Hoppa yfir valmynd
10. apríl 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 168/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 10. apríl 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 168/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18020059

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 19. febrúar 2018 kærði […], fd. […], ríkisborgari Indlands (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. desember 2017, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Belgíu.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar með vísan til 2. og 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 42. gr. sömu laga. Til vara er gerð krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju, með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.         Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 12. september 2017. Þar sem kærandi var með dvalarleyfi í Belgíu var þann 15. september 2017 send beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd til yfirvalda í Belgíu, sbr. 1. mgr. 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Þann 24. október 2017 barst samþykki um viðtöku kæranda frá belgískum stjórnvöldum á grundvelli 1. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 8. desember 2017 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Belgíu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 6. febrúar 2018. Kærandi kærði þá ákvörðun 19. febrúar 2018 og barst greinargerð kæranda kærunefnd þann 2. mars 2018 ásamt fylgigögnum.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Belgíu. Lagt var til grundvallar að Belgía virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Belgíu ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun mat aðstæður kæranda slíkar að hann væri ekki í sérstaklega viðkvæmri stöðu skv. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat stofnunarinnar að sérstakar ástæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga væru ekki til staðar í málinu. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Belgíu, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi í viðtali hjá Útlendingastofnun greint frá því að hann komi frá afar íhaldssömu þorpi á Indlandi þar sem hann hafi orðið fyrir fordómum og ofbeldi af hálfu vina og vandamanna vegna kynhneigðar sinnar. Hann hafi m.a. þurft að leita á sjúkrahús eftir árás og þá hafi hann ungur reynt að flýja landið en ekki tekist það fyrr en að hann hafi fengið skólastyrk til þess að fara til Belgíu í verkfræðinám. Hann hafi reynt að snúa aftur til heimkynna sinna vegna mikillar heimþrár en hvorki hann né foreldrar hans hafi verið örugg með dvöl hans í þorpinu. Í hindúatrú sé samkynhneigð ekki samþykkt og í þorpinu hans sé hún talin óyfirstíganleg synd jafnvel þó að hann hafi reynt að giftast stelpu til að fela hana. Þá greinir kærandi frá því að honum hafi ekki liðið vel í Belgíu, en þar hafi hann lent í sprengjuárás á flugvelli þann 22. mars 2016. Í kjölfarið hafi hann glímt við andleg og líkamleg veikindi og fundið fyrir þunglyndi, ótta og kvíða. Þá kveðst kærandi hafa misst tvær tennur í árásinni og að fyrrverandi kærasti hans hafi slasast alvarlega og lamast. Fjölskylda kærastans hafi í kjölfarið fengið fregnir af sambandi þeirra og farið að niðurlægja og áreita kæranda, meðal annars á samfélagsmiðlum, sem hafi gert það að verkum að hann hafi þurft að loka á aðganga sína þar og hafi þeir í framhaldinu hætt að vera saman. Vegna þessarar reynslu hafi andlegri heilsu kæranda tekið að hraka, hann hafi flosnað upp úr námi og lokað sig af í tvo til þrjá mánuði og svarað engum. Kærandi kveðst þá ekki hafa treyst sér til þess að halda áfram í námi og frekar vilja deyja. Eftir sprengjuárásina hafi hann jafnframt orðið fyrir miklu áreiti af hálfu samnemenda sinna, sem hafi m.a. falist í því að dyrunum á herbergi hans hafi verið læst, hjólið hans skemmt og dónalegum myndum komið fyrir í pósthólfi hans. Hann hafi því bæði orðið fyrir áreiti af hálfu fjölskyldu fyrrum kærasta síns og nemenda á stúdentagörðum. Ráðgjafi hans í skólanum hafi hvatt kæranda til að leita til sálfræðiþjónustu skólans en það hafi hann ekki viljað þar sem hann hafi óttast að vera stimplaður geðveikur og vera sendur í geðmeðferð líkt og hann hafi verið sendur í á Indlandi. Þá kveðst kærandi hafa orðið fyrir mismunun í Belgíu, hann hafi gengið í kaþólskan skóla þar sem menn hafi ekki sýnt kynhneigð hans umburðarlyndi og sífellt verið að bjóða honum í einhvers konar meðferð sem hafi átt að gera hann „eðlilegan“. Kærandi kveðst hafa verið á flótta frá 14 ára aldri, hann hafi reynt að lifa eðlilegu lífi á Srí Lanka en það hafi ekki gengið, þá hafi hann orðið fyrir útskúfun af hálfu fjölskyldu sinnar sem hafi tjáð honum að hann muni kalla skömm yfir þau yrði hann að snúa aftur til heimaríkis.

Kærandi gerir athugasemd við mat Útlendingastofnunar á sérstaklega viðkvæmri stöðu hans, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Stofnunin hafi gefið þjónustuviðtali við kæranda mikla vigt í málinu en kærandi bendir á að í slíkum viðtölum sé enginn talsmaður til staðar til að gæta réttinda einstaklinga og tilgangur viðtalsins sé fyrst og fremst að meta þjónustuþörf viðkomandi einstaklings og fá ákveðnar grunnupplýsingar. Þá er af hálfu kæranda bent á að ekki fáist betur séð af gögnum málsins en að Útlendingastofnun hafi gefið í skyn að talsmaður kæranda hafi ráðlagt honum að segja ósatt til um andlega heilsu sína og þær upplýsingar sem komi fram í göngudeildarnótum sem dagsettar séu eftir hælisviðtal þann 9. nóvember sé lítið mark takandi á. Eðli málsins samkvæmt séu einstaklingar misjafnlega í stakk búnir til að opna á erfiða fortíð sína og horfast í augu við andlega erfiðleika sem þeir glíma við af völdum áfalla. Kærandi hafi greint frá erfiðum aðstæðum sínum sem samkynhneigður karlmaður ásamt því að hafa verið fórnarlamb sprengjuárásar í Brussel sem hafi haft mikil andleg og líkamleg áhrif á hann. Í komunótum frá Göngudeild sóttvarna komi jafnframt fram að hann sé haldinn alvarlegu þunglyndi, alvarlegri áfallastreituröskun, eigi í vandræðum með svefn, hafi verið ávísað geðlyfjum. Þá komi fram frekari upplýsingar um andlega líðan hans, m.a. upplýsingar sem hafi ekki komið fram í hælisviðtali. Það að Útlendingastofnun hafi alfarið litið framhjá þessum nótum sérfræðinga sé að mati kæranda óforsvaranlegt og í andstöðu við 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga en óumdeilt sé miðað við frásögn hans að hann teljist til sérstaklega viðkvæms einstaklings í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Kærandi gerir einnig athugasemd við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar þar sem stofnunin dragi í efa að hann hafi verið fórnarlamb sprengjuárásar þrátt fyrir að hann hafi lagt fram reikninga frá tannlækni vegna tannviðgerðar, röntgenmyndir af tönnum ásamt samskiptum við námsráðgjafa við skóla hans í Belgíu. Kærandi vísar í þessu sambandi til umfjöllunar um trúverðugleikamat í handbók Flóttamannastofnunar og telur að ekki sé stætt að draga trúverðugleika hans í efa með þessum hætti. Þá hafi Útlendingastofnun ekki rannsakað með neinum hætti hvort að samkynhneigðir einstaklingar frá Suðaustur-Asíu eigi frekar á hættu að verða fyrir mismunun á grundvelli kynhneigðar en ríkisborgarar Belgíu. Þvert á móti sé trúverðugleiki hans sé dreginn í efa með vísan til almenns ástands mannréttindamála og stöðu LGBTI einstaklinga í Belgíu.

Í greinargerð kæranda er jafnframt að finna almenna umfjöllun um hæliskerfið í Belgíu. Í alþjóðlegum skýrslum komi fram að belgísk stjórnvöld hafi dregið úr lögfræðiaðstoð við umsækjendur um alþjóðlega vernd og fækkað svo plássum í móttökumiðstöðvum að til vandræða horfi en á sama tíma hafi þau verið að beita varðhaldi í meira mæli en áður. Yfirvöld í Belgíu hafi jafnframt fengið á sig áfellisdóma frá Mannréttindadómstól Evrópu fyrir að halda umsækjendum um alþjóðlega vernd of lengi í varðhaldi. Þá sé erfitt að finna lögfræðinga með næga þekkingu til að rökstyðja kærur með fullnægjandi hætti en áfrýjunarstigið (e. Council for Alien Law Litigation (CALL)) snúi örsjaldan við fyrstu ákvörðunum og beiti ekki að fullu heimildum sínum. Þá fái umsækjendur um alþjóðlega vernd mismunandi meðferð eftir því undir hvaða deild innan áfrýjunarstigsins mál þeirra falli en það hafi þessu til viðbótar fengið á sig áfellisdóm frá Mannréttindadómstólnum sökum rangrar málsmeðferðar. Þá komi fram í skýrslu Amnesty International að mismunun sé algeng í Belgíu, sérstaklega gagnvart múslimum en einnig ákveðnum þjóðernislegum minnihlutahópum, bæði á atvinnumarkaði og af lögreglu. Þá kemur fram að belgísk stjórnvöld séu áfram að senda umsækjendur um alþjóðlega vernd til Grikklands í krafti Dyflinnarreglugerðarinnar og í nóvember á síðasta ári hafi tekið gildi lög í landinu sem víkki heimildir til varðhalds á umsækjendum og sniðgangi rétt þeirra til að kæra neikvæðar niðurstöður.

Krafa kæranda er byggð á því að uppi séu sérstakar ástæður í máli hans í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar til lögskýringargagna með ákvæðinu og nefnir að viðkvæm staða jafngildi sérstökum ástæðum og allir þeir sem teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu skuli fá efnismeðferð hér á landi. Kærandi vísar jafnframt til úrskurða kærunefndar útlendingamála frá 10. október 2017, nr. 550/2017, 552/2017 og 553/2017 máli sínu til stuðnings um vægi sjónarmiða á því hvort að sérstakar ástæður séu fyrir hendi.

Til stuðnings varakröfu kæranda, um að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju, vísar kærandi til þess að rannsókn málsins hafi ekki verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

V.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda.

Fyrir liggur í máli þessu að belgísk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli 1. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Belgíu er byggt á því að kærandi hafi verið með dvalarleyfi í landinu. Eru skilyrði c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Í 32. gr. a-b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í 32. gr. a kemur m.a. fram að með sérstökum ástæðum sé átt við einstaklingsbundnar ástæður er varða umsækjanda sjálfan, aðrar en þær sem myndu að jafnaði rúmast innan 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá er m.a. nefnt í dæmaskyni ef umsækjandi mun eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar og ef umsækjandi glímir við mikil og alvarleg veikindi.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveður á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið lagt til grundvallar að sú meðferð, sem einstaklingur eigi von á, verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til þess að falla undir 3. gr. sáttmálans. Við það mat verði að horfa til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar og í einhverjum tilvikum kyns, aldurs og heilsufars viðkomandi. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda í viðtökuríki taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli. 

Greining á sérþörfum sbr. 25. og 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga

Kærandi var ekki metinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hans hjá Útlendingastofnun. Kærandi er ungur karlmaður sem kom einn hingað til lands. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 9. nóvember 2017 greindi kærandi m.a. frá því að hann glími við tannvandamál auk þess sem hann sé með innvortis vandamál sem hann finni fyrir endrum og sinnum. Spurður út í andlegt heilsufar sitt tók kærandi fram að hann finni fyrir þunglyndiseinkennum, sé óttasleginn og finni fyrir kvíða. Hann sé samkynhneigður og hafi orðið fyrir ýmsu áreiti vegna þess. Í komunótum frá göngudeild sóttvarna, dags. 21. september 2017 til 27. nóvember 2017, sem kærandi skilaði inn til Útlendingastofnunar kemur m.a. fram að kærandi hafi verið greindur með þunglyndi, skori hátt í skema fyrir áfallastreituröskun, sofi oft illa og finni fyrir kvíða. Í gögnum kemur fram að þessi einkenni hafi hafist í kjölfar sprengjuárásar í mars 2016 sem kærandi kveðst hafa orðið fyrir. Kærandi hafi fengið ávísað viðeigandi lyfjum vegna aðstæðna sinna. Í komunótum frá göngudeild sóttvarna, dags. 28. nóvember 2017 til 8. janúar 2018, sem virðast ekki hafa legið fyrir við töku ákvörðunar hjá Útlendingastofnun, má finna upplýsingar úr viðtölum kæranda við sálfræðing en þar koma m.a. fram ítarlegri upplýsingar um aðstæður hans og þá er hann jafnframt greindur með áfallastreituröskun.

Í tilefni umfjöllunar Útlendingastofnunar um heilsufar kæranda telur kærunefnd rétt að taka fram að nefndin tekur ekki undir það mat Útlendingastofnunar sem kemur fram í ákvörðuninni varðandi heilsufar kæranda en af lestri ákvörðunarinnar virðist sem Útlendingastofnun hafi metið framburð kæranda, varðandi andlega kvilla, að einhverju leyti ótrúverðugan þar sem hann væri tvísaga í framburði sínum annars vegar í þjónustuviðtali dags. 14. september 2017 og hins vegar í viðtali hjá stofnuninni þann 9. nóvember 2017. Kærunefnd tekur ekki undir það mat Útlendingastofnunar að kærandi hafi verið tvísaga í frásögn sinni enda geti innsýn einstaklings í andlega heilsu sína tekið breytingum.

Samkvæmt framansögðu hefur kærandi notið nokkurrar heilbrigðisþjónustu hér á landi vegna andlegra veikina sinna. Þá bera gögnin með sér mat heilbrigðisstarfsmanna um að andleg heilsa hans sé nokkuð alvarleg. Í ljósi gagna málsins er það mat kærunefndar að kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu að því er varðar meðferð máls hans hér á landi, enda eru persónulegir eiginleikar hans og aðstæður hans þess eðlis að hann telst hafa sérþarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls hans hér auk þess sem talið verður að hann geti ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögum um útlendinga án aðstoðar eða sérstaks tillits, sbr. 6. tölul. 3. gr. og 25. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður og málsmeðferð í Belgíu

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Belgíu, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • Asylum Information Database, Country Report: Belgium (European Council on Refugees and Exiles, mars 2018),
  • Belgium 2016 Human Rights Report (United States Department of State, 3. mars 2017),
  • Freedom in the World 2017 – Belgium (Freedom House, 1. september 2017),
  • Amnesty International Report 2017/18 – Belgium (Amnesty International, 22. febrúar 2018),
  • The organisation of Reception Facilities in Belgium (European Migration Network, ágúst 2013),
  • Vefsíða um réttindi hinsegin fólks, http://www.refugeelegalaidinformation.org/belgium-lgbti-resources (skoðað 22. mars 2018).

Í framangreindum gögnum kemur fram að einstaklingar geta sótt um alþjóðlega vernd á flugvellinum við komu til Belgíu eða hjá útlendingastofnun (b. Dienst Vreemdelingenzaken) þar í landi. Stofnun sem fer með umsóknir um alþjóðlega vernd (b. Commissariaat-generaal voor de vluchtelingen en de staatlozen (CGVS)) tekur ákvarðanir um umsóknir um alþjóðlega vernd á fyrsta stjórnsýslustigi. Ákvarðanir hennar eru kæranlegar til stjórnsýsludómstóls í útlendingamálum (b. Raad voor Vreemdelingenbetwistingen) (e. Council for Alien Law Litigation (CALL)). Umsækjendur um alþjóðlega vernd í Belgíu eiga rétt á lögfræðiþjónustu án endurgjalds á öllum stigum málsins, þ. á m. við að leggja fram viðbótarumsókn. Að sama skapi er þeim tryggður aðgangur að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Þá kemur fram að rekin séu úrræði tengd heilsufari umsækjenda um alþjóðlega vernd, m.a. miðstöðvar á vegum stjórnvalda vegna andlegra veikinda, en jafnframt kemur fram að langir biðlistar takmarki oft á tíðum aðgengi umsækjenda um að þeim. Af ofangreindum gögnum um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í Belgíu má jafnframt ráða að þegar umsækjendur eru endursendir til Belgíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar er umsókn þeirra skoðuð sem viðbótarumsókn. Í þeim tilfellum er umsækjendum veitt húsnæði, mataraðstoð og vasapeningar þegar CGVS hefur tekið viðbótarumsókn þeirra til skoðunar. Þeir umsækjendur um alþjóðlega vernd sem settir eru í varðhald við komu til Belgíu eiga rétt á lögfræðiaðstoð án endurgjalds og eiga jafnframt rétt á því að skjóta ákvörðun um varðhaldsvist til dómstóla. Þá kemur fram að löggjöf gildi í landinu sem banni alla mismunun á grundvelli kynhneigðar og að Belgía sé framarlega í alþjóðlegum samanburði á sviðinu. Engu að síður séu dæmi um að LGBTI-einstaklingum sé mismunað innan samfélags innflytjenda en jafnframt að frjáls félagasamtök reyni að sporna við þeirri mismunun með stuðningi stjórnvalda.

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Belgíu hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending umsækjenda um alþjóðlega vernd til Belgíu brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að umsækjendum um alþjóðlega vernd séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Belgíu bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Ennfremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Belgíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Aðstæður kæranda hafa þegar verið raktar. Af framangreindum gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í Belgíu má ráða að umsækjendur eigi rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu sem þeir þurfi á að halda fram að brottflutningi þeirra frá landinu. Telur kærunefnd því ekki forsendur til annars, í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um aðstæður í landinu, en að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi geti leitað sér heilbrigðisþjónustu við hæfi þar í landi. Að mati kærunefndar bera gögn málsins, þ. á m. upplýsingar í samskiptaseðlum frá göngudeild sóttvarna, ekki með sér að heilsufar kæranda sé með þeim hætti að framkvæmd vegna synjunar á að taka umsókn hans til efnismeðferðar hér á landi hafi í för með sér verulegar eða óafturkræfar afleiðingar fyrir heilsufar hans. Að mati kærunefndar bera gögn málsins ekki með sér að kærandi glími við mikil og alvarleg veikinda, sbr. viðmið í 2. mgr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Heilsufar kæranda sé ekki svo einstaklingsbundið og sérstakt að ekki verði framhjá því litið, sbr. 3. mgr. 32. gr. a. reglugerðar um útlendinga. Þá kemur fram í framangreindum gögnum að skimun á einstaklingum í viðkvæmri stöðu sé á frumstigi umsóknarferlis í Belgíu og sé þeim komið fyrir í viðeigandi úrræði í málsmeðferðinni.

Auk þess verður ekki séð af framangreindum gögnum að samkynhneigðum einstaklingum sé mismunað á kerfisbundinn hátt í Belgíu, landið standi framarlega þegar kemur að réttindum samkynhneigðra. Að mati kærunefndar benda gögn málsins ekki til þess að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, sbr. viðmið í 2. mgr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga.  Að öðru leyti séu aðstæður hans ekki svo einstaklingsbundnar og sérstakar að rétt sé að taka umsókn hans til efnismeðferðar.

Í ljósi aðstæðna í Belgíu og að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda, er það niðurstaða kærunefndar að ekki séu fyrir hendi slíkar sérstakar ástæður sem mæli með því að mál kæranda verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 9. nóvember 2017 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 12. september 2017.

Reglur stjórnsýsluréttar – athugasemdir kæranda við málsmeðferð Útlendingastofnunar

Til stuðnings varakröfu kæranda vísar kærandi m.a. til þess að rannsókn málsins hafi ekki verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Telur kærandi að ekkert í málsgögnum bendi til þess að Útlendingastofnun hafi gefið sér tíma m.a. til þess að afla nauðsynlegra gagna og upplýsinga um ástand andlegrar heilsu hans.

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga.

Af ákvörðun Útlendingastofnunar verður ráðið að við meðferð máls kæranda hjá stofnuninni lágu m.a. fyrir komunótur frá göngudeild sóttvarna, dags. 21. september 2017 til 27. nóvember 2017 . Auk þess var kærandi, í viðtali hjá stofnuninni, spurður um heilsufar sitt, hann var spurður um atburði sem áhrif hefðu haft á heilsu hans, honum var leiðbeint um þýðingu þess að leggja fram læknisfræðileg gögn og honum var veittur frestur til þess að leggja fram slík gögn. Þann 24. janúar 2018 var talsmanni kæranda þá boðið að skila inn frekari gögnum í málinu. Frekari gögn voru ekki lögð fram hjá Útlendingastofnun af hálfu kæranda, og virðist því sem ekki hafi verið lögð fram gögn um heilsufar kæranda eftir 28. nóvember 2017, þ.e. einungis ofangreindar komunótur frá göngudeild sóttvarna dags. 21. september 2017 til 27. nóvember 2017 hafi legið fyrir. Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að kæranda var leiðbeint um að leggja fram frekari læknisfræðileg gögn og veittur frestur til þess en að kærandi brást ekki við þeim áskorunum.

Á grundvelli þeirra gagna hafi legið fyrir að kærandi hafi verið greindur með þunglyndi ásamt því að hann hafi skorað hátt á skema fyrir áfallastreituröskun. Það er mat kærunefndar, í ljósi þeirra heilsufarsupplýsinga sem lágu fyrir við töku ákvörðunar í málinu og þeirra leiðbeininga sem kæranda voru veittar, að stofnuninni hafi ekki borið að afla frekari gagna þar um. Líkt og að ofan greinir gerir kærunefnd hins vegar athugasemd við að Útlendingastofnun hafi gefið í skyn að kærandi hafi verið tvísaga í framburði sínum varðandi andlega heilsu sína. Kærunefnd áréttar að framburðir einstaklinga um andlega heilsu þeirra geti eðli máls samkvæmt tekið breytingum þar sem þeir séu misjafnlega í stakk búnir til að opna á fortíð sína og greina frá andlegum erfiðleikum í kjölfar áfalla.

Þá gerir kærunefnd einnig athugasemd við að Útlendingastofnun hafi notast við eldri túlkun á ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga í ákvörðun sinni. Ákvörðun stofnunarinnar sé jafnframt dagsett þann 8. desember 2017 en augljóst sé af gögnum málsins, m.a. tölvupóstum, að unnið hafi verið í málinu í framhaldinu og ákveðin gagnaöflun hafi átt sér stað varðandi atriði sem skipt gætu máli varðandi efnislega niðurstöðu í málinu. Þá hafi ákvörðun í málinu ekki verið birt kæranda fyrr en 6. febrúar 2018. Gerir kærunefnd því athugasemd við vinnubrögð Útlendingarstofnunar að þessu leyti.

Meginmarkmið með stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Eins og að framan greinir telur kærunefnd að annmarkar hafi verið á rökstuðningi ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda. Í ljósi niðurstöðu kærunefndar í máli kæranda telur kærunefnd ljóst að framangreindir annmarkar hafi ekki haft áhrif á efnislega niðurstöðu ákvörðunar Útlendingastofnunar. Með hliðsjón af því telur kærunefnd að þessi ágalli sé ekki svo verulegur að fella beri ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi.

Athugasemdir kærunefndar við málsmeðferð Útlendingastofnunar

[…].

Samantekt

Í máli þessu hafa belgísk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Belgíu með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

 

Erna Kristín Blöndal                                                                                       Þorbjörg Inga Jónsdóttir

 

                                                                                             

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum