Hoppa yfir valmynd
6. desember 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 533/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 6. desember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 533/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18090044

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 25. september 2018 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur […], og vera ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. september 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að kæranda verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 17. ágúst 2017. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 24. maí 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 19. september 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 25. september 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 11. október 2018. Þá bárust kærunefnd frekari gögn frá kæranda þann 7. nóvember 2018. Þann 29. nóvember 2018 bárust andmæli kæranda á þýðingu kærunefndar á tilteknum gögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna stjórnmálaskoðana.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga. 

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi kveðst vera fæddur og uppalinn í […] sýslu í […] héraði, í þorpi nefnt […], og tilheyri hann þjóðarbrotinu […] og sé jafnframt […]. Þá styðji kærandi og fjölskylda hans stjórnmálaflokkinn […] og hafi þau kosið flokkinn í þingkosningum í heimaríki kæranda árið […]. Í kjölfar þess að fjölskyldan hafi kosið […] flokkinn hafi þorpsstjóri […], að nafni […], tekið yfir land fjölskyldu kæranda, en þorpsstjórinn sé meðlimur í stjórnmálaflokknum […] sem sé við völd í […]. Kærandi heldur því fram í greinargerð að […], ríkjandi afl í […], sé spilltur stjórnmálaflokkur og meðlimum flokksins sé ekki refsað fyrir glæpi. Fjölskylda kæranda hafi tilkynnt eignarnámið til lögreglu en þá hafi þorpsstjórinn myrt frænda kæranda. Lögreglan hafi neitað að rannsaka morðið á frændanum og þegar þorpsstjórinn hafi komist að því að fjölskylda kæranda hafi tilkynnt málið til lögreglu hafi hann hótað fjölskyldunni lífláti. Mánuði síðar hafi kærandi yfirgefið […] eftir að hann hafi fengið ítrekaðar hótanir frá meðlimum […]. Í greinargerð kæranda kemur fram að hótanirnar hafi einungis beinst að honum en ekki öðrum fjölskyldumeðlimum þar sem kærandi sé eigandi landsins. Kærandi hafi erft landið frá föður sínum sem sé gamall og hjartveikur, en faðir kæranda hafi flúið til annars bæjar í […].

Í kjölfar viðtals kæranda hjá Útlendingastofnun hafi kærandi lagt fram gögn sem sanni eignarhald fjölskyldunnar á landinu. Í gögnunum komi fram nafn föður kæranda, nafn þorpsins, nafn svæðisins og þeir landshlutar sem tilheyri fjölskyldu kæranda. Í kjölfar þess að faðir kæranda hafi aflað þessara gagna hafi honum verið hótað auk þess sem frændi kæranda hafi verið beittur ofbeldi. Þá hafi einstaklingar á vegum […], sem hafi góð tengsl við lögreglu, reynt að bana föður kæranda og hafi hann í kjölfarið flúið bæinn. Faðir kæranda sé því nú á flótta og hafi kærandi ekki náð sambandi við föður sinn í nokkra daga.

Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um aðstæður og stöðu mannréttinda í heimaríki kæranda. Þá er einnig fjallað um stöðu stjórnmálaflokka í […] og spillingu sem fyrirfinnist á öllum stigum stjórnkerfisins. Kærandi vísar til skýrslna sem hann telji styðja mál sitt.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann sæti ofsóknum í heimaríki sínu og grundvallarmannréttindi hans séu ekki tryggð af hálfu stjórnvalda. Kærandi heldur því fram að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem ofsóknir í hans garð megi bæði rekja til aðildar hans að tilteknum þjóðfélagshópi sem og stjórnmálaskoðana, skv. d- og e-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi tilheyri þeim hópi sem kosið hafi gegn stjórnmálaflokki […], en meirihluti þorpsbúa hafi stutt þann flokk. Sá flokkur hafi hlotið sigur í kosningunum […] og í kjölfarið hafi land kæranda verið tekið eignarnámi, frændi kæranda myrtur og kæranda hótað lífláti. Kærandi hafi því ekki átt neinna annarra kosta völ en að flýja heimaríki. Kærandi heldur því fram í greinargerð að yfirvöld í heimaríki hafi hvorki vilja né getu til að veita honum vernd vegna þeirra ofsókna sem hann óttist, en kærandi óttist fyrst og fremst þorpsstjórann í heimaþorpi sínu sem falli undir skilgreiningu a-liðar 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Verði kæranda gert að snúa aftur til heimaríkis telji hann að það brjóti gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Auk þess sem slík ákvörðun brjóti í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár Íslands, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Til vara heldur kærandi því fram í greinargerð að hann uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið taki mið af tilskipun Evrópusambandsins nr. 2004/83/EB um lágmarksskilyrði til að ríkisborgarar þriðju landa eða ríkisfangslausir einstaklingar teljist flóttamenn eða menn sem að öðru leyti þarfnist alþjóðlegrar verndar og um inntak slíkrar verndar. Þá fjallar kærandi um samspil ákvæðisins við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 3. gr. samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Kærandi óttist að verða beittur ofbeldi af hálfu áhrifamikils einstaklings innan […] stjórnmálaflokksins verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Kærandi óttist jafnframt um líf sitt og telji að yfirvöld í […] hafi hvorki vilja né getu til að veita honum vernd. Enn fremur beri heimildir með sér að almennt öryggisástand í […] sé mjög ótryggt og að yfirvöld beiti pyndingum og brjóti á mannréttindum borgaranna. Verði kæranda gert að snúa aftur til heimaríkis eigi hann á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

Til þrautavara gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að lögum komi fram að taka verði mið af svipuðum sjónarmiðum og gert sé við mat á öðrum ákvæðum kaflans s.s. almennra aðstæðna í heimaríki, þ. á m. hvort grundvallarmannréttindi séu nægilega tryggð. Í fyrrgreindum athugasemdum komi fram að með erfiðum félagslegum aðstæðum sé m.a. vísað í að einstaklingur hafi þörf á vernd vegna erfiðra félagslegra aðstæðna í heimaríki. Með almennum aðstæðum sé m.a. vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti þegnum sínum ekki vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Í kjölfar þess að kærandi hafi aflað gagna um eignarhald á umræddu landi hafi meðlimir innan […] ráðist á frænda kæranda jafnframt sem þeir hafi hótað föður hans. Hafi frændi kæranda og faðir hans þurft að flýja til annars bæjar og hafi kærandi misst samband við þá. Í kjölfarið hafi andlegt ástand kæranda hrakað þar sem hann viti ekki hvort þeir séu á lífi og hafi kærandi miklar áhyggjur af þeim. Þá kemur fram í greinargerð að kærandi eigi tíma hjá sálfræðingi þann 17. október 2018. Með hliðsjón af öllu því sem þegar hefur verið rakið telji kærandi ljóst að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og því beri að veita honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Í greinargerð heldur kærandi því fram að Útlendingastofnun hafi ekki uppfyllt rannsóknarskyldu sína skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðun Útlendingastofnunar sé gengið út frá því að kærandi hafi verið meðlimur í […] stjórnmálaflokknum og sé trúverðugleiki kæranda m.a. dreginn í efa þar sem kærandi geti ekki lagt fram flokksskírteini eða önnur gögn sem séu sambærileg. Kærandi bendir á að hann sé ekki meðlimur í flokknum heldur studdi hann einungis flokkinn í kosningunum. Í ákvörðun Útlendingastofnunar sé miðað við að kærandi sé frá bænum […] en líkt og komið hafi fram þá hafi kærandi búið í […] sýslu í bænum […], einum af mörgum tugum smærri bæja innan sýslunnar. Af þessu telur kærandi ljóst að mál hans hafi ekki verið rannsakað til hlítar af Útlendingastofnun.

Að lokum er því mótmælt í greinargerð kæranda að Útlendingastofnun telji að kærandi hafi ekki lagt fram nein gögn sem sýni fram á tengsl hans við þorpsstjórann og að kæranda stafi hætta af honum sem og öðrum meðlimum […] flokksins. Kærandi telur að ekki sé hægt að ætlast til þess að hann sýni fram á þetta með gögnum og minnir á að þrátt fyrir að það sé meginregla lögfræðinnar að sönnunarbyrði hvíli á þeim sem leggi fram kröfu þá sé málum hins vegar öðruvísi farið þegar um sé að ræða umsækjendur um alþjóðlega vernd. Þá sé mati Útlendingastofnunar einnig mótmælt er varðar að kærandi hafi ekki sýnt fram á með fullnægjandi hætti að hann eigi ekki möguleika á að sækjast eftir vernd lögreglunnar í heimaríki. Jafnframt sé því mótmælt að kæranda standi til boða aðstoð eða vernd […] stjórnvalda. Þrátt fyrir að pólitískt landslag hafi breyst frá því kærandi hafi flúið heimaríki þá sé ástandið í […] hið sama. Sömu einstaklingar og áður starfi hjá lögreglu og spilling sé enn mikil. Þann 7. nóvember 2018 barst kærunefndinni staðfesting á komu kæranda í viðtöl til sálfræðings. Í staðfestingunni kemur fram að ekki hafi verið gerð formleg greining á vanda kæranda en að sálfræðingurinn geti staðfest að kærandi sé með mjög mikil og alvarleg einkenni áfallastreitu og þunglyndis.

Þann 27. nóvember 2018 sendi kærunefnd talsmanni kæranda tölvupóst þar sem fram kom hvaða skilning nefndin hefur lagt í þau gögn sem kærandi skilaði inn með greinargerð er snúa að eignarhaldi fjölskyldu kæranda á tiltekinni landspildu í […]. Þann 29. nóvember 2018 barst kærunefnd viðbótargreinargerð kæranda sem innihélt frekari útskýringar á umræddum gögnum. Í greinargerðinni kemur fram að um sé að ræða tiltekið land sem hafi verið skipt milli þriggja bræðra og hafi afi kæranda verið einn af þeim. Faðir kæranda hafi síðar erft landspildu föður síns og er það land til umræðu hér. Í gögnunum um eignarskráninguna kemur fram skráning á upphaflega landinu, sem nú sé skipt í þrennt. Í gögnunum kemur fram að eignarhaldið á hinum tveimur landspildunum, sem séu ekki í eigu fjölskyldu kæranda, hafi verið reglulega breytt. Bræður afa kæranda hafi selt sitt landssvæði og hafi þær landspildur því gengið í kaupum og sölum. Þá heldur kærandi því fram að þýðing kærunefndar sé ekki rétt, þar sem faðir hans hafi ekki erft landið þann 28. mars 2008. Í skjalinu komi hins vegar fram að hluti af landinu, ekki sá hluti sem faðir kæranda á, hafi verið fluttur yfir á einstakling að nafni […] þennan dag. Þar sem um opinber gögn eru að ræða þá sé hægt að fá staðfestingu á eignarhaldinu hjá […].

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað kennivottorði. Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði ekki sannað með fullnægjandi hætti hver hann væri og að leysa yrði úr auðkenni hans á grundvelli trúverðugleikamats. Verður ekki annað séð af ákvörðun Útlendingastofnunar en að stofnunin hafi lagt til grundvallar að kærandi sé ríkisborgari […]. Kærunefnd telur ekkert hafa komið fram í málinu sem gefur tilefni til að draga í efa mat Útlendingastofnunar á þjóðerni kæranda og verður því lagt til grundvallar að hann sé […] ríkisborgari. Að öðru leyti er óljóst hver kærandi sé.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í […] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum: […]

Í frétt The Guardian kemur fram að stjórnmálaumhverfið í […] hafi verið stormasamt síðastliðinn áratug. Þann […] hafi stjórnmálaflokkurinn […] , […], unnið sigur í þingkosningum landsins og í kjölfarið hafi maður að nafni […] verið skipaður forseti landsins. Kosningarnar hafi verið taldar merkilegar fyrir þær sakir að um hafi verið að ræða fyrsta skiptið í sögu […] þar sem lýðræðislega kosin ríkisstjórn sitji út kjörtímabilið og önnur lýðræðislega kjörin stjórn taki svo við eftir næstu kosningar sem var […]. Í frétt Daily Times kemur fram að tímabilið á milli kosninganna marka fyrsta lýðræðislega áratuginn í stjórnmálum í […], þar sem lýðræðislegum umbótum hafi verið komið á og má þar m.a. nefna 18. gr. stjórnarskrárinnar sem hafi afnumið vald forseta landsins til að einhliða leysa upp þingið. Í skýrslu Freedom House kemur fram að í sveitastjórnakosningum árið […] hafi stjórnmálaflokkurinn […] einnig unnið sigur í […] héraði. Í lok árs […] hafi hæstiréttur […] tilkynnt um rannsókn á ásökunum um spillingu sem hafi snúið að forsætisráðherra landsins, […], og fjölskyldu hans. Í […] hafi hæstiréttur […] metið forsætisráðherrann óhæfan til að sitja á þingi sem og að gegna embætti forsætisráðherra vegna ásakana um spillingu. Með þessu sé talið að hæstiréttur landsins hafi sannað sjálfstæði sitt gagnvart framkvæmdavaldinu. Í frétt RÚV kemur fram að kosningabaráttan fyrir þingkosningarnar árið […] hafi einkennst af hryðjuverkum og átökum í […] og liggi hundruð í valnum. Þá hafi leiðtogi […], […], borið sigur úr bítum í þingkosningunum þann […]. Þann […] hafi […] verið kosinn af […] þinginu til að gegna embætti forsætisráðherra. Í frétt Dunya News kemur fram að […] hafi einnig unnið sigur í sveitastjórnakosningunum árið […] í […] héraði.

Í framangreindum gögnum kemur fram að stjórnarskrá ríkisins kveði á um þrískiptingu ríkisvaldsins og líkt og komið hafi fram þá séu stjórnvöld í […] kosin með lýðræðislegum kosningum. Samkvæmt skýrslu Freedom House fyrir árið 2017 hafi […] herinn veruleg áhrif á þjóðaröryggi, utanríkisstefnu og efnahagsstefnu ríkisins. Þá kemur fram í skýrslu EASO frá árinu 2018 að ofbeldisbrotum á grundvelli pólitískra skoðana hafi fækkað mjög frá árinu 2016. Í skýrslunni kemur einnig fram að […] hérað sé talið miðpunktur stjórnmála- og efnahagslegrar starfsemi í […]. Héraðið sé með góða innviði og séu miklir möguleikar í boði hvað varði þróun í héraðinu.Í framangreindum gögnum kemur fram að þrátt fyrir að […] löggjöf banni handahófskenndar handtökur og varðhald jafnframt sem lögin kveði á um rétt til að vefengja lögmæti handtöku fyrir dómi þá sé spilling innan lögreglunnar vandamál í […]. Spilling á lægri stigum lögreglunnar sé algeng og séu dæmi um að lögreglan þiggi mútur. Einstaklingar tilkynni um meinta glæpi eða brot til lögreglunnar með svokallaðri […] skýrslu. […] skýrslan sé fyrsta skrefið við rannsókn sakamáls og sé hún oftast lögð fram af þriðja aðila þó svo að lögreglan hafi heimild til að gera slíka skýrslu sjálf. […] skýrslan veiti lögreglunni heimild til að halda meintum brotamanni í gæsluvarðhaldi í 24 klukkustundir á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Hægt sé að leggja fram slíka skýrslu hjá lögreglumanni, á lögreglustöð og á vefsíðum ákveðinna lögregluembætta í […]. Þá hafi lögreglan í […] sett upp rafrænt kvörtunarkerfi til þess að taka á móti kvörtunum almennra borgara sem telji lögregluna ekki hafa sinnt skyldum sínum. Kvörtunum vegna þess að […] skýrsla hafi ekki verið skráð eigi að svara innan 72 klukkustunda.

Þrátt fyrir að […] lög kveði á um sjálfstætt dómskerfi, réttláta málsmeðferð og að enginn skuli sviptur lífi, eignum eða frelsi án dóms og laga þá hafi dómskerfið verið gagnrýnt fyrir spillingu. Spilling sé innan héraðsdómstóla, þeir séu afkastalitlir og undir þrýstingi frá auðugum og áhrifamiklum einstaklingum einkum á sviði trúar eða stjórnmála. Þá kemur fram að þrátt fyrir að veikleikar séu í réttarkerfinu í […] þá sé spilling refsiverð samkvæmt lögum, en ábyrgðarskrifstofa ríkisins hafi það hlutverk að útrýma spillingu í stjórnkerfum landsins með vitundarvakningu, forvörnum, rannsókn spillingarmála jafnframt sem skrifstofan ákærir í slíkum málum. […] hafi heimild samkvæmt lögum að halda einstaklingum í 15 daga án þess að ákæra og mögulegt sé að framlengja varðhaldið með samþykki dómstóla. Synja megi einstaklingnum um leyfi til að ráðfæra sig við lögmann á meðan á rannsókn standi. Þá sé ekki unnt að greiða tryggingu til að losna úr varðhaldi heldur sé það einungis ákvörðun formanns […] að láta einstakling lausan. […] hafi m.a. verið falið að rannsaka og ákæra þáverandi forsætisráðherra landsins, […], og fjölskyldumeðlimi hans.Í framangreindum skýrslum kemur jafnframt fram að í […] sé starfandi umboðsmaður sem hafi það hlutverk að vernda rétt borgaranna gegn brotum opinberra starfsmanna og koma í veg fyrir spillingu. Umboðsmaðurinn geti tekið til skoðunar öll ætluð brot opinberra starfsmanna sem varða borgara landsins að undanskildum ætluðum brotum æðsta dómstólsins (e. High Court) og dómstóla sem vinni undir yfirstjórn hans.

Í skýrslu sænska utanríkisráðuneytisins kemur fram að heilbrigðiskerfið í […] einkennist af lélegum innviðum jafnframt sem litlar kröfur séu gerðar til heilsugæslustöðva og almennra sjúkrahúsa. Þrátt fyrir að heilbrigðisaðstoð sé í boði fyrir alla þá sé góð læknisaðstoð forréttindi og eingöngu aðgengileg þeim sem geti greitt fyrir hana. Í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar kemur fram að geðheilbrigðisþjónustan í […] sé fjársvelt og séu starfrækt um 5 geðsjúkrahús í landinu. Þá séu starfrækt fleiri þúsund göngudeildar-, legudeildar- og vettvangsþjónusta fyrir einstaklinga með geðheilbrigðisvandamál á víð og dreif um […]. Frjáls félagasamtök aðstoði andlega veika einstaklinga með því að veita þeim ráðgjöf, húsaskjól og stuðningshópa. Á undanförnum árum hafi stjórnvöld unnið að framkvæmdaáætlunum sem eigi að vinna gegn fordómum í garð einstaklinga sem glími við geðræn veikindi. Á vefsíðu Daily […] kemur fram að árið 2017 hafi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin komið af stað geðheilbrigðis áætlun sem hafi m.a. að markmiði að þróa stefnu og lagaumhverfi til að veita samþætta heilbrigðisþjónustu.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Eins og að framan greinir óttast kærandi um líf sitt verði honum gert að snúa aftur til […]. Kærandi kveður að hann og fjölskylda hans hafi orðið fyrir hótunum og áreiti af hálfu þorpsstjóra síns í heimaríki sem hann telji tengdur […] stjórnmálaflokknum […]. Þá hafi land kæranda og fjölskyldu hans verið tekið með eignarnámi af hálfu þorpsstjórans. Kærandi kveðst hafa leitað til lögreglu en að hún hafi ekki aðhafst í máli hans þar sem lögreglan sé hliðholl stjórnmálaflokknum […]. Kærandi telur að ástæður ofsóknanna sem hann og fjölskylda hans hafi orðið fyrir megi rekja til þess að fjölskyldan hafi kosið stjórnarandstöðuflokkinn […]. Kærandi hefur m.a. lagt fram gögn sem sýni fram á eignarhald fjölskyldu kæranda á ákveðnum landskika máli sínu til stuðnings.

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi sé ekki meðlimur í stjórnmálaflokki […], heldur hafi hann kosið þann flokk í kosningunum árið […] jafnframt sem kærandi hafi hvatt aðra í þorpinu til að kjósa flokkinn. Samkvæmt þeim skýrslum sem kærunefnd hefur skoðað hafi stjórnmálaumhverfið í […] tekið miklum breytingum síðan kærandi fór frá heimaríki. Líkt og komið hefur fram hafi stjórnmálaflokkurinn […] unnið sigur í þingkosningunum í […] sem og í sveitastjórnarkosningunum í heimahéraði kæranda, […]. Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér gefa til kynna að stjórnmálaástandið í […] fari batnandi og að stjórnvöld hafi sýnt vilja til að uppræta spillingu í ríkinu. Er það mat kærunefndar að þær aðstæður sem kærandi vísaði til umsókn sinni til stuðnings hafi breyst frá því hann yfirgaf heimaríki, m.a. þar sem sá stjórnmálaflokkur sem kærandi styðji sé nú við völd í heimaríki hans.

Kærandi hefur m.a. lagt fram […] skilríki, tvö útskriftarskírteini og gögn um eignarhald fjölskyldu kæranda á umdeildu landi í […]. Kærunefnd fékk túlk til að þýða fyrrgreind gögn þann 20. nóvember 2018. Bæði á skilríki kæranda sem og á báðum útskriftarskírteinum kemur fram að kærandi sé sonur […]. Þá kemur fram í eignarhaldsgögnunum, dags. þann 15. janúar 2018, að eigandi jarðarinnar árin 2015 til 2016 sé […] en hann hafi erft jörðina þann 28. mars 2008. Svo virðist sem margir einstaklingar hafi átt umrætt land í gegnum árin og hafi eignarhaldinu verið reglulega breytt. Þá kemur fram að á einu tímabili hafi maður að nafni […] átt jörðina og selt hana, en kærandi kveður umræddan mann vera föður […], bæjarstjóra […]. Það er mat kærunefndar að þó svo að fallist verði á rökfærslu kæranda í viðbótargreinargerð sem og að umrædd gögn um eignarhald tiltekinnar jarðar séu trúverðug þá styðji gögnin hvorki við frásögn kæranda né þá málsástæðu kæranda að maður að nafni […], sem sé þorpsstjóri […], hafi tekið land fjölskyldu kæranda eignarnámi.

Í greinargerð heldur kærandi því fram að hann hafi leitað til lögreglu vegna eignarnámsins en að hún hafi ekkert aðhafst í málinu vegna stjórnmálaskoðana kæranda. Af framangreindum gögnum um heimaríki kæranda verður ekki séð að stjórnvöld taki almennt lönd almennra borgara eignarnámi án endurgjalds. Þá sé öllum borgurum landsins frjálst að gefa skýrslu til lögreglu, svokallaða […] skýrslu, og óheimilt sé að mismuna einstaklingum á grundvelli aldurs, kyns, stöðu, atvinnu eða þjóðerni við gerð slíkrar skýrslu. Á undanförnum árum hafi yfirvöld í […] unnið að því að bæta innviði sína og koma á stafrænu kerfi þar sem hægt sé að skila inn rafrænni […] skýrslu í gegnum sérstaka skráningarsíðu á vef lögregluembættanna. Fram kemur að eins og staðan er í dag séu það einungis lögregluembætti í héruðunum […], […] og […] sem taki við rafrænum […] skýrslum. Ef lögreglan sé óviljug til að skrá […] skýrslu sé hægt að kvarta til lögregluvarðstjórans, lögregluforingjans eða æðra settra embættismanna innan lögreglunnar. Ef það beri ekki árangur þá geti einstaklingar ávallt farið með málið fyrir dómstóla. Framangreindar upplýsingar bera því með sér að það sé til staðar kerfi í […] sem þeir geti leitað til sem telji sig hafa verið beitta órétti af lögreglu.

Kærunefnd fellst á að kærandi kunni að hafa orðið fyrir ótilgreindu áreiti í heimalandi. Engu að síður og með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling. Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans. Að mati kærunefndar hefur kærandi ekki sýnt fram á að sá andlegi heilsufarsvandi sem gögn málsins bera með sér að kærandi glími við sé nægilega alvarlegur til að skilyrði séu fyrir hendi til útgáfu dvalarleyfis á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd telur auk þess, með vísan til þess sem komið hefur fram að framan og á grundvelli heildstæðs mats á aðstæðum kæranda að honum standi til boða geðheilbrigðisþjónusta í […] vegna andlegra veikinda hans, reynist þau fyrir hendi eftir heimkomu.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Rannsóknarregla stjórnsýslulaga

Líkt og áður segir gerir kærandi athugasemd við ákvörðun Útlendingastofnunar, en kærandi telur að rannsókn Útlendingastofnunar á stöðu hans í heimaríki og þeirrar hættu sem bíði hans verði hann endursendur til […] sé ófullnægjandi. Kærandi telji því að Útlendingastofnun hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga við meðferð máls hans.

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga.

Kærunefnd hefur yfirfarið þau gögn sem aflað var við rekstur málsins, svo og skýrslur opinberra stofnana, og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Það er mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi verið í nægilegu samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands þann 15. ágúst 2017 og sótti um alþjóðlega vernd 17. sama mánaðar. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Anna Tryggvadóttir                                                   Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum