Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 528/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 7. nóvember 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 528/2019

í stjórnsýslumálum nr. KNU19090017 og KNU19090018

Kæra […],

[…] og barna þeirra

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 10. september 2019 kærðu einstaklingar er kveðast heita […], vera fædd […] og vera ríkisborgari […] (hér eftir K) og […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari […] (hér eftir M) ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 23. ágúst 2019, um að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir kærenda og barna þeirra, […], fd. […] (hér eftir A), […], fd. […] (hér eftir B) og […], fd. […] (hér eftir C), öll að sögn ríkisborgarar […], um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa þeim frá landinu.

Þess er krafist að hinar kærðu ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi í fyrsta lagi með vísan til sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og í öðru lagi með vísan til 3. mgr. 36. gr., sbr. 42. gr. laganna og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og bárust kærurnar fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærendur lögðu fram umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 15. febrúar 2019. Við leit að fingraförum kærenda í Eurodac gagnagrunninum, þann 7. mars 2019, kom í ljós að fingraför þeirra höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum á Möltu. Þann 11. mars 2019 var beiðni um viðtöku kærenda og umsókna þeirra um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda á Möltu, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá maltneskum yfirvöldum, dags. 12. mars 2019, synjuðu þau viðtöku kærenda þar sem þeim hefði þegar verið veitt alþjóðleg vernd á Möltu. Kærendur komu til viðtals hjá Útlendingastofnun, m.a. daganna 4. og 24. apríl 2019, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað þann 23. ágúst 2019 að taka ekki umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að þeim skyldi vísað frá landinu. Ákvarðanirnar voru birtar fyrir kærendum þann 27. ágúst 2019 og kærðu kærendur ákvarðanirnar þann 10. september 2019 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kærenda barst kærunefnd 26. september 2019 ásamt fylgigögnum. Kærunefnd barst tölvupóstur frá maltneskum stjórnvöldum þann 17. október 2019 sem var svar við erindi kærunefndar, dags. 14. október 2019. Þá bárust andmæli frá kæranda þann 21. október 2019 ásamt viðbótargögnum.

III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kom fram að kærendum hefði verið veitt alþjóðleg vernd á Möltu. Umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd yrðu því ekki teknar til efnismeðferðar, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kærenda til Möltu ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá hefðu kærendur ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að þau fengju hér vernd eða að sérstakar ástæður væru fyrir hendi þannig að taka bæri umsóknir kærenda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærendum var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldu þau flutt til Möltu.

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum barnanna A, B og C kom fram að það væri niðurstaða stofnunarinnar, með vísan til niðurstöðu í málum foreldra þeirra, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, laga um útlendinga og barnaverndarlaga nr. 80/2002, að hagsmunum þeirra væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja foreldrum sínum til Möltu.

IV. Málsástæður og rök kærenda

Í greinargerð kærenda kemur fram að þau hafi í viðtölum hjá Útlendingastofnun greint frá því að þau hafi búið við slæmar aðstæður og ótta á Möltu auk þess sem þau hafi greint frá ástæðum flótta þeirra frá heimaríki. […]. Á Möltu hafi M fyrst um sinn verið í varðhaldi og því næst fluttur í flóttamannabúðir þar í landi. M hafi fengið um 70 evru framfærslu á mánuði en í kjölfar þess að hafa hlotið alþjóðlega vernd hafi yfirvöld ekkert viljað gera fyrir hann. Honum hafi hvorki staðið til boða framfærsla né atvinna auk þess sem honum hafi verið gert að yfirgefa flóttamannabúðirnar og ekki staðið til boða annað húsnæði. Þá kemur fram í greinargerð kærenda að K hafi greint frá því að hún hafi búið í gámi við komuna til Möltu og fengið 80 evrur á mánuði í framfærslu. Þegar K hafi hlotið alþjóðlega vernd hafi hún misst framfærsluna og verið gert að sjá um sig sjálfa. Í greinargerð kærenda kemur fram að aðstæður þeirra og barnanna hafi verið slæmar og að þau hafi dvalið fimm saman í litlu herbergi í kirkju en það úrræði hafi einungis staðið þeim til boða tímabundið. Þá hafi reynst erfitt að fá íbúð á leigu sökum kostnaðar og fordóma.

Krafa kærenda er m.a. byggð á því að uppi séu sérstakar ástæður í málum þeirra, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í þeim efnum gera kærendur grein fyrir inntaki og túlkun á ákvæðinu, m.a. með hliðsjón af lögskýringargögnum. Í greinargerð kærenda kemur fram að börn séu almennt sérstaklega viðkvæmur hópur umsækjenda um alþjóðlega vernd og sé íslenskum stjórnvöldum skylt að hafa það sem er barni fyrir bestu í forgangi þegar teknar séu ákvarðanir um málefni þess, sbr. 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 og 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013. Þá kemur fram að sonur kærenda, C, hafi gengist undir ýmsar heilbrigðisskoðanir frá komu sinni hingað til lands sem gefi til kynna að hann glími við heilsufarsvanda sem afar mikilvægt sé að hann fái fullnægjandi meðferð við. […]. Það er mat kærenda að það þjóni ekki hagsmunum barnanna að vera send aftur til viðtökuríkis þar sem þeirra bíði ekkert annað en öryggisleysi og óvissa. Þá sé óvíst hvort kærendur og sér í lagi C muni hljóta fullnægjandi læknisþjónustu í viðtökuríki. Kærendur kveði að fjölskyldan sé öll í sérstaklega viðkvæmri stöðu m.a. vegna veikinda C. Þá vísa kærendur til nýlegs úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 424/2019 frá 12. september 2019 þar sem umsóknir fjölskyldu með alþjóðlega vernd í Grikklandi hafi verið teknar til efnismeðferðar á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga m.a. vegna alvarlegra veikinda […] drengs og kærendur telja að aðstæður þeirra svipi mjög til aðstæðna fjölskyldunnar í framangreindum úrskurði. Því sé ljóst að íslenskum stjórnvöldum beri að taka mál þeirra til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli sérstakra ástæðna enda verði vart um það deilt að kærendur muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki auk þess sem þau muni verða fyrir alvarlegri mismunun þar í landi, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Réttarstaða barna kærenda

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og að tekið sé tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni. Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga kemur m.a. fram að sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra skal það almennt viðurkennt að hagsmunum barns sé best borgið með því að tryggja fjölskylduna sem heild og rétt hennar til að vera saman.

Kærunefnd hefur farið yfir gögn í málum A, B og C, m.a. framlögð heilsufarsgögn. Það er mat nefndarinnar að allt bendi til þess að hagsmunum A, B og C sé best borgið með því að tryggja rétt fjölskyldunnar til að vera saman og að réttarstaða A, B og C verði ákvörðuð í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Börnin A, B og C eru í fylgd foreldra sinna og verður því tekin afstaða til mála fjölskyldunnar í einum úrskurði.

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málanna var kærendum og börnum þeirra veitt viðbótarvernd á Möltu og er hún í gildi þar í landi fyrir K og C til 23. febrúar 2020 og fyrir M, A og B til 27. júlí 2020. Samkvæmt upplýsingum frá maltneskum yfirvöldum, sem bárust kærunefnd þann 17. október sl., liggur fyrir að dvalarleyfi C hafi runnið út þann 2. júní 2019 og þá liggur fyrir að dvalarleyfi M og B eru í gildi til 27. júlí 2020. Þrátt fyrir að ekkert liggi fyrir um hvort dvalarleyfi annarra fjölskyldumeðlima sé enn í gildi þá er það mat kærunefndar að sú vernd sem kærendur og börn þeirra njóta á Möltu feli í sér virka alþjóðlega vernd í skilningi a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda kemur fram í framangreindum upplýsingum frá maltneskum yfirvöldum að viðbótarverndin sé í gildi fram á næsta ár.

Einstaklingsbundnar aðstæður kærenda

Kærendur eru par […] með þrjú börn […]. Í gögnum um heilsufar M kemur fram að hann sé almennt við góða andlega og líkamlega heilsu. […]. Meðal gagna málsins er bréf frá sálfræðingi teymis Reykjavíkurborgar fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd , dags. 16. júlí 2019, þar sem fram komi að K sé við bága andlega heilsu. […]. Þá er ljóst af gögnum málsins að börnin A og B séu almennt við góða líkamlega og andlega heilsu.

Í gögnum um heilsufar C kemur fram að hann glími við […] og sé einnig með […]. Fram kemur í meðferðarseðli barnalækningadeildar Landspítalans, frá 3. september 2019, að C hafi undirgengist segulómun vegna framangreinds. […]. Kemur þá fram að aðgerð vegna […] yrði fyrirhuguð á næstu einum til þremur mánuðum […]. […]. Þá kemur fram það mat læknisins að C muni þurfa að vera undir eftirliti lækna næstu árin vegna þessa, […]. Segir enn fremur í bréfi læknisins að gangi allt að óskum með skurðaðgerð verði fyrst og fremst um eftirlit lækna að ræða en þó geti það haft varanlegar afleiðingar fyrir C fái hann ekki þá meðferð og það eftirlit sem vandamál hans krefjist.

Að mati kærunefndar er ljóst, m.a. með vísan til fyrirliggjandi heilsufarsgagna um K og C og með vísan til ungs aldurs C og þjónustuþarfar hans, að fjölskyldan öll hafi sérþarfir sem taka þurfi tillit til við meðferð málsins, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður á Möltu

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður á Möltu, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • Asylum Information Database, Country Report: Malta (European Council on Refugees and Exiles, 11. mars 2019),
  • Malta 2018 Human Rights Report (United States Department of State, 13. mars 2019),
  • Submission by the United Nations High Commissioner for Refugees. For the Office of the High Commissioner for Human Rights‘ Compilation Report Universal Periodic Review: Malta (UN High Commissioner for Refugees (UNHCR), júlí 2018),
  • Freedom in the World 2019 – Malta (Freedom House, 2019),
  • Progress Report 2018: A Global Strategy to Support Governments to End the Detention of Asylum seekers & Refugees, 2014-2019 (UN High Commissioner for Refugees (UNCHR), febrúar 2019),
  • ECRI Report on Malta (fifth monitoring cycle) (European Commission against Racism and Intolerance, 15. maí 2018),
  • Amnesty International Report 2017/18 - Malta (Amnesty International, 22. febrúar 2018),
  • National Report on Hate Speech and Hate Crime in Malta 2016 (E-More Project, nóvember 2016),
  • National Action Plan Against Racism and Xenophobia (Equality Research Consortium, 2010),
  • Upplýsingar af vefsíðum maltneskra yfirvalda: https://deputyprimeminister.gov.mt/en/cbhc/Pages/Entitlement/Health-Entitlement-to-RefugeesMigrants.aspx, www.socialsecurity.gov.mt, www.housingauthority.gov.mt, http://www.justiceservices.gov.mt/DownloadDocument.aspx?app=lom&itemid=10663&l=1,
  • Upplýsingar af vefsíðu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna: http://www.unhcr.org.mt,
  • Upplýsingar af vefgátt um evrópsk réttarkerfi (e. European e-Justice Portal): https://e-justice.europa.eu,
  • Upplýsingar af vefsíðu félagasamtakanna Victim Support: victimsupport.org.mt,
  • Upplýsingar af vefsíðu IPCAN (e. Independent Police Complaints Authorities Network): www.ipcan.org og
  • Upplýsingar af vefsíðum Report Racism Malta og Reporting Hate: www.reportracism-malta.org og reportinghate.eu.

Í skýrslu Asylum Information Database kemur m.a. fram að flóttamenn og einstaklingar með viðbótarvernd (e. subsidiary protection) á Möltu fái útgefin endurnýjanleg dvalarleyfi til þriggja ára í senn. Að framkominni beiðni sé að jafnaði fallist á endurnýjun slíkra dvalarleyfa. Í framkvæmd sé útgáfa og endurnýjun dvalarleyfa þó erfiðleikum bundin, m.a. vegna skorts á aðgengi að upplýsingum, tafa við vinnslu umsókna, íþyngjandi krafna og neikvæðra viðhorfa opinberra starfsmanna í garð einstaklinga með alþjóðlega vernd á Möltu. Upplýsingar séu ekki alltaf settar fram á tungumáli sem aðilar skilji og þá þurfi umsækjendur um endurnýjun dvalarleyfis m.a. að leggja fram sönnun um núverandi dvalarstað, s.s. leigusamning og afrit af persónuskilríkjum leigusala. Útgáfa varanlegra dvalarleyfa sætir ströngum skilyrðum á Möltu svo og veiting ríkisborgararéttar. Í skýrslu Asylum Information Database kemur fram að þótt yfirvöld veiti umsækjendum um endurnýjun dvalarskírteinis skriflega staðfestingu á að umsóknin sé til meðferðar hefur slík staðfesting ekkert formlegt gildi. Í reynd eiga einstaklingar með alþjóðlega vernd sem ekki eru handhafar gildra dvalarskírteina á hættu að geta ekki nálgast grunnþjónustu þar í landi.

Þá er flóttamönnum og einstaklingum með viðbótarvernd almennt heimilt að dvelja um eitt ár í móttökumiðstöðvum en í framkvæmd er þeim mögulegt að dvelja þar lengur að framlagðri beiðni. Beiðnirnar eru metnar í hverju tilviki fyrir sig af stofnun um velferð umsækjenda um alþjóðlega vernd (e. Agency for the Welfare of Asylum Seekers). Þegar réttur til dvalar í móttökumiðstöð hefur verið fullnýttur framkvæmir félagsráðgjafi mat á aðstæðum aðila og reynir að beina þeim inn í félagslega kerfið. Rannsóknir meðal innflytjenda á Möltu hafa þó leitt í ljós að margir þeirra standa frammi fyrir húsnæðisvanda.

Flóttamenn á Möltu hafa aðgang að vinnumarkaðnum undir sömu skilyrðum og maltneskir ríkisborgarar. Einstaklingar með viðbótarvernd á Möltu hafa einnig aðgang að vinnumarkaðnum en atvinnuþátttaka þeirra kann þó að sæta takmörkunum þegar kemur að tilteknum starfsgreinum, svo sem lögreglustörfum og störfum á vegum maltneska hersins. Þá eiga einstaklingar með viðbótarvernd á Möltu rétt á félagslegri aðstoð til grunnframfærslu en aðgangur þeirra að atvinnuleysistryggingum og lífeyri sætir takmörkunum að einhverju leyti. Handhafar viðbótarverndar njóta jafnframt grunnheilbrigðisþjónustu.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga koma fram sérviðmið er varða börn og ungmenni. Þar segir m.a. að við mat á því hvort taka skuli umsókn til efnismeðferðar vegna sérstakra ástæðna skuli hagsmunir barnsins hafðir að leiðarljósi.

Af gögnum málsins er ljóst að C þjáist af […]. Það er mat læknis hér á landi að C þurfi að gangast undir aðgerð á næstu einum til þrem mánuðum vegna þessa […]. Fari svo að aðgerðin skili ekki tilætluðum árangri er áformuð önnur aðgerð til að ráða bót á […]. Þá séu líkur til þess að hann þurfi að gangast undir aðra aðgerð í kjölfarið vegna […]. Þá kemur fram í gögnum málsins að C muni þurfa að vera undir eftirliti lækna næstu árin vegna framangreindra aðgerða. Í ljósi framangreinds telur kærunefnd að fyrir hendi sé ástæða er varðar heilsufar C sem sé svo einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði framhjá henni litið. Hefur heilsufar C því vægi við mat á því hvort taka beri umsókn hans til efnismeðferðar, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga.

Eins og að framan hefur verið rakið hafa einstaklingar með viðbótarvernd á Möltu ýmis réttindi þar í landi, m.a. rétt til endurgjaldslausrar grunnheilbrigðisþjónustu. Þá liggur einnig fyrir að slíka þjónustu getur í einhverjum tilvikum verið vandkvæðum bundið að sækja, m.a. vegna tungumálaerfiðleika. Kærunefnd óskaði eftir upplýsingum frá maltneskum stjórnvöldum, með tölvupósti þann 23. október 2019, um þá aðstoð sem C standi til boða við endursendingu til Möltu. Var einnig spurt um aðgengi að þeirri þjónustu með hliðsjón af því að dvalarleyfi C hafi runnið út þann 2. júní 2019 auk þess sem spurt var hvort sú heilbrigðisþjónusta sem hann þurfi á að halda myndi vera fyrir hendi kæmi til þess að verndarskírteini hans rynni út en líkt og áður hefur verið rakið er verndarskírteini C í gildi til 23. febrúar 2020. Ekkert svar barst frá maltneskum yfirvöldum.

Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndar að það sé nauðsynlegt að C fái greiðlega aðgang að heilbrigðisþjónustu vegna veikinda sinna. Að mati kærunefndar er ekki unnt að draga aðra ályktun af gögnum málsins um aðstæður á Möltu en að óvissa sé uppi um hvort C muni standa til boða sú heilbrigðisþjónusta sem hann nauðsynlega þarf á að halda verði hann endursendur til viðtökuríkis. M.a. hefur kærunefnd litið til fyrrgreindra upplýsinga um mögulegar aðgangshindranir einstaklinga með viðbótarvernd á Möltu að grunnþjónustu, þar sem dvalarleyfisskírteini C er runnið út. Telur kærunefnd því ekki unnt að fullyrða að C geti greiðlega fengið aðgang að heilbrigðisþjónustu á Möltu, en í gögnum frá sérfræðilækni kemur fram að áætlað sé að gera umrædda aðgerð á næstu einum til þremur mánuðum. Með vísan til stöðu C sem einstaklings með viðbótarvernd á Möltu og þess að hann er barn að aldri er það mat kærunefndar að það sé andstætt öryggi C, velferð hans og þroska ef umsókn hans um alþjóðlega vernd verði synjað um efnismeðferð. Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða kærunefndar að fyrir hendi séu sérstakar ástæður í máli C, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. einnig 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga og 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, og tilvitnuð ákvæði reglugerðar um útlendinga.

Að framangreindu virtu og með vísan til sjónarmiða um einingu fjölskyldunnar er það niðurstaða kærunefndar að fella úr gildi ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barna þeirra og leggja fyrir stofnunina að taka mál þeirra til efnislegrar meðferðar.  

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar útlendingamála, eins og hér stendur á, að taka beri mál kærenda og barna þeirra til efnismeðferðar hér á landi.

 

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kærenda og barna þeirra til efnismeðferðar.

The decisions of the Directorate of Immigration are vacated. The Directorate shall examine the merits of the applicant‘s and their children‘s applications for international protection in Iceland.

Áslaug Magnúsdóttir

Árni Helgason                                                                  Bjarnveig Eiríksdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum