Hoppa yfir valmynd
4. ágúst 2020 Utanríkisráðuneytið

Ísland aðstoðar Malaví í baráttunni við kórónuveiruna

Frá Mangochi í Malaví - myndUtanríkisráðuneytið
Kórónaveiran geisar nú í Malaví þar sem 3600 manns hafa smitast af COVID-19 og nær hundrað manns látist á síðustu mánuðum. Íslensk stjórnvöld hafa veitt sérstakan stuðning við uppbyggingu heilbrigðisinnviða og forvarnir í samstarfshéraðinu Mangochi þar sem um hundrað tilfelli kórónuveirusýkingar hafa nú verið greind.
 
Íslensk stjórnvöld hafa unnið að þróunarverkefnum með stjórnvöldum í Malaví í yfir þrjá áratugi. Íslensk stjórnvöld styðja við grunnþjónustu héraðsyfirvalda í Mangochi-héraði á sviði heilbrigðismála, menntamála og vatns- og hreinlætis. Mangochi er annað fjölmennasta hérað Malaví, með rúmlega eina milljón íbúa og hafa rúmlega 100 tilfelli kórónuveirusýkingar verið staðfest þar. Mangochi liggur við landamæri Mósambík og hafa margir farandverkamenn úr héraðinu sem stunda vinnu í Suður-Afríku snúið aftur heim, stór hluti smitaður af kórónuveirunni.
 
Frá því í aprílbyrjun hefur sendiráð Íslands í Lilongwe stutt við aðgerðaáætlun héraðsyfirvalda við að undirbúa heilbrigðisinnviði og efla forvarnir gegn COVID-19 í héraðinu um 13 milljónir króna, sem er stærsta einstaka framlag til COVID-viðbragða héraðsins. Heilbrigðisyfirvöld í héraðinu hafa til að mynda nýtt stuðning Íslands til að styrkja upplýsingaflæði til héraðs- og sveitarstjórnaryfirvalda, til kaupa á ýmiskonar öryggis- og hlífðarbúnaði fyrir heilbrigðisstarfsfólk sem og prófunarbúnaði fyrir héraðssjúkrahúsið. Hátt í þúsund heilbrigðisstarfsmenn á sextíu heilsugæslustöðvum í héraðinu hafa enn fremur fengið reglulegar upplýsingar, þjálfun og kennslu um hvernig bregðast skuli við COVID-19 auk nauðsynlegs hlífðarbúnaðar.
  
„Við erum Íslandi afar þakklát fyrir bæði fjárhagslegan stuðning og ráðgjöf við undirbúning COVID-viðbragsáætlunar héraðsins“, sagði Dr. Kondwani Mamba yfirmaður lýðheilsumála í Mangochi héraði um þetta samstarf. „Með stuðningi Íslands hefur héraðið okkar geta brugðist vel og tímanlega við og sett í gang mikilvægar aðgerðir til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar“.
 
Ísland hefur enn fremur aðstoðað heilbrigðisyfirvöld í Mangochi við að koma réttum og uppfærðum upplýsingum til heilbrigðisnefnda í þorpum með því að gefa þrjú hundruð útvarpstæki sem dreift var til 99 heilbrigðisnefnda. Útvörpin, sem eru knúin sólarorku og virka einnig sem lampar. Þeim er ætlað að styðja við upplýsingagjöf til íbúa í sveitunum um hvernig best sé að forðast smit. Þetta framlag Íslands er hluti af stuðningi íslenskra stjórnvalda við EnDev Malaví, sem er verkefnastoð þýsku þróunarsamvinnustofnunarinnar GiZ, sem rekur þriggja ára verkefni um aukna notkun endurnýjanlegrar orku í Mangochi-héraði.  
 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum