Hoppa yfir valmynd
11. maí 2017 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 275/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 11. maí 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 275/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17030013

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 9. mars 2017 kærði [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 31. janúar 2017, um að synja beiðni kæranda um að fá að dveljast á landinu meðan umsókn hans um dvalarleyfi væri í vinnslu og synja honum um dvalarleyfi hér á landi.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og breytt á þann hátt að kæranda verði veitt heimild til áframhaldandi dvalar hérlendis, sbr. 3. mgr. 51. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, á meðan að umsókn hans um dvalar- og atvinnuleyfi á grundvelli 62. gr. laga um útlendinga vegna skorts á starfsfólki, en til vara á grundvelli 61. gr. laga um útlendinga vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar, er til meðferðar.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi þann 20. júlí 2016. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 29. nóvember 2016, var staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar. Af gögnum málsins má ráða að kærandi hafi þann 17. janúar 2017 lagt fram umsókn um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki, sbr. 62. gr. laga um útlendinga, og umsókn um dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar þann 26. janúar 2017, sbr. 61. gr. laga um útlendinga. Með hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 31. janúar 2017, synjaði Útlendingastofnun beiðni kæranda um að fá að dveljast á landinu meðan umsókn hans um dvalarleyfi væri í vinnslu. Þá var umsókn kæranda um dvalarleyfi hér á landi synjað. Þann 9. mars 2017 óskaði kærandi eftir því að kærunefnd frestaði réttaráhrifum á ákvörðun Útlendingastofnunar meðan málið væri til meðferðar hjá nefndinni. Með úrskurði, dags. 11. apríl 2017, féllst kærunefnd á beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa. Kærunefnd hefur borist greinargerð kæranda, dags. 9. mars 2017, ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 62. gr. laga um útlendinga, og til vara á grundvelli 61. gr., var reist á því að hann væri mikilvægur starfsmaður félags [...] og hefði auk þess sérfræðiþekkingu á silfurmunum frá [...] sem félagið stefndi á að flytja inn frá [...] og selja.Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga skuli útlendingur, sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti, sækja um leyfið áður en hann kemur til landsins og að honum sé óheimilt að koma til landsins fyrr en umsókn hans hafi verið samþykkt. Á grundvelli 3. mgr. 51. gr. sé heimilt að víkja frá þessu skilyrði ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því. Að mati Útlendingastofnunar voru atvik málsins ekki þess eðlis að ríkar sanngirnisástæður mæltu með því að að víkja frá skilyrðum 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Synjaði Útlendingastofnun því beiðni kæranda um að dveljast hér á landi meðan umsókn hans um dvalarleyfi væri í vinnslu auk þess að synja honum um dvalarleyfi hér á landi. Að beiðni kæranda færði Útlendingastofnun fram rökstuðning fyrir ákvörðun stofnunarinnar þann 23. febrúar 2017.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir á því að niðurstaða Útlendingastofnunar brjóti gegn rannsóknarreglu, jafnræðisreglu og lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Vegna brots á lögmætisreglu byggir kærandi á því að ákvæði 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga verði ekki túlkað þrengra en sem vilji löggjafans standi til en í athugasemdum við ákvæðið komi fram að því megi beita þegar miklir hagsmunir séu í húfi. Vísar kærandi í þessu sambandi til skýrslu starfshóps innanríkisráðuneytisins frá 2012 um málefni útlendinga utan evrópska efnahagssvæðisins. Þar megi m.a. finna umfjöllun um mál frá 2011 þar sem innanríkisráðuneytið hafi talið að ríkar sanngirnirástæður hafi staðið til þess að heimila manni, sem hafi rekið fyrirtæki hér á landi, að dvelja hér á landi meðan umsókn hans um dvalarleyfi hafi verið til meðferðar.

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann starfi fyrir félag sem hafi lagt töluverðan tíma í rannsóknir og könnun á arðsemi hönnunar, dreifingar og sölu á [...] silfurmunum hér á landi. Könnun félagsins hafi leitt í ljós að á íslenskum markaði séu viðskiptatækifæri fyrir vöruna, sem félagið hyggist flytja til landsins frá [...]. Hafi félagið lagt fé í tilraunainnflutning á slíkum vörum. Félagið hafi lagt upp með að kærandi sinni starfi þessu tengdu í ljósi þess að hann hafi nauðsynlega reynslu og sérfræðiþekkingu á sviðinu, tengsl við [...] og starfi nú þegar hjá félaginu. Þá hafi starfið verið auglýst af félaginu með aðstoð Vinnumálastofnunar án þess að umsókn um starfið hafi borist. Í bréfi fyrirsvarsmanns félagsins til Vinnumálastofnunar vegna auglýsingarinnar hafi m.a. komið fram að sérþekking kæranda sé nauðsynleg félaginu vegna kaups og innflutnings á silfurmunum. Þar sem kærandi tali [...] muni hann jafnframt eiga í samningaviðræðum við birgja í [...]. Í ljósi framangreinds sé ljóst að verulegir hagsmunir séu í húfi í skilningi 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærandi að Útlendingastofnun hafi brotið gegn jafnræðisreglu og 22. gr. stjórnsýslulaga um rökstuðning stjórnvaldsákvarðana. Af hálfu kæranda er byggt á því að mál hans sé sambærilegt öðru máli sem hafi verið til meðferðar hjá Útlendingastofnun og fjallað hafi verið um í fjölmiðlum. Útlendingastofnun hafi ekki fallist á að málsatvik séu sambærileg og telur kærandi að stofnunin hafi ekki virt fyrirmæli 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga við það mat. Að mati kæranda séu málsatvik sambærileg og að Útlendingastofnun geri enga tilraun til að varpa ljósi á hvað sé ólíkt með málunum.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja beiðni kæranda um að dveljast á landinu meðan umsókn hans um dvalarleyfi er í vinnslu og synja honum um dvalarleyfi hér á landi.

Í 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að útlendingur sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti skuli sækja um leyfið áður en hann komi til landsins og sé honum óheimilt að koma til landsins fyrr en umsóknin hafi verið samþykkt. Frá þessu sé heimilt að víkja ef umsækjandi um dvalarleyfi sé undanþeginn áritunarskyldu eða hann sé staddur hér á landi m.a. sem umsækjandi um dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar skv. 61. gr. laga um útlendinga, sbr. c-lið 1. mgr. 51. gr. laganna. Undantekningar skv. c-lið 1. mgr. 51. gr. gilda meðan umsækjandi hefur heimild til dvalar á grundvelli gildrar vegabréfsáritunar eða á meðan umsækjandi hefur heimild til dvalar án áritunar. Þá er heimilt að víkja frá 1. mgr. í öðrum tilvikum, þ.m.t. ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því, sbr. 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Ef umsækjandi um dvalarleyfi sem dvelur hér á landi sækir um dvalarleyfi án þess að vera undanþeginn því að sækja um leyfi áður en hann kemur til landsins skv. 1. og 2. mgr. skal hafna umsókninni á þeim grundvelli, sbr. 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga.

Líkt og rakið hefur verið byggir kærandi á því að ríkar sanngirnisástæður mæli með því að undanskilja hann frá skilyrðum 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 51. gr. laganna. Beiðni kæranda er reist á þeim sjónarmiðum að hann sé afar mikilvægur starfsmaður félags sem reki [...] og að hlutverk hans hafi aukist undanfarna mánuði sökum hrakandi heilsufars beggja eigenda félagsins. Þá hefur komið fram af hálfu kæranda að hann hafi sérfræðiþekkingu á [...] silfurmunum og að félagið hafi lagst í umtalsverða undirbúningsvinnu til stækkunar á rekstri félagsins í því skyni að flytja inn, hanna og selja slíka muni. Verði kæranda ekki heimilt að dvelja hér á landi meðan umsókn hans sé til meðferðar muni fjárfesting félagsins verða til einskis en fyrsti innflutningur á silfrinu hafi verið væntanlegur snemma árs. Þá hefur kærandi lagt fram staðfestingu úr hlutaskrá félagsins þar sem fram kemur að kærandi sé eigandi hluta í félaginu.

Í athugasemdum við 51. gr. laga um útlendinga í frumvarpi til laganna segir, um 3. mgr. 51. gr., að í ákvæðinu felist almenn heimild til að undanskilja umsækjendur frá skilyrði 1. mgr. ef ríkar sanngirnisástæður mæli með því og sé ætlunin að þessu sé beitt þegar tryggja þurfi samvistir fjölskyldna eða þegar miklir hagsmunir séu í húfi. Kærandi hefur vísað til þess að viðskiptalegir hagsmunir hans yrðu fyrir borð bornir fái hann ekki heimild til að dvelja hér á landi á meðan umsókn hans um dvalarleyfi sé til meðferðar. Þótt kærandi hafi lýst viðskiptalegum hagsmunum af rekstri fyrirtækis hér á landi telur kærunefnd að hann hafi ekki sýnt fram á að hvaða leyti vera hans hér á landi er nauðsynleg til að tryggja þessa hagsmuni. Í því sambandi tekur kærunefnd fram að ekki fæst séð að þau atriði sem vísað er til í greinargerð, þ.m.t. undirbúningsvinna vegna stækkunar fyrirtækisins, viðtaka innflutts silfurs og samskipti við birgja, séu þess eðlis að miklir hagsmunir teljist vera í húfi með veru kæranda hér á landi á meðan umsókn hans er til meðferðar. Hagsmunir meðeigenda kæranda að félaginu, m.a. í ljósi hrakandi heilsufars þeirra, geti heldur ekki talist ríkar sanngirnisástæður í skilningi 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Að framangreindu virtu og með vísan til annarra atvika málsins telur kærunefnd að ekki séu fyrir hendi ríkar sanngirnisástæður sem mæli með því að kæranda verði veitt undanþága frá 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga.

Í greinargerð kæranda er vísað til fjölmiðlaumfjöllunar um mál sem kærandi telur vera sambærilegt máli sínu sem eigi að vera fordæmisgefandi fyrir niðurstöðu máls síns. Af því tilefni tekur kærunefnd útlendingamála fram að í umræddri fjölmiðlaumfjöllun kemur fram að framkvæmd flutnings hafi verið frestað í tilviki tiltekins einstaklings. Þar kemur ekki fram á hvaða grundvelli flutningnum var frestað. Kærunefnd er ekki kunnugt um að þeim einstaklingi, sem fjölmiðlaumfjöllunin varðar, hafi með ákvörðun eða úrskurði verið veitt heimild til dvalar hér á landi á meðan umsókn hans um dvalarleyfi var til meðferðar hjá stjórnvöldum á grundvelli ákvæða eldri útlendingalaga nr. 96/2002. Kærunefnd telur ekki tilefni til að gera athugasemd við efni rökstuðning ákvörðunar Útlendingastofnunar að því er varðar þessa málsástæðu kæranda í ljósi hagsmuna þess einstaklings, sem er persónuauðkenndur í greinargerð kæranda, af því að forsendur og niðurstöður mála hans hjá stjórnvöldum útlendingamála fari leynt.

Samkvæmt framansögðu er fallist á mat Útlendingastofnunar að kæranda beri að yfirgefa landið meðan umsókn hans er til meðferðar og að synja beri umsókn kæranda um dvalarleyfi, sbr. 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Verður hin kærða ákvörðun því staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                Árni Helgason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum