Hoppa yfir valmynd
26. maí 2012 Dómsmálaráðuneytið

Sjö frambjóðendur skiluðu inn framboðum til kjörs forseta Íslands 30. júní

Frestur til að skila framboðum til kjörs forseta Íslands hinn 30. júní næstkomandi rann út á miðnætti föstudagsins 25. maí og í dag, laugardag, komu fulltrúar frambjóðenda til fundar í innanríkisráðuneytinu. Sjö frambjóðendur skiluðu tilskildum gögnum áður en framboðsfrestur rann út.

Fundur með forsetaframbjóðendum og/eða fulltrúum þeirra var haldinn í innanríkisráðuneytinu 26.maí.
Fundur með forsetaframbjóðendum og/eða fulltrúum þeirra var haldinn í innanríkisráðuneytinu 26.maí.

Frambjóðendurnir sjö eru:

Andrea Jóhanna Ólafsdóttir

Ari Trausti Guðmundsson

Ástþór Magnússon Wium

Hannes Bjarnason

Herdís Þorgeirsdóttir

Ólafur Ragnar Grímsson

Þóra Arnórsdóttir

Í 4. gr. laga um framboð og kjör forseta Íslands, nr. 36/1945, segir að framboðum til forsetakjörs skuli skila eigi síðar en 5 vikum fyrir kjördag til ráðuneytisins ásamt samþykki forsetaefnis, nægilegri tölu meðmælenda og vottorðum yfirkjörstjórna um að þeir séu kosningarbærir. Einnig segir í lögunum að ráðuneytið skuli auglýsa í útvarpi og Lögbirtingablaðinu innan viku hverjir séu í kjöri til forsetaembættisins og afgreiða til hæstaréttar öll framangreind skjöl.

Frambjóðendur og/eða umboðsmenn þeirra komu til fundar í innanríkisráðuneytinu í dag, laugardag. Þeir voru Andrea Jóhanna Ólafsdóttir frambjóðandi, Ólafur Þórisson, umboðsmaður Ara Trausta Guðmundssonar, Ástþór Magnússon Wium frambjóðandi og umboðsmaður hans, Jón Pétur Líndal, Sigurður G. Guðjónsson, umboðsmaður Ólafs Ragnars Grímssonar, og Guðrún Björg Birgisdóttir, umboðsmaður Þóru Arnórsdóttur.

Tilgangur fundarins var að upplýsa um þau framboð sem lögð voru inn innan tilskilins tíma, greina frá þeim gögnum sem lögð voru fram og gefa aðilum kost á að tjá sig um þær upplýsingar sem kynntar voru og settar voru fram á fundinum. Einnig var tilkynnt að ráðuneytið muni í síðasta lagi 31. maí auglýsa um framboð til kjörs forseta Íslands. 

Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri stýrði fundinum og bauð fundarmenn velkomna, greindi frá tilgangi hans, lýsti því að sjö frambjóðendur hefðu skilað inn gögnum og að framboð yrðu auglýst innan viku. Fundarmenn kynntu sér gögn sem lágu frammi. Ástþór Magnússon Wium óskaði þess að færðar yrðu til bókar athugasemdir sínar þess efnis að hann sæi á framlögðum meðmælendalistum annarra frambjóðenda sömu rithönd. Óskaði hann eftir að aðrir listar yrðu kannaðir með hliðsjón af þessari athugasemd.

Innan viku mun ráðuneytið hafa lokið yfirferð framlagðra gagna til að staðfesta lögmæti þeirra og í kjölfar þess undirbúa framangreinda auglýsingu um hverjir eru í framboði til kjörs forseta Íslands.

  • Sjá fróðleik og hagnýtar upplýsingar um undirbúning og framkvæmd kosninganna á vefnum kosning.is.

Fundur með forsetaframbjóðendum og/eða fulltrúum þeirra var haldinn í innanríkisráðuneytinu 26.maí.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira