Hoppa yfir valmynd
15. desember 2022 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 541/2022 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 22. desember 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 541/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22100074

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 20. október 2022 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Kólumbíu (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. október 2022, um að synja henni um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að henni verði veitt alþjóðleg vernd með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að henni verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun í máli hennar verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka mál hennar til meðferðar á ný.

Fyrrgreind ákvörðun eru kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 18. maí 2022. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun 20. júlí 2022 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 6. október 2022, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála 20. október 2022. Kærunefnd barst greinargerð kæranda ásamt fylgiskjölum 3. nóvember 2022.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún sé í hættu vegna hótana frá einstaklingi í heimaríki sínu.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og henni skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.          Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir aðalkröfu sína um að henni verði veitt alþjóðleg vernd á því að hún hafi verið ofsótt og eigi á hættu að verða fyrir ofsóknum í heimaríki. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi komið fram að hún sé þolandi kynferðisofbeldis og hafi ítrekað verið hótað lífláti og ofbeldi ef hún tilkynnti brotið til lögreglu. Af þeim sökum hafi hún ekki þorað að tilkynna brotið fyrr en rúmu ári eftir að það hafi átt sér stað. Kærandi hafi lagt fram afrit af tilkynningum til yfirvalda í Kólumbíu, þar sem fram komi að hún hafi lagt fram kæru á hendur geranda sínum vegna bæði nauðgunar og hótana. Þá hafi hún lagt fram skjáskot af símanúmerum og nöfnum ofbeldismanna sinna. Að mati kæranda verði ekki annað séð en að hún hafi með fullnægjandi hætti sýnt fram á að hún hafi orðið fyrir ofsóknum og eigi enn á hættu að verða fyrir slíku í heimaríki sínu. Samkvæmt a-lið 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga komi fram að ofsóknir geti m.a. falist í andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi. Einnig sé ljóst að ítrekaðar hótanir um líflát og líkamlegt ofbeldi séu til þess fallnar að vekja verulegan ótta í huga kæranda um líf sitt og limi. Verði því ekki annað séð en að um sé að ræða athafnir sem í eðli sínu, einkum í ljósi þess að ofsóknirnar voru endurteknar, feli í sér alvarlegt brot á grundvallarmannréttindum kæranda og kærandi hafi ástæðuríkan ótta við að vera ofsótt.

Í greinargerð kæranda er því mótmælt að kærandi eigi raunhæfan möguleika á að leita ásjár stjórnvalda í Kólumbíu. Þrátt fyrir að sá möguleiki sé vissulega fyrir hendi fyrir kæranda að leita til lögreglu og kæra mál sitt, sé ekki þar með sagt að hún njóti þeirrar verndar sem skilyrði c-liðar 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga geri kröfu um. Fjölmörg dæmi séu um að yfirvöld í Kólumbíu hafi ekki veitt konum í sömu stöðu og kærandi þá vernd sem þeim sé lífsnauðsynleg. Lítið sem ekkert sé gert af hálfu lögreglu í málum þeirra fáu kvenna sem þori að stíga fram og kæra gerendur sína. Þá sé enga vernd að fá frá lögreglu eftir að kæra hafi verið lögð fram. Þurfi konurnar að leggja líf sitt að veði við það að leggja fram kæru og standa í stöðugum árásum og hótunum um að draga kæruna til baka. Kærandi hafi greint frá því að hún hafi lagt fram kæru eftir nauðgunina en vegna áreitis verið nauðbeygð til að draga kæru sína til baka enda hafi hún verið brotin á líkama og sál eftir stanslausar hótanir í sinn garð. Kærandi hafi reynt að flýja heimabæ sinn til að fá frið, en síðar ekki átt annarra kosta völ en að flýja landið. Í greinargerð kæranda kemur fram að réttarkerfið í Kólumbíu sé lamað, mikið sé um kynferðislegt ofbeldi og konur hafi enga möguleika á að leita réttar síns. Kærandi sé ekki sú eina sem gerandi hennar hafi brotið kynferðislega gegn og sterk tengsl hans og fjölskyldubönd við yfirvöld geri stöðu hennar ómögulega. Kærandi hafi síðan lagt fram kæru á ný vegna ofbeldisins og hótananna áður en hún hafi flúið heimaríki sitt.

Verði ekki fallist á aðalkröfu kæranda gerir hún þá kröfu að vera veitt alþjóðleg vernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi mótmæli þeirri niðurstöðu Útlendingastofnunar um að aðstæður hennar í Kólumbíu séu ekki með þeim hætti að þær falli undir ákvæðið. Kærandi telji að hún hafi raunverulega ástæðu til að ætla að hún muni sæta vanvirðandi og ómannúðlegri meðferð verði hún send aftur til Kólumbíu. Vísar kærandi til fyrri greinargerðar sinnar til Útlendingastofnunar og mótmælir því að aðstæður í borginni [...] séu slíkar að yfirvöld geti almennt varið grundvallarmannréttindi borgara sinna, en borgin sé m.a. talin vera eitt ofbeldisfyllsta þéttbýli í Kólumbíu. Þessu til viðbótar hafi kærandi verið beitt andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi af hálfu manns sem hafi fjölskyldutengsl við yfirvöld. Hafi hún m.a. verið lamin það illa að hún hafi hlotið mar víðsvegar um líkamann ásamt glóðarauga auk þess sem henni hafi ítrekað verið hótað lífláti. Ekkert lát hafi verið á hótunum í garð kæranda þrátt fyrir að hún hafi dregið kæru sína til baka. Gerandi hennar elti hana uppi og haldi áfram ógnandi tilburðum sínum í hennar garð.

Verði ekki fallist á varakröfu kæranda krefst hún þess að henni verð veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi telji að hún hafi ríka þörf fyrir vernd vegna félagslegra aðstæðna í Kólumbíu. Viðvarandi mannréttindabrot eigi sér stað í Kólumbíu og yfirvöld veiti þegnum sínum ekki nægilega vernd gegn ofbeldisbrotum og glæpum. Vopnaðir hópar ógni öryggi almennra borgara þar í landi auk þess sem atvinnuleysi sé mikið þar í landi.

Til þrautaþrautavara krefst kærandi þess að umsókn hennar verði tekin til nýrrar meðferðar á grundvelli 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga enda hafi ákvörðun stofnunarinnar í máli kæranda byggt á ófullnægjandi upplýsingum um stöðu íbúa í Kólumbíu.

Kærandi telur að með endursendingu hennar til heimaríkis yrði brotið gegn meginreglunni um bann við endursendingu, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

V.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem séu nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann ber fyrir sig. Þá verður efni rökstuðnings ákvarðananna að endurspegla þessi sjónarmið enda segir m.a. í 22. gr. stjórnsýslulaga að í rökstuðningi skuli vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun byggir á, meginsjónarmiða sem ráðandi voru við mat og málsatvika sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins.

Í 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. laganna séu þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær séu endurteknar feli í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Þá kemur fram í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga að ofsóknir geti m.a. falist í andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi.

Líkt og að framan er rakið er krafa kæranda um alþjóðlega vernd byggð á því að hún hafi verið beitt kynferðisofbeldi í heimaríki. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hún hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi og verið hótað ítrekað af geranda og fjölskyldu hans. Kvaðst kærandi ekki hafa fengið aðstoð yfirvalda í heimaríki og að þau gætu ekki veitt henni vernd gegn þeim aðila sem hafi brotið gegn henni.

Þrátt fyrir framangreint er í hinni kærðu ákvörðun aðeins fjallað með takmörkuðum hætti um það kynferðisofbeldi sem kærandi kveðst hafa orðið fyrir, þ. á m. hvort það teljist til ofsókna í framangreindum skilningi og hvort hún eigi á hættu að verða fyrir slíku ofbeldi við endursendingu til heimaríkis. Þá er enn fremur hvergi í ákvörðuninni fjallað um stöðu kvenna eða þolenda kynferðisofbeldis í heimaríki kæranda s.s. hvað varðar vernd stjórnvalda og félagslega stöðu. Liggur því ekki fyrir hver afstaða Útlendingastofnunar er til þeirra atburða sem kærandi leggur til grundvallar umsókn sinni um alþjóðlega vernd. Í ljósi framangreinds fær kærunefnd ekki séð hvernig Útlendingastofnun hafi talið sér fært að komast að niðurstöðu í máli kæranda án frekari rannsóknar Þá er það mat kærunefndar að viðtal við kæranda hefði mátt vera ítarlegra til þess að tryggja, í samræmi við ákvæði 2. mgr. 28. gr. laga um útlendinga, að aðstæður sem geta haft þýðingu við umsókn kæranda upplýsist. Er það mat kærunefndar að frásögn kæranda hafi gefið Útlendingastofnun ástæðu til þess að spyrja frekar út í frásögn kæranda, s.s. tímalínu atburða, til hvaða úrræða kærandi hefði gripið eftir að nauðgunin hafi átt sér stað, hvers kyns hótanir henni og móður hennar hafi borist auk félagslegra aðstæðna hennar í heimaríki.

Með greinargerð kæranda til kærunefndar fylgdi bréf og myndir frá kæranda, þar sem fjallað er með ítarlegri hætti um aðstæður hennar í heimaríki. Í bréfi til kærunefndar kveður kærandi að sá aðili sem hafi beitt hana kynferðislegu ofbeldi hafi tengsl við valdamikla aðila og njóti því verndar. Kærandi kvað aðilann hafa tengsl við stjórnvöld, herinn og ólöglega glæpahópa og að hann hefði áður brotið gegn konum án afleiðinga. Í ljósi þessara gagna er mikilvægt að kannað verði sérstaklega hvaða úrræði standi kæranda til boða vegna þess ofbeldis sem hún hafi greint frá. Þá er mikilvægt að litið verði til þeirra nýju gagna sem kærandi hefur lagt fram og hvaða þýðingu þau kunni að hafa fyrir stöðu kæranda snúi hún aftur til heimaríkis.

Meginmarkmið stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgara með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Að mati kærunefndar bera framangreind vinnubrögð Útlendingastofnunar í máli kæranda með sér að ekki hafi farið fram viðhlítandi mat á aðstæðum hennar. Telur kærunefnd að annmarkar hafi verið á rannsókn stofnunarinnar þar sem aðstæður hennar voru ekki skoðaðar með hliðsjón af hennar persónulegu aðstæðum í Kólumbíu. Málsmeðferð Útlendingastofnunar og rökstuðningur ákvörðunar í máli kæranda er, með vísan til framangreinds, að mati kærunefndar enn fremur ekki í samræmi við reglur stjórnsýsluréttar, m.a. 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga.

Kærunefnd telur framangreinda annmarka á málsmeðferð Útlendingastofnunar verulega og að þeir kunni að hafa haft áhrif á efnislega niðurstöðu máls kæranda. Þá er það mat kærunefndar að ekki sé unnt að bæta úr þeim á kærustigi og því sé rétt að mál kæranda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.

Samantekt

Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar.

 

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun í máli kæranda er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the case.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

 

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum