Hoppa yfir valmynd
20. mars 2018 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Opnaði vef um öryggismat íslenska vegakerfisins

Sigurður Ingi Jóhannsson opnaði vef um öryggisúttekt á íslenskum vegum. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, opnaði í dag aðgang að vef evrópska vegamatskerfisins EuroRAP á morgunfundi Félags íslenskra bifreiðaeigenda. Félagið hefur frá árinu 2004 unnið reglulega að öryggisúttekt á þjóðvegum á Íslandi og hefur ráðuneytið ásamt öðrum opinberum aðilum og einkaaðilum stutt verkefnið með fjárframlögum.

Steinþór Jónsson, formaður FÍB, setti fundinn og sagði öryggisúttektir síðustu ára næðu nú til um 4.200 km vegkerfisins og væri matið víðtækur og mikilvægur gagnagrunnur til að auka umferðaröryggi.

Sigurður Ingi Jóhannsson flutti ávarp um leið og hann opnaði fyrir aðgang að vefnum sem finna má á vefsíðu FÍB. Sagði ráðherra öryggi vera lykilatriði í samgöngum sem þær yrðu alltaf að grundvallast á. Hann sagði mikilvægt að vinna með öllum ráðum að bættu umferðaröryggi og þar þyrftu allir þættir að haldast í hendur, ökumaðurinn og aðrir vegfarendur, bíllinn og vegakerfið. Úttektir EuroRAP væru mjög áhugaverðar, nauðsynlegt væri að vita hvar gallar og áhætta væru í vegakerfinu til að ráðast í úrbætur. Þá sagðist ráðherra sannfærður um að hver króna sem færi til að auka umferðaröryggi skilaði sér.

James Bradford, þróunarstjóri EuroRAP, og Ólafur Guðmundsson, tæknistjóri EuroRAP á Íslandi, kynntu síðan öryggisúttektina sem unnin er á sama hátt í öllum þátttökuríkjum. Úttektin fer þannig fram að ekið er um vegakerfið á sérútbúnum bíl, teknar myndir og skráð fjölmörg atriði um vegi og umhverfi þeirra. Í framhaldinu er unnið úr gagnagrunninum og vegarköflum gefnar stjörnur. Sögðu þeir þennan gagnagrunn sýna hvar veikleikar væru í vegakerfinu og að jafnframt væri hægt að fá útreikning á hvað tilteknar umbætur myndu kosta og hvernig slík fjárfesting myndi þýða sparnað t.d. við heilbrigðisþjónustu.

Í lok fundar fluttu fulltrúar Vegagerðarinnar og Samgöngustofu ávörp, þeir Jónas Snæbjörnsson og Þórólfur Árnason.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira