Hoppa yfir valmynd
20. júní 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 307/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 20. júní 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 307/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19040087

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 10. apríl 2019 kærði […], fd. […], ríkisborgari Nepal (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. apríl 2019, um að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og henni verði veitt dvalarleyfi hér á landi.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 70. gr. laga um útlendinga, þann 7. desember 2018 og var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 1. apríl 2019. Var kæranda gert að yfirgefa landið innan 15 daga frá móttöku ákvörðunarinnar þar sem hún hefði ekki gilt dvalarleyfi. Fyrirsvarsmaður kæranda móttók ákvörðunina þann 4. apríl 2019. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 10. apríl sl. og þann 26. apríl sl. barst kærunefnd greinargerð kæranda. Í greinargerð óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar dags. 1. apríl 2019, á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 29. maí 2019 féllst kærunefndin á þá beiðni.

III.           Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kærandi hefði sótt um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli hjúskapar. Stofnunin fjallaði um ákvæði 69. gr. laga um útlendinga þar sem fram komi skilyrði um veitingu dvalarleyfis vegna fjölskyldusameiningar. Í 1. mgr. 69. gr. komi fram að nánasti aðstandandi útlendings sem dveljist hér á landi á grundvelli dvalarleyfis, skv. 61., 63., 70., 73., 74. og 78. gr. geti með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldu sameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla laga um útlendinga. Þá fjallaði stofnunin um 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga þar sem fram komi að heimilt sé að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi hyggist hann flytjast hingað til lands til að búa með maka sínum eða sambúðarmaka. Skilyrði þess sé að makinn hafi rétt til fjölskyldusameiningar samkvæmt VIII. kafla laganna og sé í hjúskap eða sambúð. Stofnunin vísaði til þess að maki kæranda væri með dvalarleyfi hér á landi á grundvelli skorts á starfsfólki, sbr. 62. gr. útlendingalaga, en það ákvæði veiti ekki rétt til fjölskyldusameiningar. Kærandi uppfyllti því ekki ófrávíkjanlegt skilyrði 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga og var umsókn hennar því synjað.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í athugasemdum kæranda kemur fram að eiginmaður hennar sé með dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 62. gr. laga um útlendinga. Eiginmaður kæranda hafi verið í löglegri dvöl hér á landi síðan 2014 og hafi fengið dvalarleyfi sitt endurnýjað í stað þess að sækja um dvalarleyfi á öðrum grundvelli, svo sem vegna sérstakra tengsla, þó hann hafi myndað slík tengsl. Kærandi og eiginmaður hennar hafi gengið í hjúskap í september 2017 og í nóvember 2018 hafi kærandi komið hingað til lands og sótt um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar. Kærandi byggir á því að hún og eiginmaður hennar eigi rétt á því samkvæmt lögum að vera ekki sundruð. Þá séu örfáir mánuðir þar til eiginmaður kæranda geti sótt um ótímabundið dvalarleyfi sem veiti heimild til fjölskyldusameiningar. Kærandi telji miður að ekki sé hægt að koma til móts við þau hjónin með öðrum hætti en að vísa henni úr landi og tilkynna um mögulegt endurkomubann. Útlendingastofnun hafi leiðbeint eiginmanni kæranda um að sækja um dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar sem geti veitt heimild til fjölskyldusameiningar. Dvalarleyfi á þeim grundvelli hafi þó verið synjað þar sem starf hans sé bundið við skort á starfsfólki. Kærandi byggir á því að ógjörningur sé fyrir hana að ferðast aftur til síns heimaríkis í því skyni að sækja nýja ferðaheimild fyrir annarri komu til landsins. Þá hafi hún sótt um að hefja meistaranám í Háskóla Íslands og muni því geta öðlast dvalarleyfi á þeim grundvelli. Ástæða dvalar kæranda hér á landi sé þó ekki námið heldur eiginmaður hennar. Kærandi telur bersýnilega ósanngjarnt að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar og óski þess að synjun umsóknar hennar verði endurskoðuð og snúið við.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 69. gr. laga um útlendinga er kveðið á um skilyrði dvalarleyfis vegna fjölskyldusameiningar. Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. laganna getur nánasti aðstandandi íslensks eða annars norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 61., 63., 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis skv. 58. gr. með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla.

Samkvæmt gögnum málsins hefur eiginmaður kæranda dvalarleyfi á grundvelli 62. gr. laga um útlendinga. Af upptalningu í 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga er ljóst að dvalarleyfi á grundvelli 62. gr. myndar ekki rétt til fjölskyldusameiningar. Enga undanþágu er að finna í lögum um útlendinga frá framangreindu skilyrði og hafa stjórnvöld því ekki heimild að lögum til veitingar dvalarleyfis á grundvelli fjölskyldusameiningar þegar nánasti aðstandandi er með dvalarleyfi á grundvelli 62. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt framansögðu uppfyllir kærandi ekki skilyrði 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga og verður umsókn hennar um dvalarleyfi því synjað. Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Samkvæmt framangreindu hefur kærandi ekki dvalarleyfi hér á landi. Kæranda er því ekki heimil áframhaldandi dvöl hér á landi og ber henni að yfirgefa landið innan 30 daga frá móttöku úrskurðarins. Athygli kæranda er vakin á því að ef hún yfirgefur ekki landið innan frestsins kann að vera heimilt að brottvísa henni, sbr. a-lið 1. mgr. og a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                 Anna Valbjörg Ólafsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum