnum sínum farboða.

Að því er varðar almennar aðstæður í heimaríki kæranda hefur kærunefnd meðal annars kynnt sér eftirfarandi skýrslur:

  • 2021 UNHCR Best Interests Procedure Guidelines: Assessing and Determining the Best Interests of the Child (UN High Commissioner for Refugees, maí 2021);
  • Children‘s rights in return policy and practice in Europe (Unicef, janúar 2015);
  • EASO – Country of Origin Information Report – Nigeria – Security Situation (European Asylum Support Office, nóvember 2018);
  • EASO – Country of Origin Information Report – Nigeria – Trafficking in Human Beings (European Asylum Support Office, 26. apríl 2021);
  • Guidelines on International Protection No. 8 (UNHCR, 22. september 2009);
  • Nigeria 2020 Human Rights Report (U.S. Department of State, 30. mars 2021);
  • Position on Refugee Children (European Council on Refugees and Exiles, nóvember 1996);
  • UNHCR Guidelines on Determining the Best Interests of the Child (UNHCR, maí 2008) og
  • World Report 2021 – Nigeria (Human Rights Watch, 13. janúar 2021).

Samkvæmt ákvæði c-liðar 1. mgr. 25. gr. stjórnarskrár Nígeríu öðlast hvert barn, sem fæðist utan Nígeríu, ríkisborgararétt þar í landi við fæðingu ef annað foreldri þess er nígerískur ríkisborgari. Ekki leikur vafi á því að mati kærunefndar að kærandi og M séu nígerískir ríkisborgarar en við málsmeðferð þeirra hér á landi framvísuðu þau nígerískum vegabréfum.

Í viðbótargögnum sem kærandi lagði fram hinn 20. október 2021 kom m.a. fram að kærandi væri barnshafandi og að settur dagur hjá henni væri 17. nóvember 2021. Hinn 10. desember 2021 bárust þær upplýsingar frá kæranda að barn hennar hefði fæðst hinn […]. Samkvæmt heilsufarsögnum glímdi kærandi við […] í byrjun þungunarinnar sem síðan hættu þegar leið á meðgönguna. Að öðru leyti hefur ekkert komið fram sem bendir til annars en að kærandi og börn hennar séu við góða heilsu.

Með vísan til alls framangreinds er það mat kærunefndar að ekki séu lengur uppfyllt skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis kæranda samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laga um útlendinga. Því er heimilt að afturkalla dvalarleyfi kæranda og barna hennar sem þeim var veitt hér á landi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd hefur litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé að veita kæranda og börnum hennar dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til eigi ekki við í máli kæranda og barna hennar. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda og barna hennar þangað.

Frestur til að yfirgefa landið

Samkvæmt framangreindu hafa kærandi og börn hennar ekki dvalarleyfi hér á landi. Kæranda og börnum hennar er því ekki heimil áframhaldandi dvöl hér á landi. Gögn málsins benda ekki til annars en að kærandi og börn hennar séu við góða heilsu. Samkvæmt 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga skal útlendingi að jafnaði veittur 30 daga frestur að hámarki til að yfirgefa landið sjálfviljugur. Þegar það telst nauðsynlegt vegna sanngirnissjónarmiða er heimilt að veita lengri frest en tilgreindur er í 2. mgr., en við mat á því skal hvert tilvik kannað sérstaklega með hliðsjón af aðstæðum útlendings, sbr. 3. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Í ljósi þess að kærandi eignaðist barn hinn […] er það mat kærunefndar að hæfilegur frestur fyrir kæranda og börn hennar til að yfirgefa landið sé 60 dagar, að því gefnu að ekkert komi fram sem gefi til kynna að þau séu ekki ferðafær að mati læknis. Athygli kæranda er vakin á því að ef hún yfirgefur ekki landið innan frestsins kann að vera heimilt að brottvísa henni og börnum hennar, sbr. a-lið 1. mgr. og a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda og barna hennar.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar í málum kæranda og barna hennar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda og börn hennar að hverfa af landi brott. Kæranda og börnum hennar er veittur 60 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljug, að því gefnu að ekkert komi fram sem gefi til kynna að kærandi og væntanlegt barn hennar teljist ekki ferðafær að mati læknis.

The decision of the Directorate of Immigration in the case of the appellant and her children is affirmed. The appellant and her children are requested to leave the country. The appellant and her children have 60 days to leave the country voluntarily, provided that the appellant and her newborn child are considered fit to travel according to a doctor’s assessment.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Sindri M. Stephensen                                                              Þorbjörg I. Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum