Hoppa yfir valmynd
24. september 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 315/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 24. september 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 315/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20080007

 

Beiðni […] og barns hennar um endurupptöku

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

Þann 2. júlí 2020 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 3. desember 2019, um að synja […], fd. […], ríkisborgara Nígeríu um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 6. júlí 2020. Þann 13. júlí 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa. Þann 13. ágúst 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda og barns hennar, […], um endurupptöku. Kærunefnd bárust viðbótargögn frá kæranda þann 24. ágúst 2020. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 10. september 2020 ásamt talsmanni sínum.Beiðni kæranda um endurupptöku á máli hennar er reist á grundvelli 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem hún telur að ákvörðun í máli sínu hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, auk þess sem að atvik hafi breyst verulega frá því úrskurður kærunefndar var kveðinn upp.

Í greinargerð kæranda kemur fram að þann […] hafi kærandi eignast dreng, […], með fyrrum sambýlismanni sínum, […], ríkisborgara Gana. Þann 4. ágúst 2020 hafi kærandi leitað til lögreglu og tilkynnt um hvarf sambýlismanns hennar. Lögreglan hafi rannsakað málið og þann 12. ágúst 2020 hafi verið bornar myndir fyrir kæranda af sambýlismanni hennar þar sem hann hafi sést á öryggismyndavél á Keflavíkurflugvelli. Ljóst sé að kærandi hafi yfirgefið landið og því sé kærandi nú einstæð móðir með ungt barn. Með vísan til þess sé ljóst að aðstæður kæranda hafi breyst frá því að kærunefnd hafi kveðið upp úrskurð sinn í máli kæranda þann 2. júlí 2020.

Kærandi telur jafnframt að þar sem málsmeðferð stjórnvalda í máli hennar hafi tekið um 17 mánuði eigi reglugerð nr. 122/2020, um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, við um mál hennar. Samkvæmt reglugerðinni sé heimilt að veita barni, sem sótt hafi um vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 16 mánaða frá því að það hafi fyrst sótt um alþjóðlega vernd hér á landi, dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Barn kæranda sé nú meira en [...] gamalt og meðgangan hafi tekið um níu mánuði. Því megi færa rök fyrir því að barnið hafi verið getið fyrir meira en 16 mánuðum síðan og umsókn fjölskyldunnar hafi frá upphafi verið byggð á þeim forsendum að kærandi hafi verið þunguð. Þannig sé um að ræða umsókn sem snúi að barni, beint eða óbeint, og fjallað hafi verið um hagsmuni þess á báðum stjórnsýslustigum. Því telji kærandi að framangreind reglugerð eigi við um umsókn hennar um alþjóðlega vernd. Í ljósi framangreinds telji kærandi að ákvörðun kærunefndar hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum sem nú liggi fyrir, sem og að framangreindar upplýsingar feli í sér breyttar aðstæður þar sem kærandi sé nú einstæð móðir með ungt barn. Skilyrði 1. mgr. 24. gr. um endurupptöku séu því uppfyllt.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Um endurupptöku stjórnsýslumáls

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Kærandi byggir beiðni um endurupptöku á því að úrskurður í máli hennar hafi verið byggður á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun hafi verið tekin og er í því sambandi vísað til stöðu kæranda sem einstæðrar móður, en sambýlismaður kæranda hafi farið frá henni og barni þeirra. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hafi hann farið til Spánar.

Í úrskurði kærunefndar, dags. 2. júlí 2020, grundvallaðist mat á félagslegum aðstæðum kæranda við endurkomu til Nígeríu m.a. á því að sambýlismaður hennar gæti fylgt henni og barni þeirra til heimaríkis kæranda. Var þar vísað til þess að kærandi og sambýlismaður hennar væru trúlofuð og að ekkert benti til annars en að sambýlismaður hennar gæti fengið dvalarleyfi í heimaríki kæranda á grundvelli hjúskapar þeirra. Endurupptökubeiðni kæranda grundvallast á því að sambýlismaður hennar sé nú horfinn og staða hennar sé því breytt. Það er mat kærunefndar að framangreindar upplýsingar um aðstæður kæranda séu þess eðlis að líta verði svo á að atvik málsins hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin. Horfir kærunefnd til þess að staða kæranda sé m.a. breytt að því leyti að kæmi til þess að kæranda yrði snúið aftur til Nígeríu myndi hún ekki njóta stuðnings sambýlismanns síns þar.

Kærunefnd fellst því á beiðni kæranda um endurupptöku málsins á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Með vísan til þess er, að mati kærunefndar, ekki tilefni til umfjöllunar um aðrar málsástæður kæranda.

Landaupplýsingar

Til viðbótar við skýrslur sem vitnað var til í úrskurði kærunefndar útlendingamála frá 2. júlí 2020 hefur kærunefnd lagt mat á aðstæður í Nígeríu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Country Policy and Information Note – Nigeria: Medical and Healthcare issues (U.K. Home Office, janúar 2020);
  • Country Policy and Information Note – Nigeria: Trafficking of women (U.K. Home Office, 4. júlí 2019);
  • Country Information and Guidance – Nigeria – Women fearing gender-based harm or vio-lence (U.K. Home Office, ágúst 2016);
  • Gender in Nigeria Report 2012 – Improving the lives of girls and women in Nigeria (British Council Nigeria, 2012);
  • EASO – Country of Origin Information Report – Nigeria – Sex trafficking of women (Europe-an Asylum Support Office, október 2015);
  • Information on trafficking including, situation for returnees of previous trafficking and risk og re-trafficking (Refugee Documentation Centre, RDC, Legal Aid Board, 17. júní 2019);
  • Nigeria 2019 Human Rights Report (U.S. Department of State, 11. mars 2020);
  • Nigeria: Kvinner og intern migrasjon (Landinfo, 17. ágúst 2010);
  • Nigeria: Returforhold for kvinner som har arbeidet i prostitusjon i Europa (Landinfo, 20. mars 2017)
  • Nigeria: Whether women who head their own households, without male or family support, can obtain housing and employment in large northern cities, such as Kano, Maiduguri, and Kaduna,and southern cities, such as Lagos, Ibadan, Port Harcourt; government support services available to female-headed households (Immigration and Refugee Board of Canada, 19. nóvember 2012) og
  • 2020 Trafficking in Persons Report: Nigeria (U.S. Department of State, 25. júní 2020).

Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá því í júlí 2019 kemur fram að Nígería sé upprunaland, viðkomustaður og áfangastaður mansals og nauðungarvinnu. Flestir þolendur mansals komi frá borginni Benín í Edo fylki. Fram kemur að nígerísk stjórnvöld uppfylli ekki enn lágmarksviðmið ríkja vegna baráttu gegn mansali en hafi þó tekið mikilvæg skref til að auka vernd borgara sinna og koma í veg fyrir mansal. Gerðar hafi verið ýmsar stefnubreytingar í þessum málum og sérstök löggjöf sett til að koma í veg fyrir, uppræta og refsa fyrir mansal. Þá hafi stjórnvöld, í samvinnu við alþjóðleg samtök og önnur ríki, þjálfað lögreglulið landsins, starfsmenn ríkisins og stofnanir til að gera þeim betur kleift að rannsaka, sækja til saka og sakfella gerendur mansals. Árið 2003 hafi tekið gildi lög sem komu stofnuninni NAPTIP (e. the National Agency for the Prohibition of Traffic in Persons and Other Related Matters) á laggirnar. Markmið NAPTIP sé að vekja athygli á málefninu, fræða þjóðina og með þeim hætti að reyna að koma í veg fyrir frekara mansal, vernda þolendur mansals ásamt því að sækja gerendur til saka. Einnig hafi verið samþykkt sérstök lög gegn mansali árið 2015 en þau hafi gert það refsivert að stunda mansal og mæli fyrir um að lágmarks fangelsisvist fyrir mansal skuli vera fimm ár en sjö ár í tilvikum þar sem þolendur séu börn. Starf NAPTIP felist m.a. í því að aðstoða þolendur mansals með því að veita þeim skjól, ráðgjöf, hafa uppi á fjölskyldumeðlimum þeirra, aðstoða við heimkomu og aðlögun að samfélaginu á ný. Samkvæmt skýrslu Landinfo hafi NAPTIP þekkingu og reynslu af því að sinna þolendum mansals sem eigi börn. NAPTIP hafi til umráða húsnæði fyrir þolendur mansals í borgunum Abuja, Lagos, Benín, Uyo, Enugu, Kano, Sokoto, Maiduguri, Osogbo og Markudi. Þá komi fram í skýrslu frá EASO að dvöl í húsnæði NAPTIP sé ekki langtímalausn og dvelji þolendur þar í um tvær til sex vikur. NAPTIP hafi unnið með frjálsum félagasamtökum sem geti útvegað þolendum mansals langtímahúsnæði og andlegan stuðning. Þá verði konur sem dvelji hjá NAPTIP í einhverjum tilvikum fyrir aðkasti í samfélaginu þar sem gert sé ráð fyrir að þær hafi unnið við vændi erlendis. Af þeim sökum hafi NAPTIP reynt að senda konur eins fljótt og verða megi til fjölskyldu sinnar eða í annað húsnæði. Skortur á fjármagni takmarki getu NAPTIP og frjálsra félagasamtaka við að aðstoða þolendur mansals við að aðlagast samfélaginu og standa á eigin fótum. Nígerísk yfirvöld hafi komið til móts við umræddan fjárskort hjá NAPTIP og veitt þolendum mansals fjárstyrk sem aðstoði við aðlögun að samfélaginu.

Í skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna sem gefin var út í mars sl. kemur fram að þótt konur og karlar njóti sömu réttinda samkvæmt stjórnarskrá Nígeríu sé raunin ekki alltaf sú og ógiftar konur eigi sérstaklega undir högg að sækja. Konur verði fyrir margskonar mismunum þegar komi að efnahagslegum réttindum, en til að mynda tryggi lög konum ekki jöfn laun og körlum fyrir sambærileg störf. Auk þess sé mismunun byggð á kyni ekki óheimil við ráðningu í störf. Þá sé venjan sú að konur geti ekki eignast land nema í gegnum eiginmann sinn eða fjölskyldu. Venjan sé jafnframt sú í mörgum tilfellum að konur erfi ekki eiginmenn sína og sitji þá uppi allslausar við fráfall þeirra. Þá er kynbundið ofbeldi gagnvart konum útbreitt vandamál í Nígeríu og eru ógiftar konur enn líklegri til þess að verða fyrir ofbeldi. Það sé engin alhliða löggjöf sem verndi konur gegn kynbundnu ofbeldi í Nígeríu en einhver fylki, aðallega í suðurhluta Nígeríu, séu með löggjöf sem eigi að veita vernd gegn tilteknu kynbundnu ofbeldi.

Í skýrslu sérstaks skýrslugjafa Sameinuðu þjóðanna um mansal frá apríl 2019 kemur fram að í ágúst 2017 hafi í Edo fylki verið sett á fót sérstakt aðgerðarteymi gegn mansali (e. Edo State task force against human trafficking (ETAHT)) sem leitt sé af dómsmálaráðherra fylkisins (e. State Attorney-General and Commissioner of Justice). Megin verkefni aðgerðarteymisins séu rannsókn og saksókn í mansalsmálum, forvarnir og vitundarvakning, aðstoð við þolendur með því að bjóða sálfræðiaðstoð, skammtíma og langtíma húsnæði, kennslu og þjálfun í iðngreinum og stuðningur og aðstoð við aðlögun þolenda sem snúa aftur heim. Þá vilji teymið vinna að því að uppræta rót vandans sem birtist í mansali og kynjamisrétti. Aðgerðarteymið sé byggt á þörfinni til að styrkja aðgerðir stjórnvalda og félagasamtaka í baráttunni gegn mansali í Nígeríu og nú hafi einnig verið komið á fót slíkum teymum í öðrum fylkjum s.s. Ondo, Delta og Ekiti í samstarfi við UNODC og NAPTIP. Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá því í júlí 2019 kemur þá fram að þolendur mansals séu líklegri til þess að sæta endurteknu mansali heldur en að sæta líkamlegu ofbeldi í hefndaraðgerðum þeirra aðila sem staðið hafi að baki mansalinu. Þó kemur fram í skýrslu EASO frá 2015 að lögreglan í ríkinu hafi almennt getu til þess að aðstoða þolendur mansals, jafnvel þótt þolendur standi enn í skuld við smyglarann sinn.

Samkvæmt skýrslu Landinfo frá 2010 er algengt að þegar Nígeríubúar flytji innanlands í Nígeríu velji þeir stað þar sem þeir eigi fyrir tengslanet, sérstaklega ættingja. Nígeríubúar beri miklar væntingar til ættingja sinna, þ.e. væntingar til þess að ættingjarnir muni halda þeim uppi ef aðstæður þeirra versni. Slík krafa nái ekki bara til nánustu ættingja heldur einnig þeirra sem séu fjarskyldari viðkomandi. Einstæðar nígerískar konur flytjist búferlum í meira mæli en áður og þá kjósi þær oftast að flytja til staða þar sem þær hafa eitthvert tengslanet, þannig að þær geti fengið aðstoð við að finna sér vinnu og heimili. Þá mæti konur stærri hindrunum en karlmenn þurfi þær að hefja nýtt líf á nýjum stað, þar sem þær hafi ekki stuðning frá eða tilheyri fjölskyldu. Konur sem búi einar séu álitnar viðkvæmari fyrir óumbeðnum afskiptum karlmanna og fyrir glæpum. Þar af leiðandi vilji konur venjulega, í meira mæli en karlmenn, reyna að búa hjá fólki sem þær þekki til, og helst þar sem karlmaður sé á heimilinu. Það sé þó ekki óalgengt að konur búi einar hvort sem þær kjósi að gera það eða að aðstæður þeirra krefjist þess.

Í framangreindum gögnum kemur fram að ekki sé endilega meiri erfiðleikum bundið fyrir einstæðar konur að sinna uppeldi barna sinna en fyrir konur í sambúð með karlmanni. Karlmenn taki almennt lítinn þátt í uppeldi og umönnun barna sinna, þó þeir séu atvinnulausir og móðir barnsins í fullri vinnu. Oftast taki móðirin barnið með sér til vinnu fram að fimm ára aldri þess, eða fái hjálp frá eldri dóttur eða konum í sínu tengslaneti (systrum, frænkum, vinkonum, nágrönnum sem hún á í góðu sambandi við o.s.frv.) til skemmri eða lengri tíma. Leikskólar þekkist varla í Nígeríu og séu þeir til staðar sé það aðeins á færi þeirra ríku að senda börnin sín í slíka skóla.

Ákvæði 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í úrskurði kærunefndar útlendingamála í máli kæranda og barns hennar frá 2. júlí 2020 byggði kærandi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún sé þolandi mansals og skuldi enn þeim sem hafi neytt hana í vændi á Ítalíu. Hún óttist mann í Nígeríu sem hafi ítrekað beitt hana ofbeldi og reynt að þvinga hana til að giftast sér. Þá eigi hún ekki bakland í heimaríki. Að mati kærunefndar hafa þau gögn sem kærandi hefur lagt fram hjá kærunefnd um stöðu hennar sem einstæðrar móður, og skýrslur sem gefnar hafa verið út frá því að úrskurður kærunefndar var kveðinn upp, ekki breytt fyrra mati kærunefndar á þeim þáttum sem máli skipta vegna umsóknar um alþjóðlega vernd. Kærunefnd telur því að kærandi og barn hennar hafi ekki ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Við þetta mat hefur kærunefnd, í samræmi við 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og með vísan til framangreindrar umfjöllunar um félagslegan stuðning í Nígeríu, litið sérstaklega til hagsmuna barns kæranda, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska.

Þá er ekkert fram komið í málinu og þeim gögnum sem liggja fyrir um heimaríki kæranda sem bendir til þess að aðstæður kæranda og barns hennar þar falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi og barn hennar uppfylli ekki skilyrði 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við 74. gr. frumvarps til laga um útlendinga kemur fram að í samræmi við ákvæði alþjóðlegra skuldbindinga og almennra laga sé lagt til að tekið sé sérstakt tillit til barna, hvort sem um er að ræða fylgdarlaus börn eða önnur börn. Í því ljósi og með hliðsjón af meginreglunni um að það sem barni er fyrir bestu skuli hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess, sbr. jafnframt 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga nr. 80/2016, telur kærunefnd að við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. 74. gr. laganna séu fyrir hendi skuli taka sérstakt tillit til þess ef um barn er að ræða og skuli það sem er barni fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum sé aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hún þjáist m.a. af svefntruflunum og kvíða. Þá lágu fyrir ýmis gögn við meðferð máls kæranda um andlega heilsu hennar. Kærandi hefur verið í sálfræðimeðferð hér á landi og þann 30. janúar 2020 óskaði kærunefnd eftir því að fram færi sálfræðimat á kæranda. Niðurstöður sálfræðimatsins, dags. 21. mars 2020, voru þær að kærandi hafi uppfyllt greiningarskilmerki áfallastreituröskunar, alvarlegrar geðlægðar og kvíða.

Til stuðnings endurupptökubeiðni kæranda var lagt fram afrit af lögregluskýrslu, dags. 7. ágúst 2020, þar sem fram kemur að kærandi hafi tilkynnt hvarf sambýlismanns síns til lögreglu. Í lögregluskýrslunni kemur m.a. fram að haft hafi verið samband við málstjóra kæranda vegna málsins sem hafi greint lögreglu frá því að kærandi hefði síðast heyrt í sambýlismanni sínum þann 4. ágúst 2020 og að hún hefði miklar áhyggjur af honum. Þá hafi kærandi m.a. tjáð málstjóra sínum að sambýlismaður hennar hafi beitt hana ofbeldi í nokkurn tíma. Þann 12. ágúst hafi kæranda, ásamt málstjóra hennar, verið sýnd mynd af sambýlismanni hennar sem tekin hafi verið á öryggismyndavél á Keflavíkurflugvelli þann 3. ágúst 2020 þar sem hann hafi verið á leið til Spánar ásamt öðrum manni sem kærandi kvaðst ekki kannast við. Í viðtali hjá kærunefnd þann 10. september 2020 kvaðst kærandi ekki hafa heyrt í sambýlismanni sínum síðan hann hafi horfið og að hún viti ekki hvar hann sé niðurkominn. Kærandi kvaðst vera reið og sár vegna málsins.

Í framangreindri lögregluskýrslu kemur fram að málstjóri kæranda hafi greint frá því að kærandi hafi verið í sálfræðimeðferð hjá Reykjavíkurborg. Kærandi hafi sennilega fengið fæðingarþunglyndi og andlegt ástand hennar hafi versnað eftir barnsburð. Þá hafi sálfræðingur kæranda að sögn málstjóra kæranda farið með kæranda á geðdeild Landspítalans til að hún fengi þar svefn og geðlyf. Í viðtali hjá kærunefnd þann 10. september 2020 greindi kærandi frá því að líkamleg og andleg heilsa hennar væri slæm. Hvarf sambýlismanns hennar hafi reynst henni erfitt og barnaverndarnefnd hafi boðist til að aðstoða hana og barn hennar. […]. Þá kvaðst kærandi vera á lyfjum sem hjálpi henni. Þá kvað hún son sinn vera hraustan en að hann fengi stundum hita og hósta.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Þá segir í athugasemdunum að með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé einnig vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Kærandi hefur lýst því að hún sé þolandi mansals og hafi ekkert bakland í heimaríki sínu.

Þær skýrslur og gögn sem kærunefnd hefur yfirfarið um heimaríki kæranda benda til þess að þrátt fyrir vilja yfirvalda til að bæta aðstæður kvenna í Nígeríu geti verið á brattann að sækja fyrir einstæðar konur þar í landi. Efnahagsleg mismunun á grundvelli kynferðis sé landlægt vandamál og mikilvægt sé að konur njóti stuðnings fjölskyldu sinnar eða maka. Einnig sé félagslega kerfið í heimaríki kæranda veikt og einstæðar konur séu útsettari fyrir ofbeldi en aðrar. Í fyrri úrskurði kærunefndar kom fram að foreldrar kæranda væru látnir og að kærandi ætti einn bróður í heimaríki sem væri alvarlega veikur og frænku sem gæti ekki stutt við kæranda og barn hennar. Þá kvaðst kærandi ekki eiga aðra ættingja í heimaríki sem gætu stutt við hana og barn hennar snúi hún til baka til Nígeríu. Kærandi er stödd hér á landi einsömul ásamt ungu barni sínu, sem fæddist hér á landi. Þrátt fyrir að kæranda og barni hennar standi til boða fjárhagsaðstoð og félagslegur stuðningur stjórnvalda í heimaríki og kærandi hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu vegna veikinda sinna þá er ljóst að sá stuðningur er ákveðnum takmörkunum háður og yfirleitt eru úrræði á borð við húsnæði og fjármagn aðeins veitt til skamms tíma. Því er mikilvægt að einstæðar mæður í Nígeríu geti notið stuðnings fjölskyldu eða vina til þess að aðstoða þær til lengri tíma og koma í veg fyrir að þær verði útsettar fyrir mansali eða annars konar misnotkun í heimaríki. Í ljósi þess að kærandi hefur takmarkað bakland í heimaríki sínu og ekki er hægt að ganga að því gefnu að hún muni njóta stuðnings sambýlismanns síns sem hefur yfirgefið landið, er það mat kærunefndar að staða barns hennar í heimaríki sé óljós m.a. með tilliti til framfærslu þess og aðgengi að húsnæði. Er það mat kærunefndar að kærandi hafi sýnt fram á að verulegar líkur séu á því að hún og barn hennar muni búa við afar bágar og erfiðar félagslegar aðstæður verði þau send til heimaríkis.

Að öllu framangreindu virtu, og með vísan til mats á hagsmunum barnsins, sbr. 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga, er það niðurstaða kærunefndar að veita beri kæranda og barni hennar dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Með tilliti til niðurstöðu málsins er beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa, dags. 13. júlí 2020, vísað frá.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda að því er varðar synjun á umsókn hennar um alþjóðlega vernd. Lagt verður fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda og barni dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð

Fallist er á beiðni kæranda og barns hennar um endurupptöku á máli þeirra. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda og barni hennar dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda varðandi umsókn hennar um alþjóðlega vernd er staðfest.

The appellant‘s and her child’s request for re-examination of their cases is granted.The Directorate of Immigration is instructed to issue residence permits for the appellant and her child based on Paragraph 1 of Article 74 of the Act on Foreigners. The decision of the Directorate of Immigration in the case of the appellant related to her applications for international protection is affirmed.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                  Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum