Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2006 Félagsmálaráðuneytið

Upplýsingar og samráð

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi á Alþingi um upplýsinga- og samráðsskyldu fyrirtækja gagnvart starfsmönnum þeirra.

Frumvarpi til laga um upplýsingar og samráð innan fyrirtækja er ætlað að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og Evrópuráðsins nr. 2002/14/EB, um almennan ramma um upplýsingamiðlun til launamanna og samráð við þá innan Evrópubandalagsins. Tilskipunin var felld undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 172/2002. Samkvæmt tilskipuninni bar að innleiða efni hennar inn í landsrétt eigi síðar en 23. mars 2005.

Félagsmálaráðuneytið telur að æskilegt hefði verið að tilskipunin hefði verið innleidd með kjarasamningum samtaka aðila vinnumarkaðarins og fól þeim á sínum tíma það verkefni. Í lok árs 2005 þótti fullreynt að aðilarnir næðu saman um efni samninga til innleiðingar á efni tilskipunarinnar og ljóst að ekki gæfist svigrúm til að veita þeim frekari tímafresti enda hafði félagsmálaráðuneytinu borist rökstutt álit (reasoned opinion) frá Eftirlitsstofnun EFTA í nóvember sama ár. Frumvarp þetta var lagt fram á vorþingi en náði ekki fram að ganga og er það því lagt fram óbreytt að nýju.

Frumvarpið fylgir í öllum meginatriðum efni tilskipunarinnar en markmið þess er að tryggja rétt starfsmanna til upplýsinga og samráðs í fyrirtækjum þar sem starfa að jafnaði að minnsta kosti 50 starfsmenn. Þó er gert ráð fyrir að frumvarpið taki gildi í áföngum þannig að fram til 1. mars 2008 takmarkist gildissviðið við fyrirtæki þar sem starfa að jafnaði að minnsta kosti 100 starfsmenn. Enn fremur er gert ráð fyrir að opinberar stofnanir sem hafa með höndum stjórnsýsluverkefni falli utan gildissviðs laganna og er það í samræmi við danskan rétt.

Meginreglur frumvarpsins fjalla um skyldu fyrirtækja til að veita fulltrúum starfsmanna upplýsingar og hafa við þá samráð varðandi tiltekin málefni. Atvinnurekendum ber þannig að veita starfsmönnum upplýsingar í þremur flokkum tilvika. Í fyrsta lagi varðandi þróun í starfsemi og fjárhagsstöðu fyrirtækisins. Í öðru lagi lýtur upplýsingaskyldan að atvinnumálum innan fyrirtækisins. Loks eiga fulltrúar starfsmanna rétt á upplýsingum um ákvarðanir sem líklegt er að leiði til verulegra breytinga á skipulagi vinnunnar eða á ráðningarsamningum starfsmanna. Fer það nokkuð eftir efni þess máls sem er til umfjöllunar hverju sinni hvenær eðlilegt er að upplýsingarnar séu lagðar fram af hálfu atvinnurekandans. Í þeim tilvikum þar sem skylda til samráðs við fulltrúa starfsmanna er fyrir hendi er þó ávallt skilyrði að atvinnurekandinn hagi upplýsingagjöf sinni þannig að fulltrúar starfsmanna hafi raunverulega möguleika til að setja sig inn í málið og taka þátt í því samráði sem gert er ráð fyrir í framhaldinu. Nauðsynlegt er að samráðið fari fram af hálfu atvinnurekandans á viðeigandi stjórnunarstigi fyrirtækisins, þannig að þeir fyrirsvarsmenn fyrirtækisins sem taka þátt í því komi að ákvarðanatöku varðandi það eða þau málefni sem samráðið lýtur að. Gert er ráð fyrir að tilhögun og framkvæmd upplýsingagjafar verði útfærð nánar í kjarasamningum eða eftir atvikum með samkomulagi á milli fulltrúa starfsmanna og atvinnurekanda innan fyrirtækja.

Tenging frá vef ráðuneytisinsFrumvarp til laga um upplýsingar og samráð í fyrirtækjumEfnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira