Hoppa yfir valmynd
30. desember 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Heimhjúkrun sameinuð heimaþjónustu Reykjavíkur

Miðstöð heimahjúkrunar á höfuðborgarsvæðinu flyst til borgarinnar frá 1. janúar næst komandi samkvæmt þjónustusamningi sem skrifað var undir í dag.

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, og Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri í Reykjavík, undirrituðu samning í dag fyrir hönd ráðuneytis og borgarinnar í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsinu.

Með þjónustusamningnum hefst tilraunaverkefni til þriggja ára sem felst í að reka heimahjúkrun og sameina hana rekstri félagslegrar heimaþjónustu í Reykjavík. Þannig verður til þjónustukerfi, sem myndar eina heild gagnvart notanda og er markmiðið að gera fleiri íbúum kleift að búa heima þrátt fyrir öldrun, fötlun, veikindi eða skerta getu til daglegra athafna. Með því að sameina og samþætta starfsemina er stefnt að því ná fram bættri nýtingu mannafla og fjármuna.

Samningurinn er til þriggja ára og gildir frá 1. janúar 2009 til 31. desember 2011 og greiðir ríkið alls rúmlega 2,8 milljarða króna fyrir þjónustu Reykjavíkurborgar á samningstímanum. Skiptist fjárhæðin svona: Á árinu 2009 greiðast 892 milljónir króna, á árinu 2010 greiðast 942 milljónir króna, á árinu 2011 greiðast 992 milljónir króna. Á árinu 2009 er gert ráð fyrir að verja 892 milljónum til heimahjúkrunar og 1037 milljónum til félagslegrar heimaþjónustu. Samtals tæpum tveimur milljörðum króna.

344 starfsmenn sinna félagslegri heimaþjónustu, 115 í heimahjúkrun, samtals 459 starfsmenn. Um 3000 heimili njóta nú félagslegrar heimaþjónustu og um 1000 heimili njóta heimahjúkrunar að jafnaði. Alls hafa á þessu ári 2200 einstaklingar notið þjónustu heimahjúkrunar og um 3700 heimili notið félagslegrar heimaþjónustu. Árlegar vitjanir sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga voru rúmlega 156 þúsund. Um 87% beiðna um heimahjúkrun koma frá Landspítala háskólasjúkrahúsi og heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Heildarupphæð samnings um heimahjúkrun til þriggja ára er 2,8 milljarðar króna. Fé til félagslegrar heimaþjónustu verður á sama tímabili um 3,3 milljarðar króna. Samtals um 6,1 milljarður á næstu þremur árum.

Samkvæmt ákvæðum þjónustusamningsins sér Reykjavíkurborg um rekstur heimahjúkrunar í Reykjavík allan sólarhringinn alla daga ársins. Þar fyrir utan tekur samningurinn til reksturs heimahjúkrunar allan sólarhringinn alla daga ársins í Seltjarnarnesbæ, reksturs kvöld, - nætur og helgidagaþjónustu heimahjúkrunar í Mosfellsbæ að hluta og rekstur næturþjónustu heimahjúkrunar í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði.

Heimahjúkrun fá einstaklingar sem búa í sveitarfélögunum sem hér eru nefnd eða dvelja um lengri eða skemmri tíma í heimahúsi á svæðinu, t.d. í tengslum við dvöl á sjúkrahúsi eða endurhæfingu, og þurfa á heimahjúkrun að halda að mati læknis eða hjúkrunarfræðings.

Starfsmenn heimahjúkrunar munu fyrst í stað áfram sinna þeim sjúklingum sem þeir hafa sinnt og starfsmenn félagslegrar heimaþjónustu þjónusta áfram þá sem þeir hafa sinnt.

Stefnt er að því að breytingarnar verði með þeim hætti að þeir sem njóta þjónustunnar verði ekki varir við þær nema þá sem bættri þjónustu til lengri tíma.

Nýtt símanúmer verður tekið í notkun innan skamms 411 9600 – þessi tilhögun  verður kynnt sérstaklega og símsvari mun benda á nýtt símanúmer þegar þar að kemur.

 Heilbrigðisráðherra og borgarstjóri
Heilbrigðisráðherra og borgarstjóri skrifa undir þjónustusamninginn
Frá undirskriftinn í dag Jórunn heilbrigðisráðherra borgarstjóri
Jórunn Frímannsdóttir, formaður Velferðarráðs, heilbrigðisráðherra, borgarstjóri og Margrét Margeirsdóttir, frá samtökum eldri borgara, hlýða á Guðjón Sigurðsson, formann MND félagsins, sem lauk miklu lofsorði á samninginn og sagðist þess fullviss hann ætti eftir að marka tímamót gagnvart þeim sem þjónustunnar njóta. 


 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum