Hoppa yfir valmynd
23. september 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundur norrænna vinnumálaráðherra

Fundur norrænna vinnumálaráðherra
Fundur norrænna vinnumálaráðherra

Ráðherranefnd norrænna vinnumálaráðherra kom saman til fundar undir forsæti Árna Magnússonar félagsmálaráðherra á Egilsstöðum í gær. Á fundinum gerði félagsmálaráðherra grein fyrir framkvæmd á þeim þáttum í formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni sem varða vinnumál og vinnuverndarmál. Enn fremur var rætt um stöðu og framvindu í vinnumarkaðsmálum á Norðurlöndunum.

Til sérstakrar umfjöllunar voru aðgerðir landanna á sviði atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða og samspil þeirra kerfa við önnur bótakerfi, svo sem almannatryggingar. Enn fremur var meðal annars fjallað um samspil efnahagsmála og atvinnuleysis, sem og breytta aldurssamsetningu þjóðanna.

Á fundinum var fjallað um tillögu ráðherranefndarinnar til þings Norðurlandaráðs að nýrri norrænni samstarfsáætlun á sviði vinnumála og vinnuumhverfismála sem tekur til áranna 2005–2008 en þing Norðurlandaráðs verður háð í Stokkhólmi dagana 1.–3. nóvember nk. Unnið var að tillögunni á formennskutíma Íslands í Norrænu ráðherranefndinni.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum