Hoppa yfir valmynd
8. apríl 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 633/2020-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 633/2020

Fimmtudaginn 8. apríl 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 2. desember 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. október 2020, um að synja beiðni hennar um greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 26. júlí til 7. ágúst 2020.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kæranda var sagt upp störfum og fékk greiddan uppsagnarfrest til 25. júlí 2020. Með tölvupósti 20. ágúst 2020 tilkynnti kærandi Vinnumálastofnun að fyrir mistök hafi hún ekki sótt um atvinnuleysisbætur fyrr en 31. júlí 2020 og óskaði eftir greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 26. júlí til 7. ágúst 2020 en þann dag hafi hún verið endurráðin í starf sitt. Með tölvupósti Vinnumálastofnunar, dags. 3. september 2020, var kæranda greint frá því að engin umsókn hefði borist. Þann 5. september 2020 barst umsókn frá kæranda sem var samþykkt með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 24. september 2020. Með erindi, dags. 1. október 2020, fór kærandi á ný fram á greiðslu fyrir tímabilið 26. júlí til 7. ágúst 2020. Þeirri beiðni var synjað með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. október 2020.         

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 2. desember 2020. Með bréfi, dags. 4. desember 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð með erindi úrskurðarnefndar, dags. 9. febrúar 2021. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 24. febrúar 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. mars 2021, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi unnið á vinnustað sínum á tímabilinu 25. mars 2019 til 25. júlí 2020. Vegna misskilnings á vinnustaðnum hafi kærandi ekki sótt um atvinnuleysisbætur fyrr en 31. júlí 2020 í stað 26. júlí. Kærandi hafi margoft leitað til Vinnumálastofnunar til að fá dagsetningunni breytt en aldrei fengið svar. Þann 7. ágúst 2020 hafi kærandi verið endurráðin til fyrirtækisins og því hafi hún hætt við umsókn um atvinnuleysisbætur. Vegna þessara aðstæðna hafi kærandi ekki fengið nein laun á tímabilinu 26. júlí til 7. ágúst. Vinnumálastofnun hafi neitað að greiða aftur í tímann og ekki einu sinni samþykkt að greiða dagana sem hún hafi sótt um, eða 31. júlí til 7. ágúst. Stofnunin hafi vísað til þess að kærandi hafi ekki staðfest atvinnuleit en sá möguleiki hafi hvergi verið aðgengilegur á “Mínum síðum“ á vefsíðu VMST. Þar hafi komið fram að umsóknin væri óvirk. Kærandi óski eftir rannsókn á því hvort vandamál í kerfi Vinnumálastofnunar hafi komið í veg fyrir að hún fái bætur greiddar.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að mál þetta snúi að því hvort kærandi eigi rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta frá 26. júlí til 6. ágúst en kærandi hafi hafið aftur störf hjá fyrri vinnuveitanda sínum þann 7. ágúst. Í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar komi fram að launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum sé heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verði atvinnulausir. Þá segi í 1. mgr. 29. gr. laganna að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í [30 mánuði] frá þeim degi er Vinnumálastofnun hafi tekið við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögunum. Í athugasemdum við 29. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 komi fram að miðað sé við að það tímabil sem atvinnuleysisbætur séu greiddar hefjist þegar Vinnumálastofnun móttaki umsókn um atvinnuleysisbætur.

Vinnumálastofnun bendir á að það sé grundvallarskilyrði fyrir því að eiga rétt á greiðslu atvinnuleysistrygginga að hinn tryggði sæki um slíkt til stofnunarinnar. Stofnunin telji sér ekki heimilt að greiða atvinnuleysisbætur lengra aftur en frá dagsetningu umsóknar atvinnuleitanda um atvinnuleysisbætur. Algengt sé að fólk hefji umsóknarferli án þess að ljúka við umsókn, til að mynda til að kynna sér efni þeirra eða umsóknarferlið vegna hugsanlegs atvinnumissis. Þá komi skilmerkilega fram í umsóknarviðmóti stofnunarinnar að ljúka þurfi við umsókn og senda hana inn svo að unnt sé að taka hana til afgreiðslu. Það sé mat stofnunarinnar að ekki ætti að leynast neinum hvort hann hafi lokið við og sent inn umsókn um atvinnuleysisbætur til stofnunarinnar.

Ljóst sé að Vinnumálastofnun hafi tekið við umsókn kæranda þann 5. september 2020 og því eigi hún ekki rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta fyrir þann tíma, sbr. 1. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvæði 1. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 29. gr. laganna séu fortakslaus að þessu leyti, sbr. fyrri úrskurð nefndarinnar í máli nr. 394/2020. Í ljósi þess að engin umsókn hafi borist Vinnumálastofnun fyrr en 5. september 2020 hafi kærandi ekki fengið greiddar almennar atvinnuleysistryggingar þar sem þann 7. ágúst 2020 hafi kærandi hafið störf að nýju.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja beiðni kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 26. júlí til 7. ágúst 2020.

Í 9. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um umsókn um atvinnuleysisbætur og er 1. mgr. lagagreinarinnar svohljóðandi:

Launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum er heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verða atvinnulausir. Umsóknin skal vera skrifleg á þar til gerðum eyðublöðum og henni skal meðal annars fylgja vottorð fyrrverandi vinnuveitanda, staðfesting um stöðvun rekstrar og önnur nauðsynleg gögn að mati Vinnumálastofnunar. Í umsókn skulu koma fram allar þær upplýsingar er varða vinnufærni umsækjanda og þær rökstuddar fullnægjandi gögnum.

Í 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun hafi tekið við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögunum. Í athugasemdum við 29. gr. frumvarps þess sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að miðað sé við að það tímabil sem atvinnuleysisbætur séu greiddar hefjist þegar Vinnumálastofnun móttaki umsókn um atvinnuleysisbætur.

Vinnumálastofnun tók við umsókn kæranda 5. september 2020 og á kærandi því ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir þann tíma, sbr. 1. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. október 2020, um að synja beiðni A, um greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 26. júlí til 7. ágúst 2020, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum