Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2011 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Umræða utan dagskrár á Alþingi um veggjöld og samgönguframkvæmdir

Veggjöld og samgönguframkvæmdir komu til umræðu utan dagskrár á Alþingi í dag. Málshefjandi var Jón Gunnarsson, þingmaður í Suðvesturkjördæmi, og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra var til svara.

Rætt var um samgönguframkvæmdir og veggjöld á Alþingi í dag.
Rætt var um samgönguframkvæmdir og veggjöld á Alþingi í dag.

Jón Gunnarsson hóf mál sitt á að rifja upp að við efnahagshrunið hefði vegaframkvæmdum verið frestað og margir misst atvinnu í þeirri atvinnugrein sem sinnir vegagerð. Hann sagði vegaframkvæmdir með arðbærustu framkvæmdum og spurði innanríkisráðherra hvað liði útboðum og væntanlegum framkvæmdum sem meðal annars hefðu verið boðaðar í átaki ríkisstjórnar um ýmsar framkvæmdir. Hvatti hann til þess að verkefni yrðu boðin út, þau fjármögnuð með skuldabréfaútboði og síðan rætt í framhaldinu hvernig ætti að skattleggja fyrir þeim.

Ögmundur Jónasson minnti á að Alþingi hefði á síðasta ári samþykkt ákveðnar flýtiframkvæmdir, þ.e. að koma af stað ákveðnum verkefnum á suðvesturhorni landsins með fjármögnun frá lífeyrissjóðum og greiða þær niður með veggjöldum. Á sama hátt hefði verið ákveðin leið veggjalda varðandi Vaðlaheiðargöng og yrði senn stofnað félag um það verkefni enda samstaða um það samkvæmt fundi sem ráðherra hélt í lok janúar með sveitarstjórnarmönnum og þingmönnum svæðisins. Ögmundur sagði ekki hafa verið blásin út af borðinu áform um vegaframkvæmdir á Suðvesturlandi en að í þær yrði aðeins ráðist á þeim forsendum sem Alþingi ákvað, með ákveðinni lántöku og veggjöldum. Hann sagðist reiðubúinn að endurskoða hugmyndir um hvort leggja ætti 2+2 eða 2+1 vegi og sagði að ákvörðun um veggjöldin sjálf réðist af því hver fjármagnskostnaður yrði og af framkvæmdatíma. Í lokin minnti hann á að meta þyrfti hvar mest væri þörfin fyrir samgönguframkvæmdir og kvaðst hann horfa til Vestfjarða í því sambandi, þar væri mest þörfin.

Aðrir þingmenn sem tóku þátt í umræðunni voru Guðmundur Steingrímsson, Kristján L. Möller, Margrét Tryggvadóttir, Ásbjörn Óttarsson, Björn Valur Gíslason, Sigurður Ingi Jóhannsson, Mörður Árnason og Þór Saari. Töldu nokkrir þingmanna að þegar væri búið að leggja á veggjöld og aðra skatta á bifreiðaeigendur og væri nóg að gert í þeim efnum. Aðrir þeirra sem tóku til máls sögðu að veggjaldaleiðin hefði verið ákveðin varðandi tilteknar framkvæmdir á suðvesturhorni landsins og annað stæði ekki til þar sem hefðbundin fjármögnun myndi ekki leyfa nema takmarkaðar upphæðir mörg næstu ár.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira